131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Verðbréfaviðskipti.

34. mál
[18:15]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum til laga, annars vegar frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, og hins vegar frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru í báðum tilvikum hv. þm. Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson og eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi.

Ég ætla ekki að fara mjög náið út í efnisatriði frumvarpanna, þau skýra sig með lestri þeirra og af greinargerðinni. Þó vil ég vekja athygli á því að hér er um samkynja mál að ræða að því leytinu að báðum frumvörpunum er fyrst og fremst ætlað að styðja við hlut hinna minni hluthafa í hlutafélagi.

Það er gert með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi er verið að leggja til miklu skýrari reglur um það sem kallað er „skyldir aðilar“ þegar einn aðili innan hlutafélags er að selja öðrum sem er skyldur. Lagt er til að hugtakinu „skyldir aðilar“ sé bætt við gildandi lög og þannig skilgreint að maki og börn verði talin skyld viðkomandi einstaklingi. Við teljum ekki ástæðu til að ganga mikið lengra en erum þarna með tilteknar skilgreiningar í því sambandi til þess að ekkert fari á milli mála.

Enn fremur er líka leitt inn í lögin nýtt hugtak sem við köllum „veltuhraða“, sem er velta skráðra bréfa í einum eða fleiri flokkum hlutabréfa á skráðum markaði, og er fundinn þannig að fyrir hvern mánuð á 12 mánaða tímabili er reiknað hlutfall veltu með bréf félags í viðkomandi mánuði og markaðsvirði þess í lok mánaðarins. Hlutfallið er síðan margfaldað með 12 og veltuhraði síðustu 12 mánaða er síðan fundinn með því að taka meðaltal þessa hlutfalls síðustu 12 mánuði.

Þarna er fyrst og fremst verið að reyna að tryggja að þegar um er að ræða sölu með hlutabréf í félögum þar sem ætla má að markaðsverðmæti komi ekki endilega skýrt fram vegna þess að um sé að ræða sölu hlutabréfa sem fer fram í svo litlum mæli að ekki hafi orðið til eðlilegt markaðsverð. Við erum með öðrum orðum fyrst og fremst að reyna að búa til reglu sem tryggir sanngjarnt verð á hlutabréfum þegar markaðurinn sér ekki um að búa verðmætið til.

Þetta getur auðvitað átt sér stað á ýmsum sviðum. Í Kauphöll Íslands hafa t.d. ýmis hlutafélög farið út af markaðnum af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að markaðurinn með bréfin hefur verið lítill. Því má segja sem svo að það hafi aldrei orðið til neitt raunverulegt markaðsverðmæti. Við vitum að það eru tilteknar reglur um svokallaða yfirtökuskyldu sem gera ráð fyrir því að aðili eða aðilar sem eru tengdir, sem eru komnir með 40% í eign tiltekins hlutafélags, beri að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Þá skiptir miklu máli að yfirtökutilboðin séu gerð með sanngjörnum hætti og sá sem gerir tilboðið sé ekki að sölsa undir sig eignir, kannski duldar eignir, úr einhverju hlutafélagi með því að bjóða fram lágt verð sem getur gerst ef ekki er um að ræða mikil viðskipti með viðkomandi bréf. Hins vegar er gert ráð fyrir því að það sé skoðað tólf mánuði aftur í tímann og borgað sé hæsta verð sem borgað hefur verið af viðkomandi tilboðsgjafa á því tímabili. En ef um mjög lítil viðskipti er að ræða þá getur það auðveldlega gerst að verðið sé svo lágt að ekki sé hægt að búa til raunverulegt markaðsverð. Þess vegna erum við að reyna að innleiða hugtakið „veltuhraði“ og skýra betur hugtakið „skyldir aðilar“. Við teljum að við séum með þeim hætti að koma í veg fyrir að menn geti sölsað undir sig eignir í einhverju hlutafélagi með óeðlilegum og ósanngjörnum hætti.

Í hinu frumvarpinu sem lýtur að hlutafélagalögunum segir svo:

„Hlutafélagi er óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins eða félögum sem þessir aðilar eiga ráðandi hlut í nema áður hafi verið aflað sérfræðiskýrslu. Sama gildir um kaup félags á eignum af móðurfélagi þess og þeim sem tengdir eru aðilum.“

Þarna er einfaldlega verið að fara leið sem við þekkjum í löggjöf annarra þjóða og er fyrst og fremst til þess fallin að leggja ábyrgðina á þá sem eru í þessu tilviki að kaupa og tryggja það að menn geti ekki búið til eitthvert falskt markaðsverð og eignast þannig hlut í félagi. Með öðrum orðum, bæði frumvörpin hafa einfaldlega þann megintilgang að reyna að teysta stöðu minni hluthafa.

Það er heilmikil þörf á þessu því það hefur orðið gríðarleg breyting í þjóðfélagi okkar. Það var þannig áður fyrr að eignamyndun almennings, hins venjulega meðaljóns á Íslandi, fór fyrst og fremst fram í gegnum íbúðarhúsin. Menn lögðu til hliðar upphæðir, menn byggðu sér hús, lögðu á sig mikla vinnu við húsbyggingarnar, við breytingar á húsnæði sínu og þannig eignuðust menn eignir. Það var hið venjulega eignarform hins venjulega Íslendings. Þetta hefur verið að breytast, að langflestu leyti sem betur fer, vegna þess að menn hafa núna möguleika á því að spara, leggja fé til hliðar, fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum og öllum þeim sparnaðarformum. Menn eru með öðrum orðum allt í einu farnir að festa eignir sínar ekki endilega í steinsteypunni heldur í ýmsum óefnislegum hlutum eins og t.d. hlutabréfum og öðru slíku sem eru þá að mynda m.a. stofn að nýrri eign og líka mynda stofn að lífeyri fólks í framtíðinni.

Ég varpaði fram fyrirspurn til fjármálaráðherra á sínum tíma um þessi mál. Þá kom í ljós að árið 1990 höfðu 40 þús. manns keypt sér hlut í fyrirtækjum á því ári en voru 80 þús. eða 40% framteljenda árið 1999. Auðvitað breytist þetta milli ára, stundum árar vel og margir hafa áhuga á því að kaupa hlutabréf. Við höfum líka verið að nota skattafslátt í þessu tilviki en allt lýtur þetta að því að almenningur í dag, hinn venjulegi maður á Íslandi í dag, á hlutabréf. Hann hlýtur þess vegna að hafa töluverðar áhyggjur af því að staða hans sé ekki nægjanlega vel tryggð.

Við höfum í löggjöfinni á undanförnum árum reynt að tryggja stöðu minni hluthafanna, ég nefndi áðan 40% regluna sem kveður á um það að menn hafi skyldu til að gera yfirtökutilboð ef þeir eiga 40% í fyrirtæki. Það er gert til þess að tryggja það að lítill hluthafi verði ekki áhrifalaus vegna þess að stór hluthafi sé búinn að eignast stóran hlut í fyrirtækinu og er alveg augljóst mál að þróunin hefur verið í þessa átt. Við höfum fyrst og fremst verið að reyna að búa til skjól fyrir minni hluthafana í fyrirtækjunum einfaldlega vegna þess að við sjáum að það mikil þörf á því. Þessi breyting sem ég hef verið að rekja hefur leitt til þess að venjulegur hluthafi er einstaklingur sem er ekki endilega dag hvern að fylgjast nákvæmlega með rekstrinum eða nákvæmlega með því hvert verðmæti fyrirtækisins er að öllu leyti, heldur treystir á það að lög og reglur gefi honum það skjól sem hann leitar eftir.

Þess vegna þurfum við að tryggja það að minni hluthafarnir geti áhyggjulausir lagt hluta af sparnaði sínum m.a. í atvinnurekstur því það skiptir mjög miklu máli frá margvíslegum sjónarhóli séð að almenningur sé þátttakandi í atvinnulífinu. Þannig getur orðið til eignamyndun, þannig getur almenningur fengið hlut í verðmætisaukningunni og þannig getur það gerst líka að almenningur skilji betur þarfir atvinnulífsins og atvinnulífið fengið síðan áhættufjármagn til þess að byggja sig upp, þjóðfélaginu til framdráttar.

Bent hefur verið á að þetta kunni að vera leið til þess að jafna kjörin í landinu. Við höfum reynt að gera það með skattalegum aðgerðum, við höfum reynt að gera það í gegnum kjarasamninga með því að lyfta upp lægstu launum. Við þekkjum það að þetta eru hins vegar býsna erfið mál. Þess vegna getur það skipt miklu máli að meðaljóninn geti líka eignast hlutabréf í þeim fyrirtækjum sem hafa verið að hækka, fjármálafyrirtækjunum, og notið ávaxtanna af því hlutfallslega fyrir sjálfan sig á borð við þá sem auðugari eru og leggja í þessar fjárfestingar.

Það gerist ekki nema almenningur sé algjörlega sannfærður um það og viti fyrir víst að hann verði ekki hlunnfarinn, það muni verða fyrir því séð með lögunum að almenningur geti lagt peningana í þessa fjárfestingu og þurfi ekki að hætta á að verða einhverju því að bráð sem hann ekki getur séð fyrir, óttast t.d. að stóru hákarlarnir komi og hrammsi til sín fyrirtækið og skilji litla karlinn eftir algjörlega varnarlausan í fyrirtæki sínu.

Þess vegna, virðulegi forseti, hefur sú þróun verið í okkar löggjöf að við höfum verið að reyna að styrkja stöðu minni hluthafans og frumvörpin tvö eru sannarlega liður í því sama, að bæta stöðu minni hluthafanna, gera það að verkum að minni hluthafarnir geti óáreittir og óhræddir tekið þátt í því að fjárfesta í atvinnulífinu.

Ég vil í því sambandi nefna það að frumvörpin komu fram á Alþingi á sl. vetri. Þau fengu ekki umfjöllun vegna þess að ekki var tími til þess hér í þingsölum. Málið kallaði hins vegar á gríðarlega miklar umræður úti í þjóðfélaginu, m.a. hjá ýmsum sérfræðingum sem létu í sér heyra og margir voru ekki á eitt sáttir um málið og það er ósköp eðlilegt. Hér er verið að takast á um gífurlega mikla hagsmuni, milljarðahagsmuni, vegna þess að fyrirtækin eru sem betur fer mikils virði hér á landi um þessar mundir og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að tekist sé á um þessi mál. En þá verða menn að hafa það í huga að frumvörpin hafa það einfaldlega að markmiði að tryggja stöðu þeirra sem minni eru innan fyrirtækjanna og ekkert óeðlilegt við það að einhverjum finnist þar of mikið að gert og vilji hafa rýmra svigrúm fyrir sjálfan sig til þess að leika á þessum mikla markaði. Ég vil einfaldlega segja að það er óeðlilegt að við búum þannig til löggjöfina eða leikreglurnar að menn geti leikið á þeim markaði án tillits til þeirra sem minni eru og starfa innan þess markaðar, þ.e. minni hluthafanna, einstaklinganna í landinu.

Ég vil í því sambandi sérstaklega fagna því að sú nefnd sem hæstv. viðskiptaráðherra skipaði einhvern tíma á sl. vetri eftir að frumvörpin litu dagsins ljós hefur að ýmsu leyti tekið undir þau sjónarmið sem hér koma fram, ekki að öllu leyti en að ýmsu leyti. Það er enginn vafi á því að sá andi sem svífur svo greinilega yfir vötnunum í frumvörpunum hefur ratað inn í tillögur nefndarinnar. Nú á eftir að láta á það reyna hvort það sé pólitískur styrkur til þess að koma málinu fram í þeim búningi eða einhverjum svipuðum búningi í gegnum þingið. Það mun veturinn skera úr um. Ég tel að það skipti mjög miklu máli fyrir þingið og fyrir umræðuna alla að það liggi fyrir kristaltær afstaða þingmanna úr öllum flokkum sem vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja að leikreglurnar séu sem sanngjarnastar, sérstaklega fyrir veikari aðilann, hinn almenna hluthafa, hinn minni hluthafa í atvinnurekstrinum. Ég held að það sé atvinnulífinu til góða og ég tala nú ekki um þeim einstaklingum sem vilja auka eignir sínar með því að taka þátt í því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi.