131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:36]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Hæstv. forseti. Það var upplýsandi að fá það skilgreint að stjórnarandstaðan lítur svo á að umræður um störf þingsins séu blaðamannafundir.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, hefur hv. þm. Mörður Árnason á þskj. 199 beint til mín þremur spurningum um starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

Í fyrsta lagi er spurt: Hvaða breytingar í stöðugildum hafa orðið á íslensku starfsliði Bandaríkjahers á Keflavíkurvelli frá 1. janúar 2003 til 1. október 2004? Svar: Þann 1. janúar 2003 voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins samtals 905. Í október 2004 voru þeir 712. Starfsmönnum hefur því fækkað um 193 á tímabilinu.

Í öðru lagi er spurt: Hver var fjöldi bandarískra hermanna á Keflavíkurvelli 1. janúar 2003 og 1. október 2004? Svar: Þann 1. janúar 2003 voru 1907 hermenn á Keflavíkurflugvelli. Þann 1. október voru þeir 1554 og hafði því fækkað um 353 á tímabilinu. Stærstur hluti þessarar fækkunar felst í 300 manna liði og tengist því að P–3 kafbátaleitarflugvélar flotans eru ekki lengur staðsettar hér á landi eins og kunnugt er.

Í þriðja lagi er spurt: Hver var fjöldi bandarískra starfsmanna Bandaríkjahers á Keflavíkurvelli, annarra en hermanna, 1. janúar 2003 og 1. október 2004? Svar: Þann 1. janúar 2003 voru þeir starfsmenn 111 en 1. október 2004 hafði þeim fækkað í 104.

Hæstv. forseti. Með þessum hætti tel ég mig hafa svarað þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Mörður Árnason hefur lagt fyrir mig.