131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[14:54]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér hefur verið lögð fram á Alþingi og er til umræðu í dag um breytingar á stjórnarskrá. Ég vil fyrst segja að ég er algerlega sammála því að Alþingi skipi nefnd til þess að koma sér saman um tillögur til breytinga á stjórnarskránni. Að óbreyttu fyrirkomulagi er eðlilegt að Alþingi sjálft hafi málið í sínum höndum en ekki ríkisstjórnin. Það var lengst af þannig á síðustu öld að stjórnarskrárbreytingar voru viðfangsefni Alþingis undir forustu stjórnmálaflokkanna en ekki viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Ég geri mikinn greinarmun á því og tel það miklu æskilegra fyrirkomulag að stjórnmálaflokkarnir og Alþingi hafi málið í sínum höndum en það sé ekki á forræði framkvæmdarvaldsins.

Í öðru lagi vil ég taka undir þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð, að alþingismenn eru að mörgu leyti í erfiðri stöðu til að fjalla um breytingarnar sem gera á á stjórnarskránni vegna þess hversu nátengdir þeir eru breytingunum sjálfum. Þeir eru í allnokkrum mæli að fjalla um eigin stöðu. Þess vegna hef ég haft töluverðan áhuga á þeim hugmyndum sem fram hafa komið um stjórnlagaþing og mér finnst að rökstuðningurinn á bak við að halda slíkt þing sé mjög sterkur, að stjórnlagaþing þar sem valdir eru fulltrúar þjóðarinnar með einhverjum hætti ákveði í raun tillögurnar sem þjóðin á síðan að kjósa um og sem síðan eiga að vera leikreglurnar sem þingið á að starfa eftir. Það skiptir máli að sá sem vinnur eftir einhverjum leikreglum geti ekki sjálfur breytt þeim að eigin vild þegar honum hentar.

Við sáum dæmi um það áþreifanlega á liðnu sumri að það er greinilegt að fyrirkomulagið sem við búum við í dag veitir æðstu valdamönnum landsins of mikil tök á því að ráða því hvernig leikreglurnar eru sem þeim er gert að vinna eftir. Það er ekki æskilegt að menn séu í þeirri stöðu að geta safnað miklu valdi í sínar hendur. Við skulum ekki gleyma því að þingræðið byggir á því að löggjafarvald og framkvæmdarvald eru mjög samtvinnuð og því til viðbótar er okkar löggjöf þannig að handhafi framkvæmdarvaldsins ræður því hvernig dómsvaldið er skipað. Við erum því með allar greinar ríkisvaldsins á höndum þeirra einstaklinga sem eru valdamestir í stjórnmálunum hverju sinni.

Þetta fyrirkomulag er óæskilegt. Það hefur gengið sér til húðar. Það þarf ekki annað en að vísa til þeirra atburða sem orðið hafa á liðnu ári til þess að undirstrika það að við getum ekki búið við það fyrirkomulag að menn geti ráðið miklu um það að breyta þeim ramma eða leikreglum sem þeim er ætlað að starfa eftir.

Það þætti nú ekki góð latína í knattspyrnuleik ef leikmennirnir gætu í miðjum leiknum ákveðið að breyta þeim leikreglum sem dómarinn á að dæma eftir og ef þeir væru komnir í sókn upp hægri vænginn og það ætti að dæma þá rangstæða og boltann af þeim, að þá gæti lið sagt: „Ja, við ætlum að breyta leikreglunum þannig að við getum haldið áfram okkar sókn eða skipt dómaranum út og sett annan dómara inn á.“ (KLM: Upp hægri kantinn.) Menn sjá auðvitað að svoleiðis lagað getur ekki gengið. Leikreglur eru settar. Þær eru grundvöllur lýðræðislegs fyrirkomulags og þeir sem vinna eftir þeim mega ekki ráða of miklu um þær og geta breytt þeim að eigin hentugleika hverju sinni. Þetta held ég að við ættum að undirstrika.

Herra forseti. Það er margt sem ég vildi nefna sem ekki er tími til að hafa orð á í þessari ræðu. Ég nefni samt fáein atriði. Ég vil fyrst undirstrika að ég tel að við eigum að breyta hlutunum þannig að þær stjórnarskrárbreytingar sem þingið kemur sér saman um eigi að leggja fyrir þjóðina sjálfstætt í kosningum þar sem kosið yrði um hverja og eina breytingartillögu. Þannig segði þjóðin til um það hvort þær nái fram að ganga. Jafnvel þótt við höfum fyrirkomulagið að öðru leyti eins, að þingið ákveði hvaða tillögur skuli lagðar fyrir og samþykki þær með lögum og taki þær til afgreiðslu á seinna þingi þá lægi afstaða þjóðarinnar til tillagnanna sjálfra alltaf fyrir. Það tel ég grundvallaratriði því að fyrirkomulagið eins og það er hér á landi hefur þróast þannig að stjórnarskrárbreytingar hafa horfið út úr kosningabaráttunni. Um þær hefur í raun ekki verið kosið.

Ég tel í öðru lagi að ekki eigi að hrófla við stöðu forseta Íslands. Hann á að hafa málskotsrétt sinn áfram en það má skoða hvort setja eigi efnislegar viðmiðanir sem forsetinn hafi til hliðsjónar þegar hann ákveður hvort beita eigi þeim rétti eða ekki.

Ég tel, herra forseti, að það ætti að breyta dálítið eðli þingræðisins. Sá vandi sem við höfum átt við að stríða hér á landi, of samtvinnað framkvæmdarvald og Alþingi, er líka vandi sem við sjáum erlendis, sem leiðir til þess að of mikil völd eru í höndum of fárra manna, þ.e. leiðtoga flokkanna. Það dregur úr völdum þjóðþinganna og það getum við t.d. séð í Bretlandi. Ég held að við eigum að stíga það skref að setja ráðherrana út af þingi. Þeir eiga ekki að sitja á þingi. Ef við höfum þá reglu að þeir megi koma aftur inn á þingið þegar þeir hafa misst ráðherrasæti sitt þá eigum við að tryggja að þeir séu ekki í þingflokkunum og taki ekki ákvarðanir um störf þingsins.

Ég vil að lokum, herra forseti, segja að skipulagið sem við höfum kosið okkur, lýðræðisskipulagið, byggist á stjórnmálaflokkum. Þeir eru mikilvægasta grunneining lýðræðisfyrirkomulagsins. Þess vegna þurfum við að rækta stjórnmálaflokkana. Þeir þurfa að vera öflugir og aðlaðandi fyrir almenning til að starfa í. Það þarf að vera ljóst að þeir sjálfir starfi eftir lýðræðislegum leikreglum og séu ekki háðir öðrum öflum í þjóðfélaginu í það miklum mæli að ætla megi að afstaða þeirra í mikilvægum málum ráðist af því, svo sem fjárhagslegum stuðningi eða slíku. Þess vegna þurfum við að hafa sérstök ákvæði um stöðu stjórnmálaflokkanna, herra forseti.