131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Rekstur skólaskips.

29. mál
[17:49]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar fréttir bárust af því í fyrravetur að til stæði að leggja skóla- og hafrannsóknaskipinu Dröfn rak mann eiginlega í rogastans og átti nánast erfitt með að trúa þessum fréttum því að bæði þótti sýnt, að maður hélt alla vega, að þetta skip væri hagkvæm rekstrareining fyrir Hafrannsóknastofnun, einkum til að stunda rannsóknir á minni fiskstofnum eða nytjastofnum ef svo má segja, þ.e. stofnum inni á fjörðum og flóum, og líka til að stunda aðrar hafrannsóknir lengra frá landi, ekki síst um sumartímann. Þannig hafði Dröfnin verið nýtt um margra ára bil og ekki var annað að sjá en það gengi vel. Hún er ódýrt skip með tiltölulega fámennum mannskap sem skilaði þó miklu þegar í land var komið.

Þetta skip gegndi einnig mikilvægu hlutverki sem skólaskip eins og fram kom í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar áðan. Þúsundir nemenda hafa átt þess kost að fá að fara á sjó með þessu skipi í stuttar ferðir, ferðir sem tekið hafa frá nokkrum klukkutímum og kannski upp í heilan dag, þar sem nemendum á grunnskólastigi einkum og sér í lagi hefur verið veitt ákveðin innsýn í bæði fiskveiðar, almenna sjósókn og þær aðferðir sem eru viðhafðar um borð í svona rannsóknaskipum.

Ég þekki vel til þessara starfa sjálfur vegna þess að ég hef sjálfur farið í svona leiðangra og þá sem kennari eða leiðbeinandi bæði hér við land og einnig erlendis. Ég veit af eigin reynslu að svona starfsemi er ákaflega verðmæt. Hún veitir okkur einstakt tækifæri til þess að æskan fái að verða vitni að því hvað í raun og veru felst í hafinu umhverfis landið. Nemendur fá að kynnast notkun veiðarfæra. Þeir fá að kynnast því hvernig svona skip líta út að innan. Þeir fá að kynnast því hvernig þeim er siglt, hvaða tækjabúnað þarf til að stjórna þeim. Þeir fá einnig að kynnast því hvernig fiskur er veiddur, hvernig hann er fenginn um borð, hvernig unnið er að honum um borð og hvaða aðferðir eru viðhafðar hjá vísindamönnum við að afla sér gagna í svona leiðöngrum. Þá á ég t.d. við hluti eins og tegundagreiningar, lengdarmælingar, athuganir á magainnhaldi, kynþroska og öðru þess háttar. Aðra líffræðilega hluti mætti nefna, t.d. tegundir, þ.e. hvernig hinar ólíku tegundir líta út og hvernig þær eru byggðar upp út frá líffræðilegu tilliti, ef svo má segja.

Það er ekki sjálfgefið að æskan í dag hafi aðgang að þessari þekkingu eins og hún hafði kannski hér á landi fyrir örfáum áratugum síðan þegar krakkar, ekki síst á landsbyggðinni, ólust að verulegu leyti upp í tengslum við lifandi ys og þys á bryggjunum. Það er heldur ekki sjálfsagt mál að börn á höfuðborgarsvæðinu eigi þess nokkurn kost að fá svona þekkingu á lífríki hafsins og því hvernig fiskveiðar fara fram eða hvernig hafrannsóknir fara fram.

Því er mikill skaði að því að þessu skipi skuli hafa verið lagt og með ólíkindum er að ekki skuli finnast peningar í okkar ríka þjóðfélagi til þess að halda úti svona skipi, til að halda úti svona menntun. Ég á í raun mjög bágt með að skilja hvers vegna þetta er ekki hægt. Það mætti t.d. hugsa sér að aflaverðmæti svona skips, þ.e. sá fiskur sem veiddist yrði seldur á markaði. Þar af leiðandi mundu þó a.m.k. fást einhverjar tekjur á móti þeim kostnaði sem hlýst af því að reka skip með þessum hætti.

Einnig mætti hugsa sér að menntamálaráðuneytið legði peninga í þetta, ekki bara sjávarútvegsráðuneytið og Fiskifélag Íslands, eins og verið hefur. Menntamálaráðuneytið gæti með einhverjum hætti komið að því að reka svona skip. Ég er alveg viss um að mjög mikill áhugi er meðal kennara hér á landi til að taka þátt í svona verkefni, m.a. líffræðikennara en líka kennara í öðrum námsgreinum.

Ég er líka sannfærður um að áhugi er fyrir því að stunda þessa starfsemi hjá Hafrannsóknastofnun. Ég trúi ekki öðru en að þar sé líka áhugi á því vegna þess að þar gera menn sér mjög vel grein fyrir því að það er mikilvægt að uppfræða æsku landsins um lífríkið í hafinu. Þarna höfum við að verulegu leyti brugðist á undanförnum árum. Ég bendi á að við Íslendingar eigum ekkert sædýrasafn sem þykir þó sjálfsagður hlutur alls staðar í löndunum í kringum okkur, sædýrasafn sem sýnir fólki hvernig lífríkið í hafinu lítur út. Slíkt safn hefur ekki verið til hér áratugum saman.

Sem betur fer samþykkti hið háa Alþingi í fyrra þingsályktunartillögu þar sem stjórnvöldum var falið að athuga möguleikana á því að hefja hönnun og byggingu slíks safns hér á landi. Vonandi verður það að veruleika sem allra fyrst því ef vel verður að verki staðið þar verður hægt að búa til einstakan sýningarglugga, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur líka fyrir erlenda ferðamenn, sýningarglugga sem veitti okkur innsýn í mjög einstakt og mjög ríkt lífríki í hafinu í kringum Ísland. Það er afskaplega ríkt og miklu ríkara en við gerum okkur grein fyrir.

Ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái góða meðferð í þinginu og góða afgreiðslu. Ég bendi á að að henni standa þingmenn úr öllum flokkum. Það ætti því að segja manni að þessi tillaga, þar sem Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að stuðla að því að aftur verði boðið upp á fræðsluferðir fyrir grunnskólanema með svona skipi, verði að veruleika. Við ættum í sama vetfangi að huga að því hvort ekki væri rétt að gefa framhaldsskólanemendum einnig kost á að fara á sjó með svona skipum til að vinna ákveðin verkefni og afla sér þekkingar og síðast en ekki síst háskólanemum einnig í tengslum við ákveðin námskeið sem þeir tækju þá bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, svo að dæmi séu tekin. Svona skip eru í rekstri í löndunum í kringum okkur, m.a. í Noregi og eins og ég nefndi áðan þá hef ég einmitt tekið þátt í svona kennsluleiðöngrum þar. Það er alveg ómetanlegt fyrir háskólanema í sjávarútvegsfræðum eða líffræði hafsins að eiga kost á að fara í námsferðir með svona skipum þar sem þeim er kennt skipulega hvernig vinna um borð í rannsóknarskipum fer fram.