131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Efling starfsnáms.

27. mál
[16:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég get tekið heils hugar undir markmið þingsályktunartillögunnar, þ.e. að efla verknám. Það er allt of oft bara talað um það og lítið gert og löngu orðið tímabært að gera átak í þeim málum. Að vísu finnst mér sá starfshópur sem á að skipa samkvæmt þingsályktunartillögunni nokkuð stór og hefði talið vænlegra að hafa hann minni og þá væri markvisst unnið að þessu góða máli.

Einnig kemur fram ágætismarkmið í þingsályktunartillögunni, að stofna styttri námsbrautir, vegna þess að það er ágætt að hafa markmiðið nálægt sér. Það getur verið sérstaklega gott fyrir unglinga sem finnst árið mjög langt og hvað þá fjögur ár, að hafa markmiðið nálægt sér. Það veit maður m.a. úr íþróttum að það getur verið gott að hafa þannig markmið. Menn geta náð einni tröppu og þá er hægt að fara í þá næstu.

Eins tel ég rétt að hafa reiknilíkön til viðmiðunar en reiknilíkön í menntakerfinu eru nokkuð gölluð. Samkvæmt reiknilíkönum væri mjög gott fyrir þjóðfélagið að allir væru að læra lögfræði og viðskiptafræði en ef maður skoðar heildarhagsmuni þjóðfélagsins skiptir verulega miklu máli að vernda fjölbreytileikann hvað varðar menntun. Einnig skiptir verulegu máli að tekið sé tillit til minni skóla og minni deilda, sérstaklega hvað varðar verknám og raunvísindi.

Ég vil minnast á ákveðið nám sem virðist ekki vera í uppáhaldi hjá hæstv. menntamálaráðherra og ég ætla að nota tækifærið hvað eftir annað að minna hana á það og það er fiskvinnslunám. Það er alveg ótrúlegt að þjóð sem byggir svo mikið á sjávarútvegi skuli vera búin að leggja niður fiskvinnslunám. Maður spyr sig um forgangsröðunina, sérstaklega ef skoðað er hverjir eru gæðastjórar í fyrirtækjum og jafnvel framleiðslustjórar í sjávarútvegsfyrirtækjum sem margir telja að séu mjög vel rekin og hæla sér af. Þeir hafa margir hverjir ef ekki flestir gengið í fiskvinnsluskóla. Ríkisstjórnin sem situr við völd talar nú stundum um að efla verknám og lítið gerist. Það er enginn fiskvinnsluskóli eða menntun í fiskvinnslu í landinu. Það finnst mér alveg ótrúlegt og vel þess virði að minnast á það hér.

Að lokum ætla ég að ítreka það enn og aftur að það er ekki nóg að hafa reiknilíkön hvað varðar menntun heldur verður þjóðfélagið að hugsa um að varðveita fjölbreytileikann.