131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:23]

Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna framkomnu frumvarpi sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur mælt fyrir, um hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% af kaupverði íbúða. Ég tel að þetta sé eðlilegt og jákvætt framhald þeirrar breytingar sem var gerð árið 1999 þegar viðbótarlán komu í stað þess félagslega íbúðakerfis sem þá hafði verið við lýði um nokkurt skeið. Þetta auðveldar auðvitað jafnframt fólki að kaupa eignir og hvetur almenning til þess að kaupa og eiga íbúðarhúsnæði sitt fremur en að leigja. Ég tel það vera góða stefnu og jákvæða þó að vissulega sé einnig nauðsynlegt að hafa til staðar virkt leigukerfi á íbúðarhúsnæði.

Það má segja að til margra ára hafi ég ekki verið neinn sérstakur stuðningsmaður Íbúðalánasjóðs. Ég taldi, og tel reyndar enn, að ýmis verkefni mætti færa yfir í aðrar fjármálastofnanir. Engu að síður nýttu bankarnir ekki vel það tækifæri sem þeir fengu í lok sumars þegar þeir hófu að veita íbúðalán með sambærilegum eða jafnvel betri kjörum en Íbúðalánasjóður hafði veitt. Ég er þeirrar skoðunar reyndar að bankarnir hafi með ákveðnum aðgerðum sínum gert það að verkum að Íbúðalánasjóður mun verða hér fastur í sessi til margra ára.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að sú ákvörðun bankanna að bjóða mismunandi kjör eftir búsetu hafi verið algjörlega óviðunandi ákvörðun. Hún leiddi til þess að ekki er annað mögulegt fyrir Íbúðalánasjóð en að halda sínu striki og vera áfram leiðandi á sviði íbúðalána í landinu. Það er ekkert annað en eðlilegt að miða lánshlutfall við verð á húsnæði og þar af leiðandi yrðu lán lægri á landsbyggðinni en þau eru á höfuðborgarsvæðinu vegna lægra verðs en það að mismuna landsbyggðinni með lægra lánshlutfalli var hins vegar óviðunandi.

Ég vil reyndar taka það skýrt fram að ég fagna mjög innkomu bankanna á þennan markað. Ég tel hana sérlega jákvæða. Bankarnir hafa nú orðið raunverulegur valkostur fyrir íbúðakaupendur sem eru í lánshugleiðingum og samkeppni á þessu sviði hefur auðvitað eins og á öðrum sviðum orðið til góðs og lækkað vaxtagreiðslur fólksins í landinu. Samkeppnin á reyndar eftir að lækka þær enn frekar því að hún á eftir að færast yfir á önnur svið eins og við höfum þegar séð dæmi um með auglýsingum um lægri lán hjá bílafyrirtækjum og bílasölum. Þrátt fyrir þessa jákvæðu innkomu gerðu bankarnir þau grundvallarmistök að bjóða mismunandi lánshlutfall eftir byggðarlögum. Það er ástæðan fyrir því að ég styð þetta frumvarp heils hugar og ég tel það mikla bót fyrir íbúðamarkaðinn í landinu. Ég tek undir það sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„ Ljóst er að atburðarásin á lánamarkaði undanfarna mánuði sýnir með skýrum hætti að tilvist og lánaframboð Íbúðalánasjóðs felur í sér nauðsynlegt aðhald gagnvart viðskiptabönkum og sparisjóðum.“

Ég vil að þetta komi skýrt fram vegna þess að í þessum stól eru menn farnir að túlka samskipti stjórnarflokkanna, aðrir en þeir sem að þeim koma. Ég held að það sé mikilvægt að þetta komi fram.

Í frumvarpinu eru þó nokkur atriði sem mér finnst rétt að nefna lítillega. Eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á munu viðbótarlán sem veitt hafa verið með samþykki sveitarfélaganna falla niður við þessa breytingu. Sveitarfélögin hætta þar með greiðslu í varasjóð viðbótarlána en þær greiðslur hafa verið um 300 millj. kr. á ári. Þetta er mjög jákvætt skref fyrir sveitarfélögin í landinu og mikilvægt innlegg í umræður um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þrátt fyrir að upphæðin sé ekki stór er þetta engu að síður gjaldaliður hjá sveitarfélögunum og skref í þá átt að lækka þann kostnað sem þau hafa af skylduverkefnum sínum.

Sjóðurinn er nú um 1.100 millj. kr. og mun áfram verða til og standa til tryggingar þeim viðbótarlánum sem veitt hafa verið frá árinu 1999. Fram til þessa hafa viðbótarlán að langmestu leyti verið veitt út á minni eignir, út á tveggja, þriggja og fjögurra herbergja íbúðir. Það er eðlilegt. Þar sem viðbótarlánin hafa verið til tekjuminni og eignalítilla einstaklinga eru þau veitt fremur út á minni eignir en hinar stærri.

Það segir sig líka sjálft að velta slíkra íbúða á markaði er hraðari en hinna stærri. Það eru örari skipti eigenda á litlum íbúðum en hinum stærri sem fólk velur sér oft sem framtíðarhúsnæði. Ég held að ekki sé óeðlilegt að telja að á næstu fimm árum muni verða eigendaskipti að stórum hluta þeirra eigna sem nú hafa áhvílandi viðbótarlán. Áður þurftu sveitarfélögin að yfirfara umsóknir og samþykkja breytingar á skuldurum í tilfellum þegar eigendaskipti áttu sér stað en eftir þessa breytingu verður það Íbúðalánasjóður einn sem veitir samþykki fyrir nýjum greiðanda að slíkum lánum. Um leið mun ábyrgð sveitarfélaganna falla niður og þá hlutverk þeirra sem varasjóðs viðbótarlána sem ábyrgðaraðila ef illa fer.

Frá árinu 1999 þegar sjóðurinn var settur á fót hafa greiðslur úr honum verið tiltölulega litlar sem betur fer. Ef áfram heldur sem horfir, þ.e. ef ástand á íbúðamarkaði verður gott áfram, verð fer hækkandi og ör skipti verða á eigendum, má einnig reikna með því að útgreiðslur úr sjóðnum verði tiltölulega litlar á næstu árum. Mér er kunnugt um að framlög í þennan sjóð voru óafturkræf samkvæmt reglum um hann og lögum en mér finnst þó ástæða til að ræða hvort ekki væri rétt að skoða að sveitarfélögunum yrðu greidd til baka þau framlög sem þau hafa sett í sjóðinn á síðustu fimm árum. Þar er um að ræða umtalsverðar upphæðir sem væri í sjálfu sér ekki vanþörf á fyrir sveitarfélögin að fá inn í rekstur sinn. Að minnsta kosti held ég að hægt væri að skoða þann möguleika að þegar eigendaskipti hafa átt sér stað á umtalsverðum fjölda þessara lána eða ákveðinni upphæð og ábyrgðin hafi þar með færst af varasjóði viðbótarlána og yfir til Íbúðalánasjóðs séu forsendur fyrir því að skoðað verði hvort ekki sé hægt að endurgreiða sveitarfélögunum úr þessum sjóði í sama hlutfalli og þau hafa greitt inn í hann á síðustu fimm árum.

Hæstv. forseti. Að því gefnu að sveitarfélögin hafi greitt 300 millj. kr. í sjóðinn á árinu 2003, sem var 5% af heildarfjárhæð þeirra viðbótarlána sem voru veitt þá, fáum við út að fjárhæð viðbótarlána á árinu 2003 hafi verið um 6 milljarðar kr. Það er rétt, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á áðan, að viðbótarlánin voru með lántökugjald sem var 0,5% í stað 1% sem er af venjulegum lánum sjóðsins og af þeim var ekki greitt stimpilgjald. Það þýðir með öðrum orðum að tekjur Íbúðalánasjóðs vegna hækkaðra lántökugjalda, að því gefnu að heildarupphæð lána verði með sama hætti og áður, munu hækka um 30 millj. kr. á ári og á sama hátt munu tekjur ríkissjóðs vegna stimpilgjalda hækka um 90 millj. kr. á ári.

Fyrir nokkrum vikum var til umræðu í þinginu nauðsyn þess að lækka kostnað fólksins í landinu vegna lántöku- og stimpilgjalda. Ég vil í tilefni af þeirri umræðu og málinu hér ítreka þá skoðun mína sem fram kom þá, að rétt sé að skoða hvort ekki sé mögulegt og ekki sé að skapast færi til þess að lækka þann kostnað fólksins í landinu með því að lækka eða fella niður stimpilgjöld af lánum til húsnæðiskaupa.

Vegna orða hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að stöðugt dragi úr samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs og reyndar einnig orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar finnst mér rétt að geta þess að mikilvægt sé að Íbúðalánasjóður þræði þann gullna meðalveg í samkeppni sem er eðlilegur hjá ríkisstofnun sem er í samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði. Íbúðalánasjóður er í yfirburðastöðu á íbúðamarkaði og hann þarf ekki og hann á ekki að fara í auglýsingaherferðir eða markaðsaðgerðir til að reyna að drepa niður samkeppni heldur fremur að vinna með þeim hætti að fleiri fyrirtæki geti einnig starfað á þeim markaði.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum nefna það að allar breytingar í þessa átt á lánakerfi húsnæðismarkaðarins setja markaðinn í biðstöðu þar til niðurstaða hefur fengist úr því máli sem verið er að ræða og þær breytingar sem verið er að leggja til eru um garð gengnar. Það er nokkuð víst að sala á íbúðarhúsnæði, sér í lagi úti á landi þar sem bankarnir hafa ekki verið að bjóða upp á 80% lánshlutfall, að þeir markaðir fara í biðstöðu þar til afgreiðsla hefur farið fram á frumvarpinu.

Íbúðamarkaðurinn hefur verið nokkuð sérstakur á þessu ári. Hann hefur einkennst af miklum breytingum á sviði lána en hann hefur jafnframt verið stöðugt undir þeirri pressu og umræðu að miklar breytingar séu fram undan á lánsmarkaðnum. Mér er kunnugt um að biðstaða hafi verið víða um land á sölu íbúðarhúsnæðis um nokkurra mánaða skeið í vor vegna fyrirhugaðra breytinga og svo verður aftur þar til frumvarp þetta verður afgreitt frá þinginu.

Það er gert ráð fyrir að lögin taki gildi frá 1. janúar 2005. Vissulega er það ekki langur tími en mér finnst ástæða til þess að nefna þetta við þær nefndir sem fá frumvarpið til umfjöllunar að þær vinni hratt og dragi ekki að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi sem allra fyrst þannig að sú starfsstétt sem hefur atvinnu sína af því að selja húsnæði, sér í lagi úti á landsbyggðinni, þurfi ekki að bíða aðgerðalaus þar til frumvarpið fær afgreiðslu þingsins.