131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Kynbundið ofbeldi.

170. mál
[14:42]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál. Að stórum hluta er það hlutverk okkar þingmanna að koma lögum yfir kynbundið ofbeldi, hverju nafni sem það kann að nefnast, en þetta ofbeldi tengist yfirleitt konum.

Í flestum tilfellum er það maki eða sambýlismaður sem er ofbeldismaðurinn. Þetta ofbeldi er oft falið, sér í lagi vegna þess að því fylgir mikil skömm og brýtur niður sjálfsmynd þeirra sem fyrir því verða.

Þolendur ofbeldisins þurfa á öryggi að halda. Lagalegu verndina vantar. Ef við lítum yfir farinn veg í svona málum þurfum við ekki að líta langt. Skoðum bara nýfallinn dóm Héraðsdóms Reykjaness í heimilisofbeldismáli. Þar fékk gerandi nánast enga refsingu fyrir glæpinn og skuldinni skellt á þolanda ofbeldisins, nefnilega konuna.

Þessu þurfum við að breyta. Þetta er smánarblettur á þjóðfélaginu. Það er of stutt á milli lífs og dauða þegar heimilisofbeldi er annars vegar. Lítilfjörlegt ofbeldi getur orðið að óhugnanlegasta glæp sem skilur eftir sig djúpa hryggð og særindi þeirra er málið varðar. Við verðum að koma lögum yfir þetta, annað er okkur ekki fært. Skiptir þá engu máli hvaða fylkingu við fylgjum.

Við verðum líka að taka orð eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna alvarlega. Við erum ekki það velferðarþjóðfélag sem við segjumst vera ef við gerum ekkert í málinu.