131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Styrkur til loðdýraræktar.

195. mál
[14:31]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega undarlegt að hlusta á þennan hv. þm., Sigurjón Þórðarson. Hann minnir mig æ meir á Gróu á Leiti. Hann býr hér til sögur og kjaftagang um málefni sem hann veit að eru með öðrum hætti. Hann segir: Það stóð til að mismuna, ráðherra er líklegur til að mismuna.

Svona talar þessi hv. þm. úr þessum stól. Þetta lærir hann sjálfsagt í föðurhúsum sínum í flokknum, ekki efast ég um það.

En það liggur sem sé fyrir, sem aldrei stóð til annað, að reyna að hafa loðdýraræktina sem heild og þessir menn sem þar hafa unnið mjög faglega munu fara yfir það.

Hinar fjóru fóðurstöðvar sem einkareknar eru eru auðvitað hjá stærstu búunum sem hafa verið að gera það mjög gott. Þeir telja kannski líka áríðandi að hinir séu með og kannski hafa félagslegu stöðvarnar búið meira við vandamál fortíðarinnar því að hinir drógu sig frá þeim. Það kann að vera að á einkareknu stöðvunum sé fóðurverð lægra en á hinum vegna þess að hali hefur verið á félagslegu stöðvunum.

Það er engin spurning að við höfum ekki rétt til að mismuna. Það verður farið yfir þetta þannig að það nýtist greininni sem heild fyrst og fremst.

Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að það er í rauninni sorglegt í svona fyrirspurnatímum að hlusta á dylgjur eins og þessi hv. þm. úr Skagafirði hefur vanið sig á.