131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Talsmaður neytenda.

18. mál
[16:07]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel að markmið þessarar tillögu sé mjög gott, þ.e. að efla hag neytenda. Ég get heils hugar tekið undir að ekki er vanþörf á því nú, dæmin sanna það. Við höfum olíumálið þar sem verið er að hafa af neytendum, öllum sem hafa bílpróf, ótrúlegar upphæðir. Þegar saman safnast eru það milljarðar króna sem olíufélögin hafa rakað til sín.

Aftur á móti er ég ekki jafnsannfærður um að rétt sé að stofna enn eina örstofnunina. Það kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að embætti talsmanns neytenda ætti ekki að vera skör lægra en embætti umboðsmanns barna. Ég tek undir það. Það embætti kostar samt um 25 millj. kr. Ég tel að ef við ætluðum að verja frekar hag neytenda yrði fjármununum betur varið með því að efla Samkeppnisstofnun. Hún hefur um 180 millj. til ráðstöfunar. Mér finnst eins og staðan er nú að menn ættu að horfa til þess að efla Samkeppnisstofnun því að mál eru árum saman að velkjast innan stofnunarinnar. Það er full þörf á því að efla hana. Ef við ætlum að ná fram markmiðum tillögunnar tel ég bestu leiðina vera að veita fjármuni í Samkeppnisstofnun og síðan að skoða hvaða leiðir eru til að efla Neytendasamtökin í stað þess að fara í enn eina örstofnunina.

Eins og áður segir höfum við málið með samráð tryggingafélaganna — ég man ekki hvað það tók mörg ár, var það fjögur ár að velkjast í rannsókn hjá Samkeppnisstofnun, eða var það lengur? Síðan eru það heildarsamtök þeirra sem veita internetþjónustu í samkeppni við ríkisrekið fyrirtæki og það tekur á annað ár að fá einhvern botn í kvörtun. Þá er hægt að áfrýja málinu til áfrýjunarnefndar. Sú málsmeðferð hvað varðar viðskiptaumhverfið er algjörlega óviðunandi og full þörf á að endurskoða og skoða með opnum hug hvaða leiðir eru færar til að ná fram markmiðunum. Ég er ekki að draga úr því að það þarf greinilega, hvert málið rekur hér annað. Við þurfum að skoða hvernig við getum náð fram því markmiði að bæta hag neytenda. Að því leyti get ég tekið undir markmið frumvarpsins þótt ég hafi vissar efasemdir um sjálfa leiðina, að stofna enn eina stofnunina.

Þar sem gallar eru á því að fara þá leið að setja málaflokkinn með auknum þunga inn í Samkeppnisstofnun kemur fram í greinargerðinni að Samkeppnisstofnun geti ekki tekið afstöðu til hagsmunagæslu fyrir einn aðila markaðarins gegn öðrum. Það má vel taka undir það en er þá ekki önnur leið að skoða það einfaldlega að efla Neytendasamtökin? Ég tel að það væri fín leið.