131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Þjóðgarður norðan Vatnajökuls.

118. mál
[13:46]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég vona að á þessu sviði sé að vænta betri svara en í launhelgum utanríkisþjónustunnar þar sem málin eru rædd fyrir luktum dyrum og stunduð vinnubrögð sem eiga meira skylt við 19. öldina en þá 21.

Ég spyr hér um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls, að sjálfsögðu af einlægri forvitni og áhuga. Eins og við vitum var tekin saman mikil skýrsla, árangur af góðu starfi sem allir stjórnmálaflokkar lögðu sitt til og margir fræðimenn. Niðurstöður hennar voru þær að lagt var til að stofnaður yrði þjóðgarður sem tæki yfir Vatnajökul og eins mikil öræfi norðan hans og mögulegt væri. Þessu var vel tekið á sínum tíma og fagnað og ekki annað vitað þá en að ríkisstjórnin hygðist fara að tillögunum eða hefja undirbúning að því að fara að tillögum þessarar nefndar.

Síðan gerðist það í sumar, sem auðvitað ber að fagna, að þjóðgarðurinn við Skaftafell var stækkaður en ekki var alveg augljóst samhengi þeirra viðburða eða þeirrar yfirlýsingar — af því að það er ekki orðið enn — og síðan áætlananna um þjóðgarðinn sem lagður var til í skýrslunni.

Það eina sem hefur sést um þetta í plöggum frá ríkisstjórninni hér fyrir þinginu er byggðaáætlun hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í henni er í kaflanum um þjóðgarða talað um að unnið sé að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á vegum Umhverfisstofnunar og síðan að öðrum þjóðgarði norðan Vatnajökuls. Nú er ég líka hættur að skilja — er þá um tvo þjóðgarða að ræða sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra eru að stofna?

Ég tek a.m.k. eftir því að í skýrslunni er talað um að sú uppbygging sem æskileg er og brýn ef þjóðgarðurinn á að komast á fót muni nema um 600 millj. kr. alls. Í fjárlögum fyrir næsta ár er þessu efni helguð 3,1 millj. kr. þannig að ekki virðist mikill gangur vera fyrirhugaður í þjóðgarðsstofnuninni árið 2005. Það er ákaflega brýnt að fá svör við þessu, m.a. vegna þeirrar legíónar af virkjana- og stóriðjuáformum og hugmyndum sem nú koma fram. Ég vona að þetta endi ekki þannig að þjóðgarðurinn verði stofnaður utan um það sem eftir er þegar búið er að virkja og setja upp stóriðju því að sá þjóðgarður mundi að vísu vekja athygli víða um heim en hann mundi seint komast á heimsminjaskrána.