131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Sláturhús í Búðardal.

141. mál
[14:13]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt sem hæstv. landbúnaðarráðherra sagði að vandinn liggur að einhverju leyti í lagasetningu frá 1997 en ekki síður í þeim reglugerðum sem settar hafa verið í landbúnaðarráðuneytinu. Þær endurspegla þá stefnu, úreldingarstefnuna og líka útflutningsstefnuna, að setja öll sláturhús á Íslandi í sama mót, gera sömu kröfur í stað þess að gera mönnum kleift að reka minni sláturhús á minni stöðum, selja jafnvel til nærsveita og vera ekki undirseldir því að selja í stóru húsin, keyra með féð hundruð kílómetra landsenda á milli og undirseldir þeim kjörum sem sláturleyfishafarnir bjóða. Við vitum að það eru ekki bestu kjörin í bænum, sauðfjárbændur hafa kvartað mjög undan því verði sem þeir hafa fengið hjá sláturleyfishöfum. Vandinn liggur í því að reyna að setja allt í sama mótið og leyfa ekki fjölbreytni í landbúnaði.