131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:16]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir spurningar hennar.

Fyrst vil ég koma að umræðunni um þróun vaxta í húsnæðislánakerfinu og stöðu þeirra sem þurftu á viðbótarláni að halda. Annars vegar í því kerfi sem hefur verið við lýði til þessa og hins vegar í kerfinu sem við leggjum til að verði samþykkt í þessu frumvarpi.

Eins og ég kom inn á fyrr í máli mínu, hæstv. forseti, þá er það þannig að þeir sem hefðu tekið hámarkslán í hinu fyrra kerfi, 13 millj. kr. á þeim vöxtum sem þá voru í boði, 5,1% vegna almenna lánsins og 5,3% vegna viðbótarlánsins, hefðu á fyrsta árinu — með lægri lántökukostnaði en hér er gert ráð fyrir — greitt 12 þús. kr. meira en þeir gera á fyrsta árinu samkvæmt hinu nýja kerfi. Í 39 ár eftir það borga þeir 90 þús. kr. minna á ári. Ég tel að það sé ekki hægt að taka skýrara dæmi um hvaða áhrif þær breytingar sem nú eru að verða á húsnæðislánamarkaðnum fyrir frumkvæði og forustu ríkisstjórnarinnar hafa fyrir fólkið í landinu. (JóhS: Hefðu vextir ekki lækkað þrátt fyrir þessar breytingar?)

Síðan kemur hv. þm. og segir að þetta hefði allt saman gerst hvort eð var. Það gerist ekkert í þessu lífi af sjálfu sér. Þetta er afleiðing þeirra breytinga sem þingið samþykkti í sumar, breytinga á lögum um fjármögnun Íbúðalánasjóðs, sem hefur leitt af sér mun lægri vexti í þessu kerfi.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að frá því að sá er hér stendur tók við keflinu í félagsmálaráðuneytinu hafa vextir af viðbótarlánum lækkað úr 5,7% í 4,3%. Halda menn að það gerist af sjálfu sér og það sé bara eitthvað sem komi með vindinum? Það gerist vegna skýrrar stefnumörkunar og vegna þess að ríkisstjórnin ber hag fólksins í landinu fyrir brjósti.

Hv. þm. spurði eftir áliti Seðlabankans og ég hygg að ákveðins misskilnings gæti í því, hæstv. forseti. Ég leitaði eftir áliti Seðlabankans á sínum tíma á þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar þessu máli. Það álit liggur fyrir, félagsmálanefnd mun að sjálfsögðu fá það. Ég hef þegar óskað eftir því við Seðlabankann að hann meti nú áhrif þessa nýja lánaframboðs bankanna og við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess.

Í dag hefur ítrekað verið spurt, hæstv. forseti, hvort of hægt sé farið í sakirnar við hækkun hámarkslánsins. Hv. þm. spyr: Hvað ber framtíðin í skauti sér, hvað á að fara hátt, fylgir sjóðurinn markaðnum? Ég tók það skýrt fram í máli mínu fyrr í dag, hæstv. forseti, að það er auðvitað mjög mikilvægt að hámarkslánið þróist með tilliti til aðstæðna á markaði þannig að sjóðnum verði kleift að sinna því markmiði sínu að lána 90% af meðalverði hóflegs íbúðarhúsnæðis. En þegar talað er um meðalverð húsnæðis þá erum við ekki að tala um verð á stórum eignum og ég hygg að við séum sammála um það, ég og hv. þm., að það er ekki endilega hlutverk Íbúðalánasjóðs að lána 90% af kaupverði dýrustu eignanna.

Hæstv. forseti. Rétt í lokin vil ég nefna varðandi leiguíbúðirnar og þá hópa sem þar eru kannski sérstaklega til umfjöllunar eins og aldraða, námsmenn og öryrkja, að sú nefnd sem ég fól að fara yfir þau mál, með þátttöku allra helstu hagsmunaaðila, aðila vinnumarkaðar, námsmanna og fleiri, er rétt núna að skila af sér niðurstöðum sínum. Við þurfum að sjálfsögðu einhvern tíma til að fara yfir þær, meta og taka afstöðu til hverju við viljum fylgja eftir í tillögunum. En ég vonast til þess, hæstv. forseti, að á næstu mánuðum takist að vinna úr þeim tillögum sem þar koma fram.