131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:43]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf meira aðhald í opinberum fjármálum, hefur Seðlabankinn hvað eftir annað sagt, og flestir ef ekki allir sem ég þekki hafa tekið undir þetta. Það hefur hins vegar verið minna um leiðsögnina, hvaða aðhald þetta eigi að vera. Þó er nauðsynlegt að við reynum að átta okkur á því og við eigum að gera það sjálf.

Ég viðurkenni fúslega, virðulegi forseti, að það eru ekki aðhaldsfjárlög sem við erum að fjalla um á þessu hausti. Það er því miður nokkur þensla í þeim, það er þensla í félagsmálum, heilbrigðismálum, menntamálum o.s.frv. Ég hef verið talsmaður þess að við ættum að gæta meira hófs gagnvart almennri þjónustu, gagnvart kostnaðarstigi hins opinbera. Því miður hef ég átt fáa stuðningsmenn í mínum eigin flokki og enga í stjórnarandstöðunni, ekki svo ég þekki, þeir hafa þá farið með veggjum ef svo er. (Gripið fram í.) (EKG: Koma núna.) Kannski koma þeir núna, við skulum vona það.

Þrátt fyrir þetta mega menn vita að það er einn rauður þráður í ríkisfjármálunum og fjármálum hins opinbera almennt sem skiptir máli og hefur úrslitaáhrif á það hvernig til tekst. Það eru launamál hins opinbera. Í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir er reiknað með um 90 milljörðum í bein laun, samtals með almannatryggingum af óbeinum launum er þetta 140–150 milljarðar. Það þarf að átta sig á því hvaða tölur eru á ferðinni. Það er rétt sem fram hefur komið, við þekkjum ekki hvers vegna verðbólga fer af stað í öllum tilfellum en hitt er líka rétt að vænting almennings hefur veruleg áhrif. Því er nauðsynlegt að menn tali tæpitungulaust og af hreinni einurð um launaþróunina sem verður að vera hin sama og á almennum markaði.