131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Styrkur til loðdýraræktar.

195. mál
[14:23]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Loðdýraræktin hefur á síðustu árum verið í hljóðri framför og verið að ná árangri á mörgum sviðum, bæði í kynbótum, stærð skinna og verði og stendur nokkuð framarlega á mörkuðum í dag. Stærsti vandi þeirra er fóðurframleiðslan. Það er ekki verið að leggja stein í götu einkarekinna stöðva. Hvers vegna völdu þeir sem fóru út úr hinum almennu fóðurstöðvum bændanna það að reka einkareknar stöðvar? Það eru hagsmunir þeirra sem réðu því. Þeir kusu að hafa þær heima hjá bæjum sínum vegna þess að það var hagkvæmara fyrir þá. Þeir völdu þá leið.

Ég ætla að reyna að svara þessari fyrirspurn hv. þingmanns: Hvernig munu stjórnvöld tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun á 116 millj. kr. styrk til loðdýraræktar sem nýlega var ákveðinn?

Í september 2003 skipaði ég nefnd til að leita lausna á þeim bráða rekstrarvanda sem steðjaði að loðdýraræktinni í landinu. Jafnframt fól ég nefndinni að huga að mögulegum leiðum til þess að jafna samkeppnisstöðu greinarinnar gagnvart framleiðendum í öðrum löndum, draga úr áhrifum verðsveiflna á mörkuðum og á annan hátt auka rekstraröryggi í greininni til langs tíma.

Nefndin skilaði lokaáliti í maí sl. Þar eru settar fram hugmyndir um aðgerðir til þess að verð á loðdýrafóðri hér á landi lækki og verði hliðstætt því sem gerist í samkeppnislöndunum.

Ríkisstjórnin ákvað í ágúst sl. að beita sér fyrir því að á næstu fimm árum verði samtals 116 millj. kr. varið til slíkra aðgerða með hliðsjón af fyrrnefndu nefndaráliti og í samráði við búgreinina þannig að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best fyrir atvinnugreinina í heild.

Ég hef nú, hv. þingmaður, skipað nefnd til að hafa umsjón með þessu verkefni. Eitt aðalmarkmið nefndarinnar er að tryggja að þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist greininni sem best til eflingar á sameiginlegum þáttum sem leiða til þess að raunlækkun náist á loðdýrafóðri til allra loðdýrabænda á Íslandi. Í stað þess að greiða stuðninginn beint til bænda í formi niðurgreiðslna á fóður eins og gert hefur verið á undanförnum árum hefur nefndin ákveðið sem fyrstu aðgerðir að allar fóðurstöðvar í landinu — þess vegna á maður ekki að þurfa að hlusta á fullyrðingar manna úr þessum stól um eitthvað allt annað. Þeir geta þá á göngunum spurt sig til um hluti — geti sótt um stuðning til hagræðingarverkefna sem stuðla að lækkun fóðurverðs og ráðast þannig að rótum vandans. Þetta er mjög skýrt. Jafnræðisreglu í þessu máli er gætt og þarna koma allir til greina. Tveir fulltrúar greinarinnar sitja í þessari nefnd og svo einn fulltrúi úr ráðuneytinu.

Nefndin mun fjalla um þær umsóknir sem berast og afgreiða með hliðsjón af því hvernig þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru nýtist sem best fyrir atvinnugreinina í heild, sem sé alla loðdýrabændur, hvort sem þeir reka einkareknar stöðvar eða eru í félagslegu starfi um fóðurframleiðslu sína. Ég vil hafa það alveg skýrt að engin ákvörðun hefur verið tekin í þá veru sem hv. þm. var að tala um í ræðu sinni, heldur er verið að fjalla um þetta á faglegum nótum til að reyna að efla þessa atvinnugrein sem virðist hafa þróast mjög ört á síðustu árum og eiga nýja og heilmikla möguleika í landinu. Ber að þakka þeirri góðu félagshyggju og forustumönnum loðdýrabænda sjálfra sem hafa sett mark sitt á það í baráttunni að þeir vilja leggja allt á sig til að verða fremstir, verða bestir, ná þeim árangri eins og í nágrannalöndum og um víða veröld að þeir geti staðið sjálfstæðir í rekstri sínum og náð háu verði á mörkuðum. Ég hygg að þessi aðgerð gefi þeim nýja von, þessi stuðningur sem er ekki stór á ári hverju en hann gefur þeim nýja von til þess að geta unnið af miklu skipulagi að atvinnugrein sinni og að hún verði að fimm árum liðnum miklu öflugri atvinnugrein en hún hefur verið síðustu árin.