131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:52]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu skiptir máli að það takist að halda stöðugleika í verðlagi og efnahagslífinu almennt. Þar geta stjórnvöld haft áhrif. Þær kröfur hafa verið reistar á hendur sveitarfélögum og ríkisvaldinu að þau sýni aðhald og dragi þannig úr eftirspurn og þenslu. Hér skiptir máli hvar borið er niður.

Hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra sagði í sumar að öllu máli skipti að ekki yrði skorið niður í utanríkisþjónustunni. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála forgangsröð hæstv. ráðherra, en hitt er rétt að stundum þarf að forgangsraða. Ég vil þó gera greinarmun á tvennu. Annars vegar framkvæmdum og hins vegar rekstri heilbrigðisþjónustunnar, skólakerfisins o.s.frv. Þar erum við komin að hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Þar vill hann bera niður. Í orðum sínum sló hann opinbera starfsmenn utan undir í öðru hvoru orði. (EOK: Rétt.) Rétt, segir hv. þm. Ég spyr: Við hverja er hann að miða úti í þjóðfélaginu þegar hann talar um eðlilega og heppilega launaþróun? Er hann að tala um bankastjórana? Er hann að tala um sjálftökuliðið? Er hann að tala um hátekjuhópinn í samfélaginu? Er hann að tala um þingmenn eða ráðherra þegar hann segir sjúkraliðanum og kennaranum að halda sig á mottunni? Ég vísa þeim orðum og þeim hugmyndum til föðurhúsanna. (Gripið fram í.)

Hitt er svo annað mál (Gripið fram í.) að ríkisstjórnin á sök á þenslunni. Hvers vegna? Vegna stóriðjuframkvæmda. Í sumar fór hún um landið með sendisveitum frá erlendum álfyrirtækjum og sýndi þeim íslenska fossa og íslenska náttúru og sagði: Allt þetta skal vera ykkar.

Sjá menn ekki samhengi hlutanna? Þetta er samhengið. Það er til þess að viðhalda þeirri stefnu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar og talsmaður Sjálfstæðisflokksins, vill, að láta stíga á almennt launafólk.