131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:33]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa skilið eftir svör við þessum spurningum á þeim litla blaðamannafundi sem hér var sviðsettur í gær og hlakka til að heyra svör hans við þeim. Fyrirspurnirnar eru þessar:

1. Hvaða breytingar í stöðugildum hafa orðið á íslensku starfsliði Bandaríkjahers á Keflavíkurvelli frá 1. janúar 2003 til 1. október 2004?

2. Hver var fjöldi bandarískra hermanna á Keflavíkurvelli 1. janúar 2003 og 1. október 2004?

3. Hver var fjöldi bandarískra starfsmanna Bandaríkjahers á Keflavíkurvelli, annarra en hermanna, 1. janúar 2003 og 1. október 2004?

Það eru margar ástæður fyrir því að spurt er að þessu en ein er a.m.k. sú að um svipað leyti í fyrra, 28. nóvember, var efnt til utandagskrárumræðu. Hv. þm. Jón Gunnarsson gerði það og þá var þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, til svara. Hann sagði m.a. þetta við spurningunni um hvort eitthvað meira væri fram undan af uppsögnum Íslendinga, með leyfi forseta:

„Við höfum engar upplýsingar um það og við höfum enga ástæðu til þess að ætla að svo verði. Utanríkisráðuneytinu hafa ekki borist neinar tilkynningar um það og engar hugmyndir um verulegan samdrátt á næstu þremur árum hafa verið kynntar stjórnvöldum.“

Síðan fer maður í Morgunblaðið — gagnasafn. Þar er frétt fimmtudaginn 20. maí 2004: Tíu sagt upp hjá flotastöðinni. Það eru skrifstofumenn og lagermenn. 22. júní: Um 20 starfsmönnum varnarliðsins sagt upp. Tíu úr mötuneytinu, sjö slökkviliðsmenn og fjórir skrifstofustarfsmenn. 30. september 2004 er sagt að 17 hafi hætt á þremur mánuðum, hjá slökkviliðinu þrír til viðbótar, og um daginn var líka frétt um uppsagnir hjá slökkviliðinu sem er alveg sérstakt mál og þyrfti að fara að kanna sérstaklega því að eitt af því sem menn eru kannski sammála um í þessu er að einhvern tíma komi að því, hvernig sem þetta veltist nú með Bush og Powell, að við tökum við þessum alþjóðaflugvelli sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Þá þurfum við þar slökkvilið og við þyrftum að vita hvernig slökkviliðið á að vera búið.

Bakgrunnur málsins er sá að við þurfum að gæta að því með þetta herlið og þennan herbúnað að við þurfum auðvitað að ganga í það að meta varnarþarfir okkar sem nú eru aðrar en þær sem menn ætluðu að væru í kalda stríðinu og við þurfum að ganga frá framtíðarskipan í tengslum við atvinnumál á Suðurnesjum. Þetta hefur verið vanrækt, var vanrækt í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra en nú er kominn nýr hæstv. utanríkisráðherra sem getur ráðið bót á málinu og svarar nú þessum spurningum.