131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.

200. mál
[14:56]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra þessi svör og umræðuna sem hér hefur orðið um þessa fyrirspurn mína.

Það sem hv. 10. þm. Suðurk., Jón Gunnarsson, sagði hér rétt á áðan er auðvitað mergurinn málsins. Ef það er ætlun hæstv. ráðherra að veita áfram þessa fjármuni til mannréttindamála, eins og kemur fram í frumvarpinu, hver mun þá veita? Hvernig munu reglurnar vera? Eftir hvers konar umsóknum verður leitað? Verður auglýst? Allt þetta þarf að vera alveg á hreinu.

Stjórnvöld verða að gera sér gein fyrir því að samskiptareglur milli stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka eru afar mikilvægar. Þær þurfa að vera gegnsæjar og öllum ljósar þannig að fólk viti hver vilji stjórnvalda er á hverjum tíma.

Ekki skal ég draga úr því sem hæstv. ráðherra sagði að gott samstarf þurfi að vera milli stjórnvalda og þeirra sem starfa að mannréttindamálum á grasrótarstiginu. Það er virkilega leiðinlegt til þess að vita að ekki skyldi vera haft samráð við Mannréttindaskrifstofu Íslands áður en þessi ákvörðun var tekin og bréfið 11. júní skrifað og sent sem boð að ofan.

Ég spyr: Hvað hafði breyst annað en það að Mannréttindaskrifstofa Íslands var að óska eftir hærra fjárframlagi og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hafði ekki verið sátt við samstarfið og báðir aðilar vildu vera sér? Af hverju var ekki hægt að ræða þessi mál og leysa þau öðruvísi en gert var, með valdboði og skilaboðum sem síðan koma í fjárlögum íslenska ríkisins?

Það er alveg nauðsynlegt að Mannréttindaskrifstofa Íslands geti haldið áfram sínu öfluga starfi og það er rétt sem hv. þm. Kristrún Heimisdóttir sagði áðan að við erum aðilar í gegnum Mannréttindaskrifstofuna að alþjóðlegu neti sérfræðinga sem skiptir okkur verulegu máli og við erum ekki að borga of mikla fjármuni fyrir allt það sem við erum að fá til baka í þessu starfi. Átta milljónir fyrir þessa skrifstofu núna á síðustu tveimur árum hefur verið of lítið. Það þarf aukin fjárframlög og ég treysti því að hv. fjárlaganefnd takið málið til alvarlegrar skoðunar.