131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Talsmaður neytenda.

18. mál
[15:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Suðvest. fyrir frumkvæði hennar í að koma þessu máli til þingsins. Við fjöllum hér um mjög mikilvægt mál fyrir neytendur. Öflug neytendavernd er grundvallaratriði hjá þeim sem búa við markaðsskipulag, eigi það að virka til hagsbóta fyrir neytendur. Það vantar verulega upp á að löggjöf okkar í neytendamálum sé virk og traust til hagsbóta fyrir neytendur. Þar erum við nokkuð aftar en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þar má m.a. nefna aðrar Norðurlandaþjóðir sem fyrir löngu hafa komið á fót talsmanni eða umboðsmanni eins og hér er lagt til.

Við þekkjum það í þjóðfélagi okkar þar sem fólk býr við hvað hæstan framfærslukostnað miðað við þær þjóðir sem við berum okkur saman við, við þekkjum frá umliðnum árum það samsæri sem viðhaft hefur verið í atvinnulífinu gegn neytendum. Þar er hægt að nefna tryggingafélögin sem hlunnfóru neytendur um marga tugi milljarða króna og þurftu ekki að sæta neinni refsingu fyrir og við þekkjum grænmetisgeirann þar sem neytendur bjuggu við þau vinnubrögð á þeim vettvangi að þar var stundað samráð til þess að geta haldið uppi háu verðlagi. Svo er náttúrlega nýjasti skandallinn, samsæri gegn neytendum sem olíufélögin hafa stundað í heilan áratug sem kostað hefur þjóðfélagið um 40 milljarða kr. Þetta er það umhverfi sem við búum í og við vitum að sú leið sem er líkleg til að tryggja að svona gerist ekki er að við búum við öfluga neytendavernd. Stór liður í því er að stofna embætti talsmanns neytenda.

Eftir að ákveðið hafði verið að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis talsmanns neytenda bárust spurnir af því að viðskiptaráðherra væri með slíkt mál í smíðum. Það er ekki komið inn í þingið en var kynnt efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Það frumvarp sem við fórum lauslega yfir segir mér að margt þarf að laga í frumvarpinu ef það á að gagnast neytendum eins og ætlanin er. Í því máli sem við fjöllum um hér er einmitt lögð áhersla á tvö grundvallaratriði sem ekki er að finna í frumvarpi viðskiptaráðherra, þ.e. að embætti talsmanns eða umboðsmanns neytenda vinni sjálfstætt og sé fjárhagslega sjálfstætt og að embættið eða neytendavernd verði skipuð með sama hætti og um ræðir í nágrannalöndunum í samræmi við markmið um neytendavernd á hinu Evrópska efnahagssvæði. Eins og málið er úr garði gert af hálfu viðskiptaráðherra er langt í frá að það standist. Þess vegna á þessi tillaga fullan rétt á sér. Við gerum auðvitað kröfu um að hún fái þinglega meðferð og verði höfð til hliðsjónar þegar gengið verður frá fullbúnu frumvarpi um stöðu talsmanns neytenda.

Nú má um það deila hvort embættið eigi að heita „talsmaður neytenda“ eða „umboðsmaður neytenda“. Margt mælir með því að skoða beri að embættið heiti „umboðsmaður neytenda“ eða „stofnun embættis umboðsmanns neytenda“ þannig að ekki verði það skör lægra en t.d. embætti umboðsmanns barna sem hefur gert mjög marga góða hluti á þeim árum sem það hefur starfað. Í því frumvarpi sem viðskiptaráðherra mun leggja fyrir þingið fer því fjarri að talsmaður neytenda hafi sama sess og t.d. umboðsmaður barna. Samt hefur verið litið svo á að illa hafi verið búið að umboðsmanni barna, fámennt starfslið og ótal verkefni sem þar er að sinna, en í frumvarpinu hjá hæstv. viðskiptaráðherra um Neytendastofu og talsmann neytenda er gert ráð fyrir að talsmaður neytenda verði staðsettur í nýrri stofnun sem á að heita Neytendastofnun og á að taka við af Löggildingarstofunni. Þar er verið að hræra saman ýmsum ólíkum verkefnum sem Löggildingarstofa hefur haft. Því þarf að gjörbreyta og taka út ýmis verkefni og skilgreina betur til þess að þetta verði sú stofnun neytenda og talsmaður neytenda sem nauðsynlegt er.

Þarna er t.d. gert ráð fyrir að Neytendastofa fari með rafmagnsöryggismál, eins og kveðið er á um í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raflagna. Jafnframt er rætt um það í frumvarpinu að lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara falli þarna undir og fleira sem ég sé ekki að geti átt heima þarna með eðlilegum hætti.

Síðan er einungis gert ráð fyrir í frumvarpi ráðherra að þau sex stöðugildi sem nú eru á neytendasviði Samkeppnisstofnunar verði flutt yfir í Neytendastofu og ekki verði um viðbótarstarfsfólk að ræða nema þennan eina talsmann neytenda. Hann þarf að sækja til Neytendastofunnar sjálfrar um starfslið og undir því er komið að hann geti sinnt eðlilega sínu verki. Hann mun ekki hafa sambærileg verk á sinni könnu eins og t.d. er hjá umboðsmönnum neytenda annars staðar á Norðurlöndunum. Hann mun ekki vinna að stefnumótun eða rannsóknum sem er þó mjög nauðsynlegt að umboðsmaður geri og hann hefur ekki á sérstöku starfsliði að skipa. Stefnumótun á þessu sviði verður á hendi sérstaks forstjóra Neytendastofu og Neytendastofunnar sjálfrar en ekki hjá talsmanni neytenda.

Ég hef því dálitla ástæðu til að drepa á þetta hér um leið og við ræðum þetta mikilvæga mál sem er flutt undir forustu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Ég vona að sú nefnd sem fær bæði þessi mál til meðferðar, tillöguna sem við ræðum hér og síðan það frumvarp til laga sem viðskiptaráðherra flytur um Neytendastofu og talsmann neytenda, beri gæfu til þess að gjörbreyta frumvarpi viðskiptaráðherra þar sem tekið verður tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í þessari tillögu um stofnun embættismanns, talsmanns neytenda. Ég gagnrýni það harðlega að hæstv. viðskiptaráðherra skuli ekki við undirbúning þessa máls um Neytendastofu og talsmann neytenda hafa haft betra og nánara samstarf við Neytendasamtökin og verkalýðshreyfinguna en raun ber vitni. Þeir aðilar búa yfir margvíslegri þekkingu í þessum málum.

Mikilvægast er þó að við getum lent þessu máli hér á þingi þegar það verður fullbúið og hefur fengið meðferð í þingnefnd þannig að sómi sé að fyrir okkur. Nógu lengi hefur verið beðið eftir því að fá hér umboðsmann eða talsmann neytenda sem tryggi betur hag neytenda og stuðli að bættri neytendavernd.