131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Hin alvarlega árás á íslenska friðargæsluliða á dögunum færir okkur heim sanninn um að veður eru válynd í okkar ágæta heimi. Ég hygg að ekki nokkur maður vilji ekki að við Íslendingar öxlum ábyrgð þegar kemur að því að tryggja stöðugleika og frið í fjarlægum heimsálfum. Um það er ekki deilt í þessari umræðu að mínu áliti. Hin áleitna spurning sem hefur vaknað er hins vegar: Hvernig veljum við okkur þau verkefni sem við hæfi eru, hvað kunnum við best og hvað getum við best?

Staðreyndin er sú sem margoft hefur komið fram í þessum sal að við Íslendingar erum herlaus þjóð og viljum vera herlaus þjóð. Því hljótum við að spyrja okkur sjálf hvort við séum best til þess fallin að vera á vettvangi þar sem herþjálfunar og -reynslu er krafist?

Ég rifja það upp eins og fleiri hér í þessari umræðu að á tímum friðargæslunnar á síðustu 10 árum sem allnokkur almenn sátt hefur verið um hefur einkum og sér í lagi verið lögð á það áhersla að læknar, hjúkrunarfólk, fjölmiðlafræðingar, stjórnmælafræðingar, lögfræðingar, viðskipta- og hagfræðingar og fleiri aðilar af þeim toga komi þar að verki, enda kunnum við þar vel til verka.

Spurning vaknar: Eru íslenskir lögreglumenn í stakk búnir til að takast á við þann vanda sem við er að etja á stöðum þar sem jafnófriðlegt er og raun ber vitni um í Kabúl? Það er spurning sem við þurfum að fara yfir og ræða á öfgalausan og hófstilltan hátt.

Ég vænti þess að þessi tíðindi kalli ekki á það að við hættum við hálfkarað verk. Engin krafa er uppi um það, a.m.k. ekki af minni hálfu. Ég hygg hins vegar að jafnframt þurfum við að setjast niður yfir þessi mál í utanríkismálanefnd og skoða vandlega hvar við eigum að leggja hönd að verki, hvað við getum best gert og hvar við komum mest að gagni.