131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Talsmaður neytenda.

18. mál
[16:19]

Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið sagt, og mikið er til í því, að markaður sé aðeins frjáls ef neytendur knýja hann áfram. Það er vafalaust umhugsunarefni fyrir okkur öll á Íslandi, sérstaklega nú á þessum síðustu og verstu tímum, hversu margir markaðir á Íslandi eru sannarlega ekki knúnir áfram af neytendum. Því er mikið fagnaðarefni að það skuli vera komið í slíkt hámæli í opinberri umræðu að nú hilli undir það að til verði einhvers konar stofnun eða talsmaður neytenda á Íslandi.

Ég vil sérstaklega taka undir það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan um hæfnisskilyrði þess einstaklings sem tæki að sér slíkt embætti. Það skiptir meginmáli. Það er ómetanlegt og forsenda trúverðugleika embættisins að viðkomandi aðili búi við það sem hv. þm. Mörður Árnason lýsti.

Nauðsynlegt er að gera greinarmun á því hvað samkeppniseftirlit annars vegar er og neytendarannsóknir hins vegar. Samkeppniseftirlit og starfsemi Samkeppnisstofnunar kom til á Íslandi upp úr því að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Hún er að verða tíu ára gömul og var stofnuð upp úr Verðlagsstofnun. Fyrir einhvers konar sögulegt slys færðist alls kyns aukastarfsemi undir Samkeppnisstofnun, þar á meðal hlutir sem ættu að heita neytendarannsóknir en ekki verið sinnt sem skyldi. Neytendarannsóknir hafa hins vegar raunverulega ekki verið til á Íslandi í þeim mæli sem nauðsynlegt er í því evrópska nútímamarkaðssamfélagi sem Ísland er sem betur fer orðið.

Samkeppniseftirlit á fyrst og fremst að varða eftirlit og eftirfylgni með hegðun fyrirtækja á markaði. Neytendarannsóknir eiga að ganga út á það að skoða hvers konar vöru, hvers konar þjónustu og hvers konar verk einstaklingar, neytendur á markaði, fá í hendur þegar þeir greiða fyrirtækjum sem bjóða til sölu vöru sína, þjónustu eða verk. Þetta snýst um það hvers konar efndir séu á bak við þau loforð, hvað felist í því sem neytendurnir fá afhent.

Þetta eru allt annars konar viðfangsefni en þau sem Samkeppnisstofnun hingað til hefur að mestu leyti verið að fást við. Þetta viðfangsefni hefur verið algjörlega vanrækt á Íslandi og á þessu er satt að segja talsvert lítil þekking hérlendis.

Það sem skiptir kannski hvað mestu máli nú, ef út í það verður haldið að koma á fót slíku embætti hér á Íslandi, er að til þess verði varið nægum fjármunum til þess að viðkomandi starfsemi njóti trúverðugleika bæði hjá almenningi og ekki síður hjá fyrirtækjunum í landinu. Neytendarannsóknir eru flókin og oft kostnaðarsöm starfsemi. Það þarf að greina tiltekna vöru, tiltekin matvæli frá matvælafyrirtækjum eða flókna tæknivöru sem flutt er inn til landsins. Þetta eru kostnaðarsamar aðgerðir. Þetta krefst þekkingar og krefst þess að það sé gert á réttan hátt. Til þess að ekki verði betur heima setið en af stað farið verður að leggja nægilega fjármuni og nægilega mikið afl í þetta til að íslensk fyrirtæki taki mark á þessu og til að íslensk fyrirtæki njóti þess sem þarna er á ferðinni og þetta verði sannanlega til þess fallið að styrkja vöruframboð og þá þjónustu sem íslenskum neytendum er boðin.