131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.

200. mál
[14:48]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er:

„1. Hverjar eru ástæður þess að ekki er gert ráð fyrir fjárframlagi frá dómsmálaráðuneyti til Mannréttindaskrifstofu Íslands í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005?“

Því er til að svara að undanfarin fimm ár hafa fjárframlög sem merkt hafa verið Mannréttindaskrifstofu á fjárlögum skipst á milli skrifstofunnar og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, en að Mannréttindastofnuninni standa Háskóli Íslands, Dómarafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands.

Þessi skipting fjárframlaganna byggðist á skriflegum samningi milli þessara mannréttindasamtaka sem gerður var að tilhlutan dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, en bæði ráðuneytin styrkja starfsemi þessara samtaka.

Samkvæmt 2. gr. samnings þessa sem tók gildi 1. janúar 1999 var við það miðað að 15% af almennum fjárveitingum hins opinbera til skrifstofunnar rynnu til Mannréttindastofnunar til fræðilegra rannsókna. Eftir þessu samningsákvæði hefur verið farið undanfarin ár þangað til á þessu ári að Mannréttindastofnunin fær enga hlutdeild í fjárveitingunni. Það byggist á því að samningnum var sagt upp af hálfu Mannréttindaskrifstofu miðað við árslok 2003 og telur Mannréttindaskrifstofan sig ekki lengur bundna af því að deila fjárveitingunni með Mannréttindastofnuninni.

Þessi uppsögn bindur hins vegar ekki hendur ráðuneytisins og þegar Mannréttindastofnunin ritaði ráðuneytinu fyrr á þessu ári og óskaði eftir að fá beina fjárveitingu til sín í stað niðurfallinnar hlutdeildar í fjárveitingu Mannréttindaskrifstofunnar — Mannréttindaskrifstofan ritaði einnig ráðuneytinu og bað um hærri fjárframlög — varð að ráði að hætta að eyrnamerkja fjárveitinguna ákveðnum samtökum heldur ætla hana mannréttindamálum þannig að bæði þessi samtök gætu sótt um fé til verkefna á sviði mannréttindamála af þessum fjárlagalið.

Þá er spurt:

„2. Er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að Mannréttindaskrifstofu Íslands verði lokað?“

Að sjálfsögðu ekki og ég vil minna á að Mannréttindaskrifstofan hefur notið fjárframlaga frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árlega frá árinu 1996. Þó að fjárveiting til mannréttindamála sé ekki lengur eyrnamerkt Mannréttindaskrifstofu Íslands kemur ekkert í veg fyrir að hún geti notið stuðnings af þeirri fjárveitingu sem af ráðuneytinu er ætluð til að styrkja verkefni á sviði mannréttindamála. Það getur hins vegar ekki verið á valdi Mannréttindaskrifstofu Íslands að ákveða að Mannréttindastofnun Háskóla íslands fái ekki lengur hlutdeild í fjárveitingu ráðuneytisins til mannréttindamála, og eins og ég hef rakið er það ástæðan fyrir því að ákveðið var að leggja til að umrædd fjárveiting dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mannréttindamála væri ekki lengur eyrnamerkt Mannréttindaskrifstofu Íslands eingöngu.

Loks er spurt:

„3. Með hvaða hætti vilja stjórnvöld þróa samstarf við frjáls félagasamtök á sviði mannréttindamála og fjárhagsleg samskipti þessara aðila?“

Stjórnvöld vilja eiga gott samstarf við öll þau frjálsu félagasamtök sem stuðla vilja að varðveislu og eflingu mannréttinda hér á landi. Það verður best gert með því að styðja t.d. með fjárframlögum verkefni sem unnin eru á vegum slíkra samtaka og ætla má að horfi til eflingar fræðslu og vitundar almennings um grundvallarréttindi sín.

Í tilefni af orðum fyrirspyrjanda um að í þessari ákvörðun fælist einhver andúð á störfum Mannréttindaskrifstofu þá er það algjörlega úr lausu gripið og á ekki við nein rök að styðjast.

Þá vil ég einnig geta þess að ráðuneytið gerði Mannréttindaskrifstofu grein fyrir því með bréfi hinn 11. júní síðastliðinn að ekki væri sjálfgefið að Mannréttindaskrifstofan hefði fasta áskrift á fjárlagaliðinn þannig að það er ekki þannig að Mannréttindaskrifstofan hafi ekki vitað að þarna kynnu að verða breytingar.

Loks vil ég láta þess getið að ég hef átt viðræður við forráðamenn Mannréttindaskrifstofunnar og greint þeim frá afstöðu ráðuneytisins þannig að það hefur ekki með neinum hætti af hálfu ráðuneytisins verið farið leynt með þessar ákvarðanir.