131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegur forseti. Friðargæslustörf okkar Íslendinga hafa verið mikið til umræðu eftir að gæsluliðar urðu fyrir sprengjuárás á götunum í Kabúl. Það hefur einnig komið í ljós að friðargæsluliðar okkar fá stutta hermennskuþjálfun og bera almennt vopn auk sérstakra einkennisbúninga. Ég er ekki hlynntur því að við förum í störfum okkar í hermennskuhlutverkið, enda býður það hættunni heim. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að fólk í viðkomandi löndum telur gæsluliða hermenn. Öfgamenn telja þá óvini og verðug skotmörk til árásar. Í ljósi þess að það telst hrein heppni að friðargæsluliðar eru á lífi eftir árás sem varð öðru fólki að bana vaknar sú spurning hvort alls öryggis hafi verið gætt og hvernig ferðum þeirra um hættusvæði er hagað.

Við í Frjálslynda flokknum erum hlynnt því að starfa að uppbyggingu og friðargæslu með það að markmiði að koma að störfum og aðstoð til eflingar friði í heiminum. Spyrja má: Er nauðsynlegt að Íslendingar klæðist einkennisbúningum sem að flestu leyti eru eins og hermannafatnaður?

Því miður fylgir hætta því að starfa á hættusvæðum þó að í góðum tilgangi sé og þess vegna þarf mikla aðgæslu og einnig mikinn og góðan undirbúning. Vopnaburður er vafalaust öryggisatriði á hættulegustu svæðum sem við störfum á en spurt er:

Voru, og eru, ferðir okkar fólks út fyrir verkefnissvæðið nauðsyn og var svo í þessu tilviki? Hvernig tekur hæstv. utanríkisráðherra á málum í ljósi þess sem gerðist í Kabúl? Verður að lokinni þeirri rannsókn atburða gerð grein fyrir niðurstöðu hennar hér á hv. Alþingi?