131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:44]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram hjá hæstv. utanríkisráðherra eru friðargæsluliðar okkar ekki hermenn. Það er alls ekki hægt að segja að þeir séu hermenn í venjulegum skilningi þess orðs. Þeir sinna borgaralegum verkefnum, eru í flugumsjón, slökkviliðsstarfi, löggæslu og öðru slíku. Það blasir auðvitað við að á ófriðarsvæðum, þar sem þeirra er þörf, þurfa þeir að vera vopnaðir.

Ég átta mig alls ekki á þessari umræðu. Ég hélt að Íslendingar vildu almennt stuðla að friði og sinna friðargæslu og að sjálfsögðu viljum við á sama tíma að friðargæsluliðar okkar geti varið sig. Það er hættulegt að vera á þessum svæðum.

Það hefur komið fram að framlög til friðargæslunnar hafa stóraukist. Á tveimur árum hafa þau tvöfaldast. Í fjárlögum næsta árs verður bætt við 130 millj. kr. og fara þá næstum því 500 millj. kr. í friðargæsluna. Ég tel að við ættum að vera mjög stolt af því að hafa eflt friðargæslu og farið í verkefni þar sem þeirra er þörf. Og ég bara spyr: Vilja menn að þessir friðargæsluliðar séu óvopnaðir?

Hvað hefði heyrst á Alþingi ef verr hefði farið með okkar menn, sem lentu því miður í þessari árás? Hvað hefðu menn sagt ef þeir hefðu verið óvopnaðir? Þá held ég að hefði heyrst hljóð úr horni á Alþingi. Þá hefði krafan verið að þeir ættu að vera vopnaðir og það væri algerlega óábyrgt að hafa þá þar óvopnaða. Ég tel að Vinstri grænir verði að skýra mál sitt betur þegar þeir halda því fram, og Samfylkingin líka eins og hér hefur komið fram, að þetta séu hermenn. Þeir eru ekki hermenn í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur friðargæsluliðar sem eru að takast hættuleg störf á hendur, störf sem eru mjög mikilvæg fyrir samfélag okkar. Við eigum að vera stolt af því sem þeir eru að gera.