131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:37]

Böðvar Jónsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess sérstaklega að ég var þeirrar skoðunar að endurskoða beri og reynt verði að finna því farveg að lækka kostnað fólksins í landinu varðandi stimpilgjöld og lántökugjöld. Ég er hins vegar ekki sammála því að það sé í forgangi umfram það að lækka tekjuskattinn. Það er mál sem við eigum að ganga í númer eitt, að lækka tekjuskatt, og ég vona að fljótlega komi fram frumvarp um með hvaða hætti það verður gert á þessu kjörtímabili.

Um það hvort ekki sé eðlilegt að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs, má vel vera að ástæða sé til þess að fara með þakið hærra en 13 millj. Þó er nauðsynlegt að fara varlega í sakirnar og ég ítreka þau orð sem ég sagði áðan að Íbúðalánasjóður er með yfirburðastöðu á íbúðamarkaði. Hann þarf auðvitað að gæta hagsmuna sinna en hann á að fara þann gullna meðalveg sem er eðlilegt að ríkisfyrirtæki í samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði fari. Þess vegna er nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður skoði það og fari rólega í að hækka hámarkslán.

Ég get ítrekað það sem ég sagði um daginn að ég er sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að Íbúðalánasjóður á að veita veðleyfi þegar einstaklingar og aðilar óska eftir því að fá að skuldbreyta öðrum lánum en Íbúðalánasjóði. Ástæðan fyrir því er einmitt sú sama, að Íbúðalánasjóður á ekki að setja svo stíf skilyrði að fólk geti ekki skuldbreytt lánum sínum með eðlilegum hætti. Það skiptir ekki máli hvort Íbúðalánasjóður er á 1., 2. eða 3. veðrétti ef hann er innan þeirra eðlilegu veðmarka sem hann setur sér venjulega um veðhlutfall af hámarksverði húsnæðis.