131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Þjóðgarður norðan Vatnajökuls.

118. mál
[14:01]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar ágætu umræður. Það er alveg ljóst að það er mikill áhugi á þessu stóra máli á Alþingi og mikill stuðningur, a.m.k. túlka ég umræðurnar svo. Ég efast heldur ekki um það miðað við fyrri umfjöllun málsins.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason lagði áherslu á að hraða þyrfti ákvörðunartökunni. Ég tek undir það með honum og öðrum þeim sem hafa rætt málið hér í dag. Ég vildi líka geta þess að núna í október átti ég fundi fyrir austan, bæði á Hornafirði, í Suðursveit og á Kirkjubæjarklaustri, og það kom mjög glögglega fram á þeim fundum sem voru opnir öllum að fólk hefur miklar væntingar til Skaftafellsþjóðgarðsins og hins nýja Vatnajökulsþjóðgarðs í framtíðinni í tengslum við atvinnuuppbyggingu. Það er engin spurning að fólk lítur á þetta sem heilmikið tækifæri í þeim efnum.

Hvað varðar frekari fjárveitingar til þessarar vinnu tengjast þær að sjálfsögðu ákvörðunum sem teknar verða í framhaldi af nefndarstarfinu.

Ég legg áherslu á að hér verður um einstakan þjóðgarð að ræða sem yrði gott tæki til frekari markaðssetningar á Íslandi í þágu ferðaþjónustu eins og fólk á þessum svæðum leggur áherslu á. Að mati sérfræðings í málefnum ferðaþjónustu á Íslandi má ætla að slíkur þjóðgarður gæti aukið aðsókn ferðamanna til Íslands um allt að 5% og það gæti aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 4 milljarða króna á ári — og það er ekki lítið.