131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[10:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%.

Sú samkeppni sem nú er komin upp á markaðnum um fasteignaviðskipti er jákvæð og hefur stuðlað að vaxtalækkun og mikilvægt að Íbúðalánasjóður hafi fulla burði til að taka þátt í þeirri samkeppni. Ekki er vafi í mínum huga að það á að styðja við bakið á Íbúðalánasjóði eins og hægt er til þess því að engin reynsla er komin á það enn hvort þau hagstæðu lánskjör í fasteignaviðskiptunum sem bankarnir bjóða nú séu komin til að vera eða hvort tilgangurinn sé einungis að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum líkt og tryggingafélögin gerðu við FÍB þegar það félag kom fram með hagstæðar tryggingar gegn okri og samtryggingu tryggingafélaganna í bifreiðatryggingum.

Þó að ég fagni framkomnu frumvarpi hef ég ýmislegt við það að athuga og ýmsar spurningar fram að færa við hæstv. félagsmálaráðherra. Það er afar mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða áhrif auknir lánamöguleikar í fasteignaviðskiptum hafa á þenslu, verðbólguþróun, einkaneyslu og efnahagslífið í heild. Félagsmálanefnd verður að fara vandlega yfir þá hlið málsins. Það er auðvitað auðvelt að meta áhrifin út frá þeim gefnu forsendum sem á borðinu liggja varðandi Íbúðalánasjóð sem er aðeins hluti af heildardæminu. Þar er gegnsæi sem þarf að vera til að meta áhrifin en annað gildir um bankana og sparisjóðina. Undrar mig satt að segja sinnuleysi aðila eins og Seðlabankans en lítið hefur heyrst frá þeim um mikla útlánaþenslu bankanna en útlánin hafa vaxið mikið og munu auka þenslu, verðbólgu og fasteignaverð sem ég mun koma að síðar.

Seðlabankinn hefur mjög beitt stýrivöxtum undanfarið en um það eru deildar meiningar hvaða áhrif hækkun stýrivaxta hefur á langtímaskuldbindingar eins og eru nú með auknum útlánum í bönkum, sparisjóðum og Íbúðalánasjóði.

Ég sé að í morgun ræðir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, aðeins um þessi auknu útlán í Fréttablaðinu og hann telur þessi nýju lán áhyggjuefni og segir að ekki hafi verið hugað nægilega vel að fjármögnun þessara lána eða arðsemi að teknu tilliti til afskrifta, rekstrarkostnaðar og annarra tekna.

Þetta segir mér að verið geti að það séu veikar stoðir undir þessu hjá einhverjum lánastofnunum, þeim útlánum sem þær bjóða nú, og það er brýnt að fylgst sé vel með því.

Ég vil spyrja hæstv. húsnæðisráðherra að því hvort einhverjar upplýsingar liggi fyrir varðandi endurfjármögnun á fasteignalán banka og sparisjóða og hvort hann sem félagsmálaráðherra eða hæstv. viðskiptaráðherra hafi haft frumkvæði að því að fá fram heildarmyndina og samanlögð áhrifin af auknum útlánum ekki bara hjá Íbúðalánasjóði heldur öðrum lánastofnunum einnig þannig að hægt sé að leggja mat á efnahagslegu áhrifin af mikilli innspýtingu fasteignalána á markaðinn. Ég hef að vísu lagt fram fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um þetta mál og það verður fróðlegt að sjá hvort bankarnir sleppi við að svara þeirri fyrirspurn í skjóli hlutafélagalaganna, en það gengur auðvitað ekki að bankarnir komist upp með að svara ekki slíkum fyrirspurnum þannig að hægt sé að meta heildaráhrifin.

Í þessu frumvarpi er farið mjög varlega í sakirnar eins og varðandi þak á hámarksfjárhæð. Nokkuð óljóst er í frumvarpinu að mér sýnist hvort 90% þakið eigi að taka gildi í áföngum eða hækkun á lánshlutfalli eigi að taka gildi að fullu um næstu áramót, en í orðum hæstv. ráðherra áðan mátti heyra að 90% lánshlutfallið eigi að taka gildi um áramót og ber að fagna því að menn séu ekki að teygja lopann í því efni, nógu erfiðlega mun Íbúðalánasjóði vegna í því að halda í hlut sinn í fasteignaviðskiptunum sem að stórum hluta eru nú komin yfir til bankanna.

En þó að ég tali fyrir því að útlánum sé hagað með þeim hætti að við missum ekki allt úr böndunum í meiri verðbólgu og óeðlilega hækkun á fasteignaverði sé ég ekki hverju það breytir í stöðunni nú varðandi hin efnahagslegu áhrif hvort strax á morgun verði farið í 90% lánshlutfall og hámarksfjárhæðin fari t.d. strax í 15–16 milljónir þegar bankarnir vaða fram algjörlega óheft varðandi þak á hámarksfjárhæð og með 80% lánshlutfall.

Hver verður afleiðing þess að bíða svona með að hækkun á lánshlutfallinu taki gildi eða að fara lengra varðandi hámarksfjárhæðina? Það mun ekki draga neitt úr útlánaþenslu, afleiðingin verður bara sú að bankarnir fá stærri hlut til sín af kökunni þegar svona er haldið á málum. Ég heiti hæstv. ráðherra stuðningi í því að afgreiða þetta mál fljótt og vel í nefndinni þannig að hægt verði að fara fyrr í hækkun á lánshlutfallinu, í 90%. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða ákvörðun sína varðandi hámarksfjárhæðina vegna þess að afleiðingin verður einungis sú að Íbúðalánasjóður mun í vaxandi mæli missa hlutdeild sína í fasteignaviðskiptum ef svo hægt er farið í sakirnar. Þetta hefur engin áhrif á verðbólguna eða þensluna, þessi viðskipti munu bara flytjast til yfir í bankana frá Íbúðalánasjóði.

Hæstv. ráðherra verður að líta til þess að meðalfjárhæð hvers kaupsamnings síðustu vikuna í október var 17,5 millj. til 20,8 millj. eftir því hvaða vika í október sl. var valin til viðmiðunar. Þetta kemur fram í gögnum frá Fasteignamati ríkisins. Miðað við hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs sem er nú 11,5 millj. lánar Íbúðalánasjóður einungis að hámarki 55–60% af meðallánum vegna íbúðakaupa eins og þau eru nú í október.

Hvað er hægt að kaupa stóra fasteign og fá 90% hluta lánað fyrir henni hjá Íbúðalánasjóði eftir þessa breytingu? Jú, íbúðin miðað við 11,5 millj. má ekki kosta meira en 12,7–12,8 millj. til að fá fullt lán hjá Íbúðalánasjóði miðað við 90% lánshlutfall og heldur meira þegar lánið er komið upp í 13 millj. um áramótin. Það dugar í mesta lagi fyrir þriggja herbergja íbúð en áætlað meðalverð á þriggja herbergja íbúð í Reykjavík í október er 12,9 millj. kr.

Ég nefni líka það ákvæði þessa frumvarps sem enn þrengir að Íbúðalánasjóði í samkeppni hans við bankana að gert er ráð fyrir að öll áhvílandi lán á íbúðum dragist frá hámarkslánsfjárhæðinni, 11,5 millj. Ég spyr ráðherrann: Er þá alveg sama á hvaða veðrétti lánin eru og hversu óhagstæð þau eru, á í öllum tilvikum að draga þau frá hámarkslánsfjárhæðinni? Það veikir sannarlega stöðu Íbúðalánasjóðs verulega ef til viðbótar því að svona hægt er farið í sakirnar miðað við það sem er að gerast hjá bönkunum á líka að draga áhvílandi lán frá heildarfjárhæðinni.

Nei, það er alveg ljóst að ef samkeppnisstaða Íbúðalánasjóðs verður ekki aukin meira en hér er gert ráð fyrir munu bankarnir fyrr en seinna taka til sín obbann af öllum lánaviðskiptum vegna fasteignakaupa. Áhrifin verða þau að bankarnir auka bara hlutdeild sína í fasteignaviðskiptum, endurfjármögnun á eldri lánum Íbúðalánasjóðs mun aukast og niðurstaðan verður sú að enn meira dregur úr samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.

Það er viðurkennt í frumvarpinu að hækkun á lánshlutfalli í 90% og hækkun á hámarksfjárhæð hafi ekki þensluáhrif vegna lánaframboðs bankanna og það er nákvæmlega það sem ég er að segja. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Ljóst er að hækkun hámarksláns og lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% hafa ekki lykiláhrif á ákvörðun fólks um endurfjármögnun, þegar í boði eru sambærileg lán sem veitt eru án hámarksfjárhæðar og án tengsla við íbúðakaup. Þau þensluáhrif sem umsagnaraðilar gerðu ráð fyrir að breytingin gæti haft eiga því að vera komin fram í kjölfar þess lánaframboðs bankanna sem þegar hefur átt sér stað, óháð hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Vildi hæstv. ráðherra ganga lengra í að 90% lánin tækju gildi strax og hámarksfjárhæðin yrði hækkuð meira? Var það svo að hæstv. ráðherra vildi gera það en að málið hafi verið stoppað í ríkisstjórninni? Ég hygg að hæstv. ráðherra sjái að í samkeppni við bankana er ekkert vit í því að fara svona hægt í sakirnar.

Ég spyr: Hvert var álit Seðlabankans sem lítið virðist stugga við bönkunum? Ég geri ráð fyrir að álit Seðlabankans, sem við verðum auðvitað að fá fram í félagsmálanefnd, hafi kannski haft sitt að segja um það að ekki hafi verið gengið lengra varðandi hámarksfjárhæðina eða að taka 90% lánin fyrr í gildi. Hvert var álit Seðlabankans nákvæmlega, hæstv. forseti?

Ég vil aðeins fara yfir fasteignaverðið og áhrifin af breytingunni en það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að auknir lánamöguleikar fólks, sem eru af hinu góða, hverfi í hækkun á fasteignaverði sem hefur hækkað ótrúlega mikið á undanförnum mánuðum og missirum. Þegar litið er á verð á íbúðum í fjölbýli og sérbýli í september til október á þessu ári miðað við sömu mánuði á síðasta ári, 2003, koma í ljós miklar verðhækkanir. Þannig hefur t.d. fjögurra herbergja íbúð í Reykjavík hækkað úr 13,7 millj. í 15,1 millj. á einu ári eða um 1,4 millj. kr. Verulegur hluti af auknum lánum hverfur því í hærra fasteignaverð. Ef litið er til sérbýla var meðalverð í sérbýli í október 2003 rúm 21 millj. kr. en í október 2004 er fasteignaverð í sérbýli komið í tæpar 26 millj. og hefur hækkað um tæpar 5 millj. á einu ári eða nálægt 25% hækkun. Það verður að skoða þessa hlið á málinu vegna þess að það er ótækt að auknir lánamöguleikar hverfi bara í hærra fasteignaverð og geri því ekki annað en að auka skuldir heimilanna.

Það er líka ástæða til að nefna ýmislegt sem fram hefur komið um áhrifin inn í framtíðina og hækkun á fasteignaverði og þenslu í þjóðfélaginu. Þar vil ég vitna til greiningardeildar KB-banka í september en þar kemur fram að samkvæmt spálíkaninu muni lítil sem engin hækkun verða á fasteignaverði fram til loka 2004 en fyrstu þrjá fjórðunga næsta árs muni hækkunin verða um 8% og þá til viðbótar því sem ég var að nefna. Síðan kemur fram að verð á stærri eignum sé viðkvæmara fyrir vaxtastigi en smærri og því má ætla að stærri eignir hækki meira í verði en þær minni, og það hefur þegar komið fram.

Það kemur einnig fram hjá greiningardeild Landsbankans að lægri vextir og aukið framboð á lánsfé kyndi undir eftirspurn bæði til einkaneyslu og fjárfestingar og líklegt er að eftirspurnin beinist að stórum hluta að innflutningi og auki enn frekar viðskiptahalla. Auk þess kemur fram að áhrifin muni þó að mestu leyti koma fram á fasteignamarkaði og sýna sig í hærra fasteignaverði og síðar auknu framboði á húsnæði.

Það sem er athyglisvert er að húsnæðisliður vísitölunnar hefur hækkað um 6% á sama tíma og aðrir þættir hafa hækkað um 1,1%. Hækkun húsnæðisverðs hefur því haft veruleg áhrif á verðbólgu á síðustu mánuðum. Það er alveg ljóst, herra forseti, og fólk þarf að borga fyrir það í hærra verði á vöru og þjónustu og það hækkar vissulega skuldir heimilanna.

Síðan kemur fram hjá greiningardeild Landsbankans að íbúðaverð gæti hækkað um 10–15% á næstu tveimur árum umfram það sem annars hefði orðið, þ.e. miðað við óbreytt framboð. Aukist framboð nýrra eigna fljótt í samræmi við eftirspurn verða áhrifin minni. Við gætum því átt von á að verð á íbúðarhúsnæði á næstu tveimur árum geti hækkað um 10–15%. Áhrif þeirrar hækkunar á verðbólgu eru talin á bilinu 0,5–1% prósent á ársgrundvelli.

Því er einnig spáð hér að þegar líður fram á annan ársfjórðung næsta árs megi eiga von á því að langtímavextir fari að þokast upp að nýju vegna hækkunar á erlendum vöxtum, hækkunar á stýrivöxtum Seðlabanka og væntingar um aukið framboð. Þessa hlið ber okkur vissulega að skoða líka á hv. Alþingi og í félagsmálanefnd þegar við veltum fyrir okkur niðurstöðunni.

Ég vil líka nefna, herra forseti, að veltan á fasteignamarkaði hefur aukist umtalsvert og er hægt að vísa í þinglýsta kaupsamninga í október á síðasta ári en þá voru þinglýstir kaupsamningar sem gerðir voru vegna íbúða í fjölbýli um 9 milljarðar kr. en tæpir 12,3 milljarðar í október sl. eða ári seinna og er aukningin 35% á einu ári. Veltan á fasteignamarkaði í sérbýli er enn meiri. Í október 2003 voru þinglýstir kaupsamningar í sérbýli tæpir 3,2 milljarðar en eru 4,9 milljarðar í október sl. og þar er aukning á veltunni 52% að því er varðar sérbýli. Er þar örugglega líka um að ræða verulega hækkun á verði íbúða sem eykur þessa veltu.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um það sem Íbúðalánasjóður hefur vissulega fram yfir bankana. Landsmenn eiga jafnari aðgang að Íbúðalánasjóði og lít ég þá sérstaklega til landsbyggðarinnar. Þarna er jafnréttispunktur í lögum um Íbúðalánasjóð og bankarnir virðast ekki hafa verulegan áhuga á að veita landsbyggðinni aðgang til jafns við höfuðborgarsvæðið. Ef á bjátar hjá lántakendum þá er miklu betri staða hjá þeim varðandi greiðsluerfiðleikalán, skuldbreytingar, lægri kostnað, lántökugjald, kostnað vegna vanskila o.s.frv. Uppgreiðslugjald í bönkunum er náttúrlega alger svívirða og nú er Samkeppnisstofnun að skoða hvort ólöglegt sé að láta fólk greiða hundruð þúsunda króna ef það ætlar að gera upp skuldir sínar. Því er refsað fyrir gera upp skuldir sínar með himinháu uppgreiðslugjaldi.

Svo er það stimpilgjaldið. Það þarf að fara að vinda sér í að fella niður þessi stimpilgjöld sem fólk þarf að reiða fram og eru 200–300 þús. kr. Ég spyr um skoðun hæstv. ráðherra á stimpilgjaldinu.

Ég spyr líka um viðbótarlánin. Þau eru núna komin í 4,3%. En er hagstæðara fyrir þá sem fá viðbótarlán að fella þau alveg niður þannig að fólk sem er innan tilskilinna tekjumarka gangi bara inn í almenna kerfið? Fólk borgar núna engin stimpilgjöld af viðbótarláninu en núna þarf það að fara að borga stimpilgjald af allri fjárhæðinni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað á að koma í staðinn? Er ráðherra reiðubúinn til þess að lækka lántökugjaldið á móti, þetta eina prósent t.d. niður í hálft prósent, til þess að vega þarna upp á móti? Þetta fólk borgar í lántökugjald núna hálft prósent en það verður eitt prósent þegar þessi breyting gengur fram. Núna eru viðbótarlánin afborgunarlaus fyrsta árið en það verður ekki við þessa breytingu.

Mér sýnist því og spyr ráðherrann um það: Verða kjör þeirra sem geta fengið viðbótarlán núna ekki óhagstæðari við þessa breytingu vegna þess að þeir þurfa að fara að borga stimpilgjald, lántökugjaldið verður hærra og ekki afborgunarlaust fyrsta árið o.s.frv.? Mun ráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að vega á móti því, t.d. lækka lántökugjaldið?

Mig undrar að ráðherrann nefnir að staðan á leigumarkaðnum sé góð, leiguverð í jafnvægi o.s.frv. Það má vera að svo sé á almenna leigumarkaðnum, að þetta hafi leitað jafnvægis þar. En staðan á leigumarkaðnum hjá þeim sem þurfa að leita sér húsnæðisaðstoðar, t.d. hjá sveitarfélögunum eða Öryrkjabandalaginu eða t.d. námsmenn, hefur bara lítið batnað. Enn eru biðlistar mjög langir. Bara hjá Félagsbústöðum bíða 900 manns eftir leiguíbúðum og þetta er fátækt fólk sem getur ekki fengið húsaskjól með öðrum hætti. Hjá Félagsstofnun stúdenta bíða 300–400. Nærri 300 eru á biðlista hjá Öryrkjabandalaginu, þar af bíða, virðulegi forseti, 77 geðfatlaðir einstaklingar eftir leiguíbúðum, hvorki meira né minna en 77 geðfatlaðir einstaklingar.

Ég spyr um vexti af þessum íbúðum. Þeir eru núna 4,9%. Er nú ekki full ástæða til þess, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra vindi sér í að lækka þá vexti? Ég spyr: Er á döfinni að lækka vextina á leiguíbúðunum? Ég held að nauðsynlegt sé að fá svar við því við þessa umræðu.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti. Ég hef beint ýmsum spurningum til hæstv. ráðherra. Ég held að staðan sé raunverulega sú að hæstv. ráðherra hafi verið píndur af Sjálfstæðisflokknum til að ganga ekki lengra varðandi þá breytingu sem hér er að ganga í gegn um hækkun á lánshlutfalli. Ég hygg að sjálfstæðismenn séu þeirrar skoðunar að það eigi að flytja þetta allt inn í bankana, öll fasteignaviðskipti, og framsóknarmenn eiga í miklum erfiðleikum með að halda hlut Íbúðalánasjóðs í þeirri breytingu. Ég spyr ráðherrann: Telur hann hér nægjanlega langt gengið? Er hann ekki sammála mér um að það muni engin áhrif hafa á þenslu, verðbólgu eða hækkun á fasteignaverði þó að hann gangi lengra í þessu efni? Íbúðaviðskiptin, fasteignaviðskiptin munu einungis flytjast í auknum mæli til bankanna.