131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var mikilvægt að fá innlegg hv. formanns félagsmálanefndar um þetta mál en þangað fer málið til meðferðar. Hv. þm. nefndi að flýta afgreiðslu málsins og við höfum tekið undir það í ræðustól. Ég vil heita formanni nefndarinnar öllum stuðningi í því máli en spyr hv. þm. hvort við getum ekki sammælst um að reyna að flýta málinu það mikið að það taki gildi 1. desember nk. Ég held að það liggi mikið á. Ég held að bankarnir séu á hraðferð að taka þennan markað meira og minna til sín og við verðum bara að efla samkeppnisstöðu sjóðsins og ein leið í því væri t.d. að flýta gildistöku frumvarpsins.

Ég vil líka spyrja hv. þm. hvort hún sé ekki tilbúin að skoða það sem ég nefndi í máli mínu áðan, þ.e. að skoða það að lækka lántökugjöldin hjá Íbúðalánasjóði. Þar ber ég fyrir mig t.d. viðbótarlánunum sem nú á að fella niður, þau bera einungis 0,5% lántökugjald en munu ef ekki verður breyting á bera 1% lántökugjald. Viðbótarlánin bera heldur engin stimpilgjöld nú en munu bera stimpilgjöld eftir þessa breytingu, þ.e. þeir lántakendur sem núna falla innan tekjumarkanna sem veita rétt til viðbótarlána. Ég held að mikilvægt væri fyrir framkvæmd málsins að við gætum náð saman um að lækka lántökugjaldið.

Ég vil líka spyrja hv. þm. af því að hún tjáði sig ekki um hámarksfjárhæðina hvort hún sé ekki sammála mér í því að hér sé of skammt gengið að hámarksfjárhæðin sé eingöngu 11,5 millj. nú og eigi að fara í 13 millj. um nk. áramót. Ég held að það sé afar mikilvægt að breið samstaða náist um að fara hærra með þessar fjárhæðir til þess að Íbúðalánasjóður verði samkeppnishæfur við bankana, ella mun enn aukast streymið inn til bankanna varðandi útlánin. Ég hef nefnt það hér að við erum ekki að auka þensluna með því að fara hærra varðandi hámarksfjárhæðir heldur erum við einungis að treysta stöðu Íbúðalánasjóðs og að viðskiptin flytjist ekki eins og nú stefnir inn til bankanna.