131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:31]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. 114. gr. almennra hegningarlaga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver, sem ræður menn innan íslenska ríkisins til erlendrar herþjónustu, skal sæta fangelsi allt að 2 árum.“

Þarna er afdráttarlaust kveðið á um að það standist ekki íslensk lög að ráða menn til erlendrar herþjónustu. Það er því ekkert undarlegt að ríkisstjórn Íslands reyni allt hvað hún getur að sýna fram á að íslenska gæslusveitin í Kabúl í Afganistan sé ekki hersveit. En sannast sagna er málatilbúnaðurinn mjög ósannfærandi.

Staðreyndir blasa við okkur. Á Kabúl-flugvelli í Afganistan er hópur Íslendinga sem hefur fengið herþjálfun, ber vopn, marghleypur og hríðskotabyssur sem ætlast er til að beitt verði í bardaga ef þörf krefur. Íslendingarnir bera hermannstitla, eru flestir liðþjálfar eða majórar og eru undir stjórn ofurstans Hallgríms Sigurðssonar, sem er æðsti yfirmaður allfjölmenns herliðs á flugvellinum í Kabúl.

Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna greindi frá aðkomu Íslendinganna í fréttabréfi í júníbyrjun með svofelldum hætti, með leyfi forseta:

„Liðsveitir undir forustu NATO taka við hernaðarsvæði Kabúl-flugvallar. ISAF, International Security Assistance Force, tók við stjórn 1. júní. Tyrkneskar þyrlur bætast við liðsaflann.“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Með þessu lýkur yfirtöku hernaðarhluta flugvallarins frá þýska flughernum til ISAF, stjórnað af NATO. Ísland er forustuþjóðin sem útvegar starfssvið og tæki fyrir stjórn flugvallarins ... Aðstoðaryfirstjórnandi ISAF, Wolfgang Korte undirhershöfðingi, yfirfærði stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl frá M. Kuhn, ofursta frá Þýskalandi, til Halla Sigurðssonar, ofursta frá Íslandi.“

Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra og þýski aðstoðarvarnarmálaráðherrann Klaus-Günther Biederbick voru viðstaddir sérstaka athöfn á Kabúl-flugvelli af þessu tilefni. Íslenskir fjölmiðlar voru einnig mættir og í viðtölum sem tekin voru við Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, gerði hann lítið úr hernaðarhlutverki Íslendinga. Fulltrúar NATO hafa hins vegar lagt áherslu á hernaðarlega þýðingu íslensku sveitarinnar og það hefur stjórnandi hennar Hallgrímur Sigurðsson einnig gert.

Í viðtali við Morgunblaðið 15. júní síðastliðinn sagði Hallgrímur, sem áður hafði stýrt flugvellinum í Pristina í Kosovo, með leyfi forseta:

„Þetta er öðruvísi, þetta er meira miðað við hernaðaraðgerð hérna. Þetta er náttúrlega hliðið inn í Afganistan fyrir alla herina, þannig að allir birgðaflutningar fara hér í gegn. Þetta er miklu stærra verkefni en í Kosovo, ég hafði 120 manna lið í Kosovo, en er með um 900 manns hérna undir minni stjórn.“

Í fréttum hefur ítrekað komið fram að talsmenn NATO líta á Íslendingana í Kabúl sem hverja aðra hermenn. Í því sambandi má t.d. vitna í yfirlýsingar talsmanns NATO í frétt Stöðvar 2 á mánudaginn. Hann sagði það mál Íslendinga hvernig þeir skilgreindu sína menn. Spyrjið yfirmenn þjóðarinnar að þessu, sagði hann. Það hafa menn reynt að gera en með takmörkuðum árangri. Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson segir að þrátt fyrir öll ytri einkenni geti það ekki staðist að Íslendingar hafi herflokk í Afganistan, einfaldlega vegna þess að Íslendingar hafi ekki her.

Nú er spurning hvort fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, ætli að bera sömu skýringar á borð fyrir okkur. Ef hann hins vegar gerir það hljótum við að vilja vita hver réttarstaða Íslendinganna í Kabúl er. Yrði ekki litið á þá sem hermenn ef til átaka kæmi? Hvað með réttarstöðu þeirra, tryggingar o.s.frv.? Við höfum verið rækilega minnt á að um er að ræða raunverulega hættu á að mennirnir skaðist sjálfir eða valdi öðru fólki skaða. Ég vil beina eftirfarandi fimm spurningum til hæstv. utanríkisráðherra:

1. Hvaða lagastoð var fyrir því að koma á fót vopnaðri liðssveit Íslendinga í Afganistan sem bera hertitla og lúta heraga?

2. Hver er réttarstaða íslensku gæslusveitarmannanna hvað varðar eigin tryggingar og skaða sem þeir kunna að valda öðrum?

3. Ef friðargæsluliði vegur ríkisborgara þess ríkis sem hann er að friða, hver fer með lögsögu yfir rannsókn málsins og hverjir geta verið hugsanlegir eftirmálar?

4. Ef íslenskur friðargæsluliði er tekinn til fanga af óvinveittum aðilum, t.d. vígasveitum, nyti hann verndarákvæða Genfarsáttmálans um meðferð stríðsfanga?

5. Kemur til greina að verða við nýframkomnum óskum Bandaríkjamanna um að sameina gæsluliðið í Afganistan bandarískum hersveitum sem þar heyja svokallað stríð gegn hryðjuverkum?