131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:57]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Frjálslyndi flokkurinn hefur ekkert við það að athuga að við Íslendingar sendum fólk á okkar vegum til að vinna að friðar- og uppbyggingarstarfi á óróasvæðum víða um heim. Látum liggja á milli hluta hvort slíkir starfsmenn þurfi í ljósi aðstæðna að starfa í hernaðarumhverfi þar sem menn bera vopn og stunda herfræðilegt titlatog. Það er þá lágmarkskrafa að íslensk stjórnvöld sjái til þess að slíkir menn hljóti viðunandi þjálfun til að bera vopn til að nota í sjálfsvörn, menn sem starfa í stríðsástandi. Því miður er ekki hægt að segja að það gildi um íslenska friðargæsluliða í ljósi þess sem gerðist í Kabúl. Þar fór flest úrskeiðis þegar okkar menn voru í verslunarferð, gráir fyrir járnum. Lítil afgönsk stúlka og ung bandarísk kona létu lífið eftir að Íslendingarnir gáfu hryðjuverkamanni færi á sér.

Í Kastljóssþætti á mánudaginn kom fram að mennirnir þrír litu ekki á sig sem hermenn. Þeir sögðust vera friðargæsluliðar á vegum utanríkisráðuneytisins, menn sem sinntu sínum daglegu verkum við slökkvistörf og flugumsjón á flugvellinum í Kabúl. Einn mannanna sagði að hann hefði aðeins fengið tveggja vikna þjálfun hjá norska hernum og ekki í hermennsku, nei, heldur í því hvernig menn eiga að hegða sér í hernaðarumhverfi. Þrátt fyrir að þessir menn hafi að eigin sögn ekki fengið neina þjálfun í hermennsku eru þeir vopnaðir skammbyssum og hríðskotarifflum með hjálma í hermannabúningum og skotheldum vestum, líta sem sagt út eins og hermenn í hvert sinn sem þeir hætta sér út fyrir flugvallargirðinguna.

Innan girðingar eru þeir ávallt vopnaðir skammbyssum að eigin sögn.

Þetta hræðilega atvik sem varð í Kabúl, þetta tilræði við okkar menn þar, hlýtur að vekja upp margar og miklar spurningar. Við hljótum núna að verða að láta þetta verða okkur víti til varnaðar. Okkur ber að setjast niður og fara yfir alla þætti þessa máls. Það er sjálfsagt og eðlilegt að beina þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki verði látin fara fram rannsókn á því sem gerðist þarna. Einnig er skýlaus krafa að séð verði til þess að þessir menn fái almennilega þjálfun í framtíðinni.