131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:41]

Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir fyrirspurnina og jafnframt fyrir þau svör sem hér hafa verið lögð fram. Ef við lítum fram hjá varnarlega sjónarmiðinu í málinu er þetta stórt mál fyrir Suðurnesin í atvinnulegu tilliti. Í óformlegum fyrirspurnum og könnunum hefur komið í ljós að þjónustufyrirtæki á Suðurnesjum hafa allt að 20% af veltu sinni af íbúum sem búa á flugvellinum. Þess vegna var ánægjulegt að heyra svar hæstv. utanríkisráðherra í gær um þann fund sem fyrirhugaður er með Colin Powell þann 16. nk. og jafnframt mikilvægt að haft verði gott samráð við sveitarstjórnirnar á Suðurnesjum eins og hæstv. utanríkisráðherra kom reyndar inn á í viðtölum í gær.