131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:48]

Kristrún Heimisdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er nýfarin frá Íslandi eftir reglubundna heimsókn. Niðurstaða hennar er skýr áminning til stjórnenda ríkisfjármála í landinu. Verðbólga fer vaxandi. Væntingar eru allt of miklar. Stjórnvöld ættu að einbeita sér að því að hemja eftir föngum ójafnvægið sem virðist vera að byggjast upp.

Þess vegna er ástæða til þess að rifja upp að þegar illa horfði í kosningabaráttu fyrir einu og hálfu ári hófu valdamenn í landinu mjög eftirminnilegt sjálfshól um meint einstök tækifæri til að lækka skatta. Skilaboðin til almennings voru: Með okkur verða allir ríkir. Það kann að fara svo að sagan dæmi þann boðskap sem eitthvert mesta lýðskrum síðari tíma á Íslandi og til að bjarga einkahagsmunum sínum, öndvert almannahagsmunum, munu þeir e.t.v. keyra áfram þennan ranga kúrs, en gestsauga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sá að fréttirnar af tækifærum ríkisstjórnarinnar voru alltaf stórlega ýktar.

Í niðurstöðu sendinefndarinnar segir nefnilega, og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var að óska eftir leiðsögn áðan úr ræðustól, (EOK: Nei, ...) a.m.k. er komin leiðsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hún er þessi: Helst ætti ríkisstjórnin að fresta öllum fyrirhuguðum skattalækkunum sem kynntar eru í fjárlagafrumvarpinu og það ætti helst að hugsa til möguleika á slíku árið 2007.

Eftir að Seðlabanki Íslands varð sjálfstæður hefur verið auðvelt fyrir stjórnendur ríkisfjármála að skreyta sig með lánsfjöðrum. Meginábyrgðina á því að halda stöðugleika og jafnvægi í íslensku hagkerfi ber Seðlabankinn og á meðan sefur ríkisstjórnin værum svefni í hinum húsunum í kringum Arnarhól.