131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að fella eigi niður stimpilgjöldin, einkum af lánum í fasteignaviðskiptum. Við í Samfylkingunni höfum margítrekað þá stefnu okkar og lagt fram um það þingmál að það verði í forgangi fram yfir margt annað sem menn vilja sjá í lækkun skatta.

Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki að lækkun stimpilgjalda vegna íbúðarhúsnæðis eða lækkun stimpilgjalda almennt eigi að vera í forgangi umfram það að fara í almenna tekjuskattslækkun um 4%, sem helst gagnast þeim sem mest hafa fyrir, hvort við eigum ekki að setja þetta í forgang og sammælast um það.

Ég vil einnig spyrja hv. þm. varðandi þá hámarksfjárhæð sem hæstv. ráðherra kynnti, 11,5 millj. kr. nú og 13 millj. kr. um áramót, hvort hann geti verið sammála mér um það að hér er of varlega farið í sakirnar og að ganga eigi lengra í að hækka hámarksfjárhæðina til þess að Íbúðalánasjóður verði samkeppnishæfur á við bankana sem eru með ekkert þak á hámarksfjárhæðinni, og hvort hann geti ekki verið mér sammála um það að þetta muni engu breyta fyrir þensluna á markaði eða verðbólguna vegna þess að þetta muni einungis flytja viðskiptin í meira mæli yfir til bankastofnana.

Hv. þm. nefndi það um daginn í umræðum um húsnæðismál að hann væri sammála skoðun minni að auka ætti sveigjanleika varðandi veðröð annarra lána þannig að Íbúðalánasjóður mundi heimila að lántakendur geti skuldbreytt óhagstæð lán svo að það væri meiri sveigjanleiki í veðröðinni. Hv. þm. tók undir það um daginn og ég vil spyrja hann hvort hann hafi eitthvað fylgt því máli eftir í þingflokki sínum þannig að það verði meiri sveigjanleiki sem eykur enn á samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs.