131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Efling starfsnáms.

27. mál
[16:49]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur gert ágætlega grein fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu starfsnáms og styttri námsbrauta sem við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar flytjum. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom víða við og minntist á flest það sem máli skiptir. Ég vil þó bæta örfáum atriðum við sem tengjast tillögunni á ýmsan hátt.

Það var athyglisvert að á haustdögum þegar hæstv. menntamálaráðherra þurfti að bregðast við þeim tíðindum að ýmsir nemendur hefðu ekki fengið svör um það hvort þeir fengju skólavist í framhaldsskólum kom fram að það væri þó a.m.k. búið að tryggja það að allir þeir nemendur sem lokið hefðu grunnskóla sl. vor fengju inngöngu í framhaldsskóla.

Frú forseti. Þetta viðhorf segir því miður allt of mikið um almennt viðhorf til menntunar, að menntun eigi ætíð að vera í einhverri beinni línu og hvert skólastig að taka sjálfvirkt við af öðru. Þannig er málum ekki almennt háttað heldur er auðvitað fjöldi nemenda sem hefur nám á einhverju skólastigi eða hefur nám á einhverri braut, tekur sér síðan hlé af ýmsum ástæðum og kemur svo aftur í skólana, tekur jafnvel hlé langtímum saman af félagslegum ástæðum, fjárhagslegum ástæðum eða ástæðum sem geta verið af fjölmörgum toga, og að æðsti yfirmaður menntamála á Íslandi skuli ætla að afgreiða þann hóp sem sækir um nám í framhaldsskólum á þennan hátt nær auðvitað ekki nokkurri átt árið 2004.

Þannig er t.d. með margs konar starfsnám að nemendur þurfa að gera hlé á náminu í skólunum jafnvel vegna námsins og sækja sér starfsþjálfun á vinnumarkaði. Það mátti jafnvel skilja orð hæstv. menntamálaráðherra á þann hátt að þeir nemendur væru settir í annað eða þriðja sæti gagnvart því að fá skólavist í framhaldsskólum. Skilaboð af þeim toga eru að sjálfsögðu ekki til þess fallin að efla starfsnám eða styttri námsbrautir. Þetta eru skilaboð um að ef menn passi ekki inn í einhvern fyrir fram ákveðinn farveg í skólakerfinu geti þeir átt von á hverju sem er.

Frú forseti. Ég ætla að ræða frekar um það sem tengist beint þingsályktunartillögunni eins og það hvernig sá ágæti starfshópur sem að henni kemur verði saman settur. Það má að vísu taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að samsetningin kallar á býsna stóran hóp sem hugsanlega yrði ekki mjög snöggur að ljúka störfum, en auðvitað þekkjum við það að stórir hópar geta myndað með sér minni hóp sem sér um ákveðna framkvæmd og keyrir málið hraðar áfram. Það er hins vegar nauðsynlegt þegar mál eru sett í slíkan farveg að öll sjónarmið komi að borðinu. Það er algjört lykilatriði þegar við horfum til starfsnáms að fullur skilningur sé á milli skólanna og atvinnulífsins hverju verið er að velta fyrir sér og hvað leið við viljum fara.

Það hefur því miður ekki alltaf verið full og trygg tenging á milli atvinnulífsins og skólanna. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í skólum landsins varðandi það að setja á stofn stuttar námsbrautir sem því miður hafa ekki allar náð fram að ganga af þeirri einföldu ástæðu að það hefur ekki náðst fullur taktur við atvinnulífið. Nemendur eru nú almennt býsna skynsamur hópur sem veltir fyrir sér hlutunum og alveg ljóst að námsbrautir sem settar eru af stað sem ekki tryggja ákveðin réttindi eða skila sér með einhverjum hætti t.d. til betri launa á vinnumarkaði ná ekki fótfestu. Þess vegna er mjög brýnt að fulltrúar allra þeirra aðila sem nefndir eru í tillögunni eigi seturétt við borðið þegar um málið er fjallað því að ella er hætta á því að verkefnið skili ekki þeim árangri sem flutningsmenn vonast eftir.

Við getum líka horft á ýmsa þætti varðandi það hvernig málin hafa þróast á undanförnum árum og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á. Það er alveg ljóst að hinir stærri skólar á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið sífellt stærra hlutfall af starfsnáminu til sín af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess að tækniþróunin er gífurlega ör og við sem lítil þjóð höfum ekki efni á því að tryggja öllum skólum um allt land sömu aðstæður til þess að þeir séu í fararbroddi varðandi ýmsar tækninýjungar þó þannig sé það sem við viljum sjá það, að skólarnir séu ef eitthvað er skrefinu á undan atvinnulífinu vegna þess að skólarnir eru jú að undirbúa nemendur fyrir framtíðina en ekki fortíðina og þurfa þess vegna að vera í fararbroddi.

Því miður hefur starfsnámið veikst of mikið á landsbyggðinni vegna þess að menn hafa ekki varast þá þróun og hafa ekki passað að veita nægjanlegt fjármagn til þeirra skóla sem hafa oft af veikum mætti haldið uppi starfsnámi af ótrúlegri fjölbreytni miðað við aðstæður. Því miður hefur dregið úr því á seinni árum vegna margs konar skipulagsbreytinga og ekki síður vegna þess að fjármagninu hefur verið stýrt á ákveðinn hátt til skólanna.

Þá komum við að hinu margumrædda reiknilíkani sem hefur verið notað um nokkurt skeið til þess að útdeila fjármagni til framhaldsskólanna. Ég vil segja það, frú forseti, svo að það sé enginn misskilningur, að ég hef verið talsmaður reiknilíkansins mjög lengi og tel það vera nauðsynlegt vegna þess að þá getum við betur fylgst með því hvernig fjármagninu er deilt út. En það er auðvitað algjört skilyrði til þess að slíkt reikniverk nái tilætluðum árangri að það sé endurskoðað reglulega og aðlagað breyttum aðstæðum og síðast en ekki síst að forsendur þess séu virtar af öllum aðilum. Því miður höfum við mjög nýlegt dæmi, þ.e. í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004, um það hvaða hundakúnstum er beitt þegar ekki er vilji til þess að láta nægjanlegt fjármagn renna m.a. til framhaldsskólanna.

Þeirri aðferð hefur oft verið beitt á undanförnum árum að viðurkenna ekki allan nemendafjöldann og hafa þar af leiðandi ekki rétta forsendu í margföldunarverkinu þegar fjármunum er útdeilt. Núna er hins vegar gripið til hinnar leiðarinnar, þ.e. nú á að taka mark á — að því er sagt er en það verður að hafa fyrirvara á því hvort sú fullyrðing stenst — þeim tölum sem koma frá skólunum um nemendafjölda en þá er viðmiðunartalan sem notuð er varðandi kostnað á nemendur lækkuð, þannig að í raun og veru sitjum við á sama stað; þegar forsendur eru ekki virtar er ekki hægt að gera ráð fyrir því að reiknilíkanið skili réttri tölu. Þá fara menn oft á tíðum að tala illa um reiknilíkanið sem er út af fyrir sig annað mál. En reiknilíkanið hefur því miður, fyrir utan þá vankanta sem menn hafa skapað utan um það, ekki fengið að þróast í eðlilegum takti við breyttar forsendur.

Frú forseti. Það er miklu fleira sem hægt væri að ræða í tengslum við þessa ágætu tillögu en þar sem tími minn er úti læt ég máli mínu lokið.