131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:04]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við munum skoða þetta mál vel í nefndinni. En þótt ég tali um að við getum skoðað málin eins og eðlilegt er þá gef ég ekki út nein loforð um breytingar á þessu. Ég bið hv. þm. um að oftúlka ekki orð mín.

Varðandi það hvort hámarksfjárhæðin er rétt eða ekki þá er þetta a.m.k. mat hæstv. ráðherra sem leggur málið fram. Hann hefur auðvitað öll úrræði til að skoða þá upphæð faglega. Það má líka benda á, eins og gert var af fulltrúa Sjálfstæðisflokksins áðan, hv. þm. Böðvari Jónssyni, að þetta er nokkuð vandmeðfarið, að verja Íbúðalánasjóð þannig að hann haldi vissri stöðu gagnvart íbúðakaupendum. En það er ekki eðlilegt, þegar aðrir koma inn á markaðinn, að hann útiloki aðra frá markaðnum. Þetta er hinn gullni meðalvegur sem menn þurfa að feta.

Varðandi það sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, um að við ættum að hafa skoðun á því hvort fjárhæðin væri í reglugerð eða ekki, þá bendi ég á að eins og fyrirkomulagið er núna hefur ráðherra svigrúm til að breyta fjárhæð í reglugerð. Ég átta mig ekki á því hvort þingmaðurinn vildi meina að við ættum að setja það í lög en með því væri svigrúmið miklu minna og það þyrfti að fara í gegn lagafrumvarp í hvert einasta skipti sem hæstv. félagsmálaráðherra vildi hreyfa þessari tölu. Ég vara við því og tel að með því yrði kerfið miklu staðnaðra. Ég held að margt mæli með því að hafa fyrirkomulagið eins og það er núna, að hafa þessa upphæð í reglugerð.