131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin en jafnframt lýsa vonbrigðum mínum með að hann opnar ekkert á þann möguleika að lækka lántökugjaldið á móti auknum kostnaði hjá þessu fólki. Okkur greinir greinilega á um hvort breytingin sé til fyrir hagsbóta fyrir fólk sem hefur haft viðbótarlán áður að fara inn í hið nýja kerfi.

Hæstv. ráðherra getur ekki mótmælt því að fyrir mörgum mánuðum síðan, sennilega u.þ.b. ári, var uppi sú staða að lækka vexti á viðbótarlánum niður í 4,3%, eins og þeir eru núna. Þetta frumvarp eða frumvarp ráðherrans frá síðasta þingi hafði því ekkert með það að gera.

Við munum auðvitað reyna að vinna þessu máli skjótan framgang í nefndinni en ég mun leita eftir samstöðu um að lækka lántökugjaldið og reyna að ná samstöðu um að hækka þessa hámarksfjárhæð sem ráðherrann stefnir verði 13 millj. Ég tel að það eigi að gera það vegna þess að ég ber hag sjóðsins fyrir brjósti líkt og ráðherrann. Ég tel að ég sé að ráðleggja honum vel með því að hvetja hann til þess að endurskoða afstöðu sína til þessarar hámarksfjárhæðar.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er álit Íbúðalánasjóðs, stjórnar sjóðsins og forustumanna, til hámarksfjárhæðarinnar? Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa leitað til stjórnar sjóðsins eða forustumanna stofnunarinnar um hvort það væri ásættanleg niðurstaða að fara í 11,5 millj. núna og svo 13 millj. um áramótin. Ég spyr að lokum um það, hæstv. forseti, hvort fyrir liggi álit Íbúðalánasjóðs varðandi hámarksfjárhæðina og hvort þeir væru fylgjandi þeim hugmyndum sem ég hef lagt fram í þessu efni, að við förum þegar í 16 millj. kr. þak á hámarksfjárhæð.