131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Talsmaður neytenda.

18. mál
[16:11]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef mikla samúð með sjónarmiðum síðasta hv. ræðumanns, Sigurjóns Þórðarsonar, og er ekki hrifinn af því að fjölga ríkisstofnunum, litlum eða stórum. Hins vegar er þessi málaflokkur auðvitað fyrir hendi í ríkisstofnunum eða hjá starfsmönnum ríkisins, annars vegar í neytendamáladeild Samkeppnisstofnunar og hins vegar í viðskiptaráðuneytinu. Við höfum — mér liggur við að segja í áratugi og ég held að það sé rétt — í áratugi kvartað yfir því að þeim starfsmönnum sem þarna er um að ræða hafi ekki verið gefið svigrúm til þess að gera nægilega vel á þessu sviði, og hreinlega yfir því að í nútímasamfélagi af því tagi sem hér er upp komið þarf einfaldlega meira fé, fleiri starfsmenn til að sinna þessum málaflokki.

Það er auðvelt og einfalt eins og hv. 1. flutningsmaður gerir í greinargerð sinni eða þeirri greinargerð sem hún hefur haft yfirstjórn með að semja að vísa einfaldlega til Norðurlanda, til norrænu ríkjanna, þeirra sem við þekkjum best hér á Íslandi. Þegar yfir þau er flogið sér maður að þar er alls staðar um að ræða slíka umboðsmenn neytenda eða talsmenn af einhverju tagi í tengslum við einhvers konar ríkisstofnanir sem víða eru þó fámennar miðað við fólksfjöldatölur þar og einkar skilvirkar. Ég held að því megi koma fyrir hér.

Ég tek mjög undir það líka með síðasta hv. ræðumanni að brýn þörf er á því að efla Neytendasamtökin. Neytendasamtökin eru hins vegar frjáls félagasamtök sem ekki geta tekið að sér það verkefni sem umboðsmönnum eða talsmönnum neytenda er falið þar sem þeir eru til. Það er eðlismunur á starfi slíkra frjálsra félagasamtaka og því starfi sem umboðsmaður neytenda eða talsmaður sinnir, og sinnir í þeim krafti að hann er fulltrúi ríkisvaldsins með nokkrum hætti þó að hann sé ekki og eigi aldrei að vera fulltrúi ráðherra eða ríkisstjórnar.

Það er t.d. eitt sem þarf að gera við það að koma neytendamálum betur fyrir hér á Íslandi, það að athuga með hvaða hætti menn ætla að hafa framtíðarskipulag á því sem nú heitir kvörtunar- og leiðbeiningarþjónusta Neytendasamtakanna. Þau ein sjá um hana en njóta að vísu að hluta til fjárveitingar frá Alþingi, í gegnum viðskiptaráðuneytið, en sú þjónusta er í heild sinni kostuð af ríkisvaldinu í hinum norrænu ríkjunum og þykir engum það tiltökumál.

Í greinargerðinni er einmitt fjallað um það að umboðsmaður eða talsmaður neytenda geti sem hægast starfað í tengslum við frjáls félagasamtök af því tagi sem við þekkjum í Neytendasamtökunum okkar og slíkt samstarf gæti orðið, held ég, árangursríkt og áhugavert vegna þess að Neytendasamtökin hafa frá upphafi þrýst á um að hagsmuna neytenda sé gætt og hafa verið í fararbroddi við að kynna fyrir þjóðinni þau sjónarmið sem þá þóttu nýstárleg. Sumum þóttu þau afkáraleg. En þau hafa nú valdið því að það er að takast pólitísk samstaða um að stofna til þess embættis sem þessi tillaga gerir ráð fyrir. Að minnsta kosti er á leiðinni — það upplýsti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þeim sem ekki vissu það fyrir — frumvarp frá viðskiptaráðherra sem heitir svipuðu nafni um talsmann neytenda.

Það var nú erindið í ræðustólinn að ég vildi segja, án þess að ætla að fara að tala um annað þingmál en það sem liggur fyrir, að einkum þrennt skiptir máli um það hvort vel tekst til í þessu efni eða ekki. Ég nota orðið talsmaður vegna þess að það er notað bæði í tillögu okkar Þórunnar Sveinbjarnardóttur og fleiri samfylkingarmanna og í frumvarpi ráðherrans. Ég held að það fyrsta sé það að talsmaðurinn njóti fulls sjálfstæðis. Hann verður að njóta fulls sjálfstæðis og hann verður að hafa burði til að koma fram sem sá fulltrúi neytenda sem hann á að vera. Það þýðir að það verður að vera skýrt hvaða valdsvið hann á að hafa og hvert erindi hans er.

Í tillögunni er það orðað svo, með leyfi forseta:

„Talsmanni neytenda verði frjálst að taka upp hvert það mál er varðar hagsmuni neytenda og sækja mál fyrir dómstólum ef þurfa þykir.“

Í norrænu ríkjunum á einmitt umboðsmaður neytenda að geta höfðað mál. Hann á að geta gert tillögur um breytingar á lögum og hann á að geta með sínum hætti stuðlað að setningu reglna um nánari umferðarreglur á markaðnum og sums staðar tíðkast það að honum er gert að segja almennt álit sitt á ákveðnum hlutum. Þá er það þannig að menn taka mark á því áliti vegna þess að embættið hefur unnið sér virðingu og yfirleitt þarf ekki meira um það að fjalla og ekki um þau sár að búa frekar.

Þetta skiptir verulegu máli og þar með skiptir máli að hæfi hans sé vel skilgreint. Það er svo með ákveðnum hætti hér í tillögunni. En á það vantar í því þingmáli sem ég ætlaði ekki að ræða mikið eða a.m.k. því sem ég hef séð af því. Þar eru sem sé engar hæfiskröfur í raun og veru, ekki einu sinni lögmannskröfur að ég hygg. En á Norðurlöndum er gert ráð fyrir dómarahæfi í þessu starfi.

Í öðru lagi verður, eins og stendur í tillögunni, embættið að hafa sjálfstæðan fjárhag. Fjárveitingar til þess verða að vera alveg skýrar og það á ekki að þurfa að sækja undir aðra en fjárveitingavaldið sjálft um peningana, með milligöngu ráðuneytis auðvitað eins og þurfa þykir. Það má ekki vera þannig og það er vís dauði að talsmaðurinn sé settur sem skrifstofumaður í einhverja aðra stofnun og forstöðumanni þeirrar stofnunar sé gert að biðja um fjármagn fyrir talsmanninn og síðan að úthluta því til hans eins og annarra skrifstofumanna sinna.

Í þriðja lagi verður talsmaðurinn að hafa full ráð yfir sínu starfsliði. Hann verður að geta annast stefnumótun og hann verður að hafa verkstjórn í sínum höndum með þeim starfsmönnum sem undir hann heyra og það má ekki vera þannig að hann þurfi að leita leyfis einhvers annars, einhvers forstöðumanns yfir einhverju sem kemur honum ekki við, til þess að nýta það starfslið eða skipa því fyrir.

Ég held að þetta sé sá þrefaldi grundvöllur sem talsmaður neytenda eða umboðsmaður verður að standa á til þess að vera ekki bara einhver brandari. Þessa er gætt í þessari þingsályktunartillögu og ég vona að svo verði líka í því þingmáli sem að lokum verður hér samþykkt sem ný lög um talsmann eða umboðsmann neytenda, vonandi í vetur.