131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

35. mál
[18:04]

Hilmar Gunnlaugsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og hvet til að það nái fram að ganga á þessu þingi. En það breytir ekki mati mínu á því að of skammt sé gengið, einkum í þeim þætti frumvarpsins sem lýtur að breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Í mínum huga er staðgreiðsluskattur ekki vörslufé í sama skilningi og virðisaukaskattur. Staðgreiðsla er hluti af launagreiðslu til starfsmanna. Í þessu samhengi er fróðlegt að líta til þeirra vanefndaúrræða sem annars vegar starfsmenn og hins vegar ríkið hafa vegna þessara launa. Í báðum tilvikum geta aðilar krafist dráttarvaxta og þá getur starfsmaður rift ráðningarsamningi sínum alveg eins og ríkið getur sent lögreglu og látið loka atvinnustarfsemi eftir 30 daga.

Síðan hefur ríkið búið sér til tekjustofn sem að mínu mati er afar hæpinn. Það er hið svokallaða álag sem jafngildir einu prósentustigi í allt að 10 daga sem vanskil vara, þ.e. fyrstu 10 dagana. Það, hæstv. forseti, eru 365% sem í mörgum tilvikum bætast ofan á dráttarvexti.

Í fræðilegri umfjöllun telst álag til refsikenndra viðurlaga. Í mínum huga er um okurvexti af hálfu ríkisins að ræða þar sem ríkið hefur misbeitt valdi sínu til að setja leikreglurnar. Auðvitað eiga allir að greiða skuldir sínar. Það er hins vegar blákaldur veruleiki að fjölmargir lenda í þeirri aðstöðu að geta ekki, a.m.k. tímabundið, staðið við allar skuldbindingar sínar á nákvæmlega réttum tíma og þá á að mati þess er hér stendur að ríkja jafnræði. Ríkisvaldið á ekki að komast upp með að beita valdi sínu í svo miklum mæli að gengið sé út fyrir allt meðalhóf.

Hæstv. forseti. Það má með góðum vilja finna gild rök fyrir því að innheimta ríkisins njóti einhverrar sérstöðu umfram almennar kröfur. En að búa sér til aukatekjur á kostnað þeirra sem eru veikir fyrir, t.d. smáir atvinnurekendur, verður að teljast hæpið og er þá einkum verið að horfa til hins 365% álags. Ég spyr, herra forseti: Er ekki nægilegt að reikna dráttarvexti og geta lokað atvinnurekstri ef ekki er greitt innan 15 daga frá eindaga? Í þessu samhengi get ég ekki annað en rifjað upp dóm Hæstaréttar frá 1988. Þar var einstaklingur dæmdur fyrir það sem almennt var kallað okurlánastarfsemi. Hann var fundinn sekur um að hafa lánað peninga gegn kröfum um 88% ársávöxtun þegar leyfilegir hámarksvextir voru 21%. Hann krafðist, hæstv. forseti, 67% meiri vaxta en leyfilegt var. Því spyr ég: Getur það talist eðlilegt með því að kalla okurvextina álag að ríkið krefjist 365% meiri vaxta en dráttarvextir Seðlabanka Íslands eru á hverjum tíma? Það er meira en fimmfalt grófara en okurlánarinn úthrópaði var fundinn sekur um 1988.

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að í frumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu er ekki gert ráð fyrir breytingum á reglum um álag. En það er von mín að sá vinkill verði tekinn til skoðunar í meðferð málsins í þinginu þó ég vilji ekki á nokkurn hátt bregða fæti fyrir þær tillögur sem þar koma fram.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég fagnaði þessu frumvarpi og legði til að það yrði samþykkt. Viðurlagaákvæði þau sem hér eru til umræðu eru mér einkar hugleikin og hafa verið það allt frá því að ég lenti í þeirri reynslu að neyðast til, starfandi sem dómari við Héraðsdóm Austurlands, að dæma frumkvöðul og einyrkja á grundvelli þessara óbilgjörnu viðurlaga og refsiákvæða. Núverandi ákvæði eru ósanngjörn og þeim þarf að breyta. Ég ítreka því von mína um að Alþingi gangi a.m.k. jafnlangt og núverandi frumvarp gerir ráð fyrir.