131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Efling starfsnáms.

27. mál
[16:57]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þessa þingsályktunartillögu um að efla iðnnám og styttri námsbrautir. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að hér er um þverpólitískt mál að ræða sem ég tel mjög mikilvægt að ná samstöðu um og afgreiða frá þinginu í vetur þar sem mjög brýnt er að efla starfsnámið og láta það ekki reka á reiðanum og mörg mjög brýn mál innan borðs sem ég nefndi áðan, eins og samsetning náms í grunnskólunum og hve mikilvægt er að gera verknáminu hærra undir höfði þar.

Annað sem mér gafst ekki tími til að nefna í fyrri ræðu minni er fyrirhuguð stytting á námstíma til stúdentsprófs. Það er lagt til í skýrslu starfshóps, sem væntanlega mun verða grunnurinn að þingmáli frá hæstv. menntamálaráðherra síðar í vetur, að námstími til stúdentspróf verði skorinn niður um eitt ár. Það er frekar glannalega að farið í þeirri skýrslu því eins og það blasir við mér er verið að gengisfella stúdentsprófið mjög harkalega þar sem ekki er verið að lengja skólaárið í neinu samræmi á móti. Ég held því að blikur séu á lofti þar þó að ég styðji markmiðið í sjálfu sér, að stytta námstíma til stúdentsprófs.

Það hlýtur að vekja athygli hvernig breyta eigi verknáminu og námstíma til verknámsins til samræmis við það. Ef skera á námstíma til stúdentsprófs niður um eitt ár hljóta menn að ætla að gæta einhvers samræmis við iðnnámið. Því hefði verið fróðlegt ef hæstv. menntamálaráðherra hefði verið við umræðuna í dag og getað svarað spurningum er varða verknámið, hvort almennt eigi að stytta það um eina önn eða tvær eða hvað. Þetta er svolítið flókið mál en við munum taka það til umræðu síðar í vetur.

Annað sem ég vildi nefna sérstaklega lýtur að iðnmeistaranáminu. Það er skoðun mín og margra sem ég hef rætt þessi mál við að meistarakerfið sé orðið býsna úrelt. Oft er um að ræða býsna alvarlegan skort á iðnmeisturum þannig að það er erfitt fyrir sveina að komast á samning eða komast til meistara.

Svo er mikið ósamræmi á milli greina um umfangið í meistarakerfinu og verulegt ósamræmi á milli landa hvernig meistaranáminu er háttað. Ég velti því upp hvort ekki væri í raun og veru best að leggja af iðnmeistaranámið eins og við erum með það í dag og taka upp miklu straumlínulagaðra og nútímalegra iðnmeistaranám sem miklu greiðara aðgengi er að og nemendum gert kleift að fara í á þeim forsendum.

Verknámsnemar eru oft eldra fólk en bóknámsnemar, fólk sem hefur farið í nám, verið á vinnumarkaði og kemur svo aftur til náms. Punkturinn er um lánshæfi verknámsins, lánshæfi framhaldsskólanámsins almennt. Ég held að við þurfum að endurskoða það alveg upp á nýtt og jafnvel að líta til þess hvort við ættum að binda lánshæfi framhaldsskólanáms, bæði bóknáms og verknáms, við ákveðinn aldur. Að uppfylltum einhverjum skilyrðum geti t.d. nemendur í framhaldsskóla, hvort sem er í verknámi eða bóknámi, sem hafa náð 18 ára aldri sótt um framfærslulán til lánasjóðsins. Sérstaklega þarf líka að endurskoða hvers konar jöfnun á námskostnaði á milli landshluta en þar gilda býsna tyrfnar og ósanngjarnar reglur á köflum.

Ég er nokkuð sannfærður um að fjármunum væri vel varið til þess að gefa nemendum í framhaldsskólunum kost á framfærsluláni. Ég held að við mundum auka töluvert námsþátttökuna í framhaldsskólunum með því að gera námið á einhverjum tímapunkti lánshæft, bæði bóknám og verknám. Það mundi gera svo mörgum kleift að fara aftur í nám, ungu fólki sem er snemma komið með fjölskyldu eða hefur farið út á vinnumarkaðinn og er komið með skuldbindingar, fólk sem hefur ekki kost á því annaðhvort að vera á framfærslu foreldra eða forráðamanna eða vera launalaust í framhaldsskóla. Ég held að við þurfum að skoða það á Alþingi með mjög opnum augum hvort við eigum ekki að breyta framhaldsskólanáminu þannig að eftir 18 ára aldur verði það almennt lánshæft. Ég held að í því væri mikil réttlætisbót, og að þeim fjármunum til þess hluta menntakerfisins og skólamálanna væri mjög vel varið enda er eitt af meginatriðunum að efla þátttökuna og fjölga þeim sem útskrifast úr framhaldsskólum.

Frú forseti. Samkvæmt opinberum tölum útskrifast innan við 70% íslenskra framhaldsskólanema, þ.e. af þeim sem fara í framhaldsskóla, ekki öllum árgangnum. Það er ekki nema rétt rúmur helmingur sem fer í framhaldsskóla. Meðaltalið er hins vegar 82% innan OECD og yfir 90% í Svíþjóð. Þetta himinháa brottfall er klárlega einn stærsti vandi skólakerfis okkar og þar eru lausnirnar breytt samsetning á náminu í grunnskólunum, miklu meiri og öflugri námsráðgjöf í grunnskólunum líka og hlutir eins og það að nám í framhaldsskóla við 18 ára aldur verði lánshæft, a.m.k. að uppfylltum einhverjum skilyrðum. Öll þessi atriði eru mjög mikilvæg að mínu mati til að efla starfsnámið sérstaklega og ég held að aðgerðir til þess, þar á meðal styttri námsbrautir, séu algjör lykill að því að efla skólakerfið.

Við verðum að skoða sérstaklega að námið skaðist ekki af fyrirhugaðri styttingu á námstíma til stúdentsprófs en þá umræðu geymum við þar til síðar og sjáum hvort það mál kemur inn í þingið. Ég vil aftur þakka kærlega þeim sem tóku þátt í umræðunni og hafa lagt þessu máli lið og ég vona að framgangur þess í menntamálanefnd núna í haust verði eins og ádráttur var gefinn um í fyrra, að þingsályktunartillagan verði afgreidd frá nefndinni og að við megum sjá þverpólitíska samstöðu um það að efla starfsnámið og fjölga styttri námsbrautum í framhaldsskólunum. Fyrst hv. formaður menntamálanefndar gat ekki verið við umræðuna er bara von að hann taki hressilega á málinu þegar það kemur til kasta nefndarinnar síðar í haust og að það verði afgreitt frá Alþingi í vetur.