131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

28. mál
[17:24]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svar mitt við þessari spurningu er: Já, ég sé það þannig fyrir mér að þeir gjaldstofnar sem nú eru til staðar í samgöngukerfinu eigi að standa undir þeirri viðbótarfjárfestingu sem fólgin yrði í að gera þjóðvegi okkar og stofnbrautirnar þannig úr garði að þær séu líka fyrir hjólreiðafólk.

Ég minni á að við erum með reiðvegi inni í vegalögum og hestamenn eru ekki skattlagðir sérstaklega fyrir reiðvegina, sem hið opinbera leggur. Það kostar ekkert sérstaklega fyrir hestamenn að fara eftir þessum reiðvegum. Okkur finnst það bara sjálfsagt að boðið sé upp á gott kerfi fyrir fólk sem stundar hestamennsku.

Við höfum skrifað upp á það í nýjustu stefnumörkunum okkar varðandi samgöngumál að hjólreiðarnar eigi sinn sess í samgöngukerfi okkar. Og vegna þess hve jákvæður þáttur samgangnanna þetta er og hve mikið hann sparar á öðrum sviðum þá tel ég eðlilegt að sú fjárfesting sem kæmi til viðbótar í þessum efnum verði greidd af þeim sjóðum sem nú þegar standa undir samgöngukerfinu.