131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hef að undanförnu í nokkur skipti vikið að því í þessum ræðustól að sú þensla sem hefur mælst í þjóðfélaginu og Seðlabankinn er m.a. oft að vara við, mælist varla á sumum landsvæðum, t.d. ekki í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæminu. Þar finnur fólk ekki fyrir þenslu, enda er hún ekki þar til staðar.

Atvinnuleysið er of mikið og meira en stjórnvöld hafa gert ráð fyrir. Hagvöxtur er góður, en því miður fer verðbólgan heldur vaxandi. Verkalýðshreyfingin lagði sitt af mörkum með kjarasamningum til að tryggja stöðugleika og hefur þannig reynt að leggja góðan grunn að því að viðhalda og helst auka kaupmátt. Það er slök framtíðarsýn hjá ríkisstjórninni að ætla að nota atvinnuleysið sem hagstjórnartæki til að ná fram stöðugleika. Ríkisstjórnarflokkarnir ætla með skattlagningu sinni að auka ójöfnuð í þjóðfélaginu og framkvæma markvisst þá stefnu að lækka skatta á hátekjufólk, m.a. með 2% skattalækkun sem tekur gildi um næstu áramót. Þar er verið að lækka skatta á mánaðartekjur sem eru yfir 440 þús. og tæp 900 þús. kr. hjá hjónum. ASÍ vill efla tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins og segir í ályktun nýverið svo, með leyfi forseta:

„Inngrip stjórnvalda hafa falist í því að láta persónuafsláttinn á stundum hækka minna en verðlag, lækka hátekjuskattinn og nú að lögfesta afnám hans. Einnig má nefna að síðast þegar skattprósentan var lækkuð, var persónuafslátturinn lækkaður sérstaklega, til þess að draga úr áhrifum skattalækkunarinnar á þá tekjulægri! Þessi þróun hefur leitt til þess að dregið hefur úr tekjujöfnun skattkerfisins.“

Þetta segja nú heildarsamtök launþega. Þau leggja til að skattleysismörkin verði hækkuð, tekið verði upp lægra skattþrep, það verði sem sagt tekjujafnað í gegnum skattkerfið.

Frjálslyndi flokkurinn hefur stutt það að slík tekjujöfnun færi fram, m.a. með hækkun persónuafsláttar og þar með hækkun skattleysismarkanna.