131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Sláturhús í Búðardal.

141. mál
[14:15]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna. Hins vegar svaraði hæstv. ráðherra því miður ekki spurningu minni. Ég vitnaði í þingsályktunartillögu um byggðamál þar sem einmitt er lögð áhersla á að styrkja byggð og atvinnulíf í Dalasýslu. Þess vegna spurði ég hann hvernig það samræmdist stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum eða hvað hún hygðist ella gera til eflingar atvinnulífi annað en að loka sláturhúsinu í Búðardal. Byggðastofnun á nánast allt húsið, 95%, og ef hann á að framfylgja byggðaáætlun er eðlilegt að hún gerði þær endurbætur sem þyrfti.

Í sláturhúsinu í Búðardal hafa eingöngu unnið Íslendingar og útsvarið af vinnulaununum sem þar falla til rennur til viðkomandi héraðs. Í öðrum sláturhúsum, stórum sláturhúsum, er stór hluti, kannski meginhlutinn víða, tímabundið erlent vinnuafl sem fer með launin úr landi. Þjóðhagslega erum við hér á rangri braut.

Hagræðingin í sláturhúsunum sem hefur verið gumað af hefur leitt til lokunar margra húsa. Þessi hagræðing átti að skila bændum auknum tekjum en gerir það ekki. Það er búið að vera stríð í haust um að ná viðhlítandi verði fyrir lambakjöt en tókst ekki og ríkið ver stórmiklu ... (Landbrh.: ... 5–6%.) Ef ráðherra tekur 2–3 ár aftur í tímann og verðhækkanir á tímabilinu miðað við þá hækkun sem bændum var lofað sem ávinningi af þessari hagræðingu. En ávinningurinn er sá að tugir fólks í byggðunum, hvort sem það er í Dalasýslu eða annars staðar, er enginn eða minni en enginn. Menn tapa stórfé af launum sínum. Nú er verið að loka á Kirkjubæjarklaustri.

Ég skora á hæstv. ráðherra að taka á þessu máli málefnalega og reyna að vinna með heimamönnum að því að áfram verði rekið sláturhús í Búðardal.