131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[14:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni hið merkasta mál sem nauðsynlegt er að fái þinglega meðferð og komi aftur inn í sali þingsins svo hægt sé að greiða atkvæði um það. Það er orðið til vansa fyrir þingið hvernig ár eftir ár koma fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem allar sem ein sofna í sérkjörinni nefnd sem skipuð er til að fjalla um þessi mál. Mörg af þeim málum sem hér er rætt um að verði endurskoðuð hafa komið fram í þingbúningi ár eftir ár en aldrei hlotið afgreiðslu.

Þrátt fyrir að ég sé einn af flutningsmönnum þessarar tillögu til þingsályktunar um breytingar á stjórnarskránni þá hef ég verið talsmaður þess að stjórnlagaþing sem fjalli um breytingu á stjórnarskránni verði sett á fót og reyndar flutt um það þingmál á árunum 1994–1995, fyrir 10 árum. Það voru reyndar tvö frumvörp, frumvarp til stjórnarskipunarlaga um að efna ætti til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og eins útfært frumvarp til laga um hvernig þetta stjórnlagaþing ætti að vera skipað og nefni ég það sérstaklega af því að síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Norðvest., sagði að lítið hefði komið fram um mótaðar eða fullskapaðar reglur um hvernig slíkt þing skyldi skipað. Það var nákvæmlega útlistað í frumvarpi til laga um stjórnlagaþing þar sem velja átti 41 fulltrúa til stjórnlagaþingsins sem áttu að koma úr öllum kjördæmum. Allir nema þingmennirnir sjálfir gátu komið til greina á slíkt stjórnlagaþing. Það átti sér þá skýringu að margar breytingar á stjórnarskránni eru þess eðlis að þingmenn ættu að mínu viti ekki að fjalla um þær sjálfir vegna þess að breytingarnar snerta iðulega þá sjálfa. Við þekkjum hvernig hefur farið um tillögur og frumvörp sem hafa komið fram um breytingu á kjördæmaskipan. Það tekur langan tíma að koma þeim í gegnum þingið og um þær eru skiptar skoðanir og yfirleitt horft á málin út frá sjónarhorni þingmanna sem eru að máta sjálfa sig í þær reglur sem eru uppi hverju sinni. Mér finnst því að sérstakt stjórnlagaþing eigi að fjalla um það mál og ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er langt frá því að samstaða sé um að fara þá leið að efna til stjórnlagaþings til þess að endurskoða stjórnarskrána á Alþingi.

Ég nefni t.d. mál sem stjórnlagaþing ætti að fjalla um en það eru lögin um ráðherraábyrgð, breytingar á þeim, og um landsdóm. Ég nefni einnig að ráðherrar afsali sér þingmennsku þannig að það eru ýmis mál í stjórnarskránni sem snerta þingmennina sjálfa sem stjórnlagaþing ætti að fjalla um.

Varðandi málið sem nú er til umræðu þá nefndi ég að hér er farið í tillögur um það að hverju þessi endurskoðun eigi að lúta og það eru níu mál, mjög brýn og stór mál hvert um sig sem eru tekin hér upp, sem þeir sem hafa talað á undan mér hafa farið yfir. Ég nefni sérstaklega að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er mál sem ég ásamt fleiri þingmönnum í Samfylkingunni höfum flutt a.m.k. átta sinnum og það hefur alltaf fengið sömu meðferð á þinginu, virðulegi forseti. Það fer í þessa sérstöku nefnd sem á að fjalla um stjórnarskrárbreytingar og sofnar þar og fær aldrei umfjöllun. Það er oft og iðulega þannig að þingmenn sem eru kjörnir í þá nefnd eru ekki einu sinni kallaðir saman til að fjalla um þessi mál sem er til vansa fyrir þingið.

Sama gildir um mál sem ég hef flutt um rannsóknarnefndir þingsins, að þingið hafi starfhæfa rannsóknarnefnd sem geti tekið á málum sem upp koma og rannsakað þau. Um það hefur nokkrum sinnum verið flutt þingmál en ekki náð fram að ganga. Þá erum við að tala um að til sé sérstök rannsóknarnefnd sem hafi heimild til að rannsaka mál að eigin frumkvæði og að nefndin sé ekki háð því, eins og kveður á um í 39. gr. stjórnarskrárinnar, að meiri hluti þingsins geti fellt að slík rannsókn fari fram. Örlög þeirra 50 eða 60 tillagna sem hafa verið fluttar um stofnun sérstakrar rannsóknarnefndar á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar hafa orðið þau að engin þeirra hefur náð fram að ganga nema ein ef ég man rétt. En þá var um að ræða rannsóknarnefnd sem þingið þurfti ekki að staðfesta eða samþykkja að væri sett á laggirnar.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að þessi mál komi til endurskoðunar næst þegar við mönnum okkur upp í að endurskoða stjórnarskrána og ég tel að bæði lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm sem ég hef nefnt hafi iðulega verið flutt sem sérstök þingmál. Fyrir þessu þingi liggur m.a. að heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð fari fram, það komi einnig til skoðunar þegar stjórnarskráin verður endurskoðuð en tillagan sem nú liggur fyrir þinginu hefur það að markmiði að einfalda framkvæmd laga og kanna hvort tryggja eigi tilteknu hlutfalli alþingismanna málshöfðunarrétt samkvæmt lögunum. Jafnframt hafa verið kannaðir kostir þess og gallar að leggja af landsdóm en ábyrgð á hendur ráðherrum verði komið fram fyrir almennum dómstólum.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka en ég vil nefna eitt mál enn sem ég tel að eigi að koma til skoðunar þegar ráðist verður í breytingu á stjórnarskránni. Það mál hefur ekki verið flutt á Alþingi í langan tíma. Það eru breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Að veitt verði heimild til að valfrelsi við kosningar til Alþingis verði sem mest og ég minni þar á frumvarp sem var flutt fyrir mörgum árum, sennilega 20 árum, af Magnúsi H. Magnússyni og fleiri þingmönnum sem hafði það að markmiði að veita kjósendum sem allra mest valfrelsi við kosningar til Alþingis og veita þeim kost á að ráða alfarið röðum frambjóðenda á viðkomandi framboðslista um leið og kosning fer fram. Ég tel að þetta mál eigi að koma til skoðunar. Það sem var athyglisvert varðandi málið þegar það var flutt fyrir 20 árum var að það var afgreitt inn í þingið aftur með sérstöku nefndaráliti frá meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar sem mælti með að málið yrði samþykkt. Formaður og framsögumaður meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar á þeim tíma er núverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson sem mælti með að frumvarpið yrði samþykkt. Fróðlegt væri að vita hvort hann er sama sinnis nú.