131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Textun.

20. mál
[15:40]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. 1. flutningsmanni að hér er um afar þarft mál að ræða. Ég vil meina að hér sé um mannréttindamál að ræða og ég tel að Frjálslyndi flokkurinn njóti þess að hafa nú innan vébanda sinna og í sinni forustu hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur sem hefur auðvitað komið svo um munar skriði á þau mál sem varða málefni heyrnarlausra á hinu háa Alþingi.

Málum textunar myndefnis hefur samt sem áður verið hreyft nokkuð oft í þessum sal. Við þingmenn höfum reynt aftur og aftur að efla möguleika heyrnarlausra á því að fylgjast með myndefni, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum. Má segja að afar hægt hafi gengið í þeim efnum, jafnvel þó að ævinlega hafi vilji virst vera til staðar hjá ríkisstjórninni að gera bragarbætur. Það segir manni bara eitt, nefnilega að það er nauðsynlegt að setja textun á sjónvarpsefni og myndefni í lög. Ég er sannfærð um að mál af þessu tagi nýtur mjög mikils stuðnings í þessum þingsal sem og úti í samfélaginu. Stuðningurinn kemur strax í ljós í flutningsmannaflóru frumvarpsins en auk tveggja þingmanna Frjálslynda flokksins standa þingmenn frá Samfylkingunni og Vinstri grænum að málinu og ég treysti því að þingmenn frá stjórnarflokkunum komi til liðs við okkur í þessum þremur flokkum og málið verði á endanum stutt svo vel í nefndinni sem fær það til umfjöllunar að það komi hingað aftur til 2. umr. og endanlegrar afgreiðslu.

Þær vangaveltur sem koma upp þegar maður fer yfir efni frumvarpsins eru svo sem nokkrar og ég vil gera örfáar þeirra að umtalsefni, virðulegur forseti. Fyrst langar mig að staldra við það að 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir því að vissir aðilar hafi þá skyldu með höndum að texta það efni sem þeir í atvinnuskyni senda út, framleiða eða dreifa, þ.e. sjónvarpsstöðvar sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga, framleiðendur íslensks auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefnis, framleiðendur íslenskra kvikmynda og loks aðrir aðilar sem dreifa hér á landi kvikmyndum og auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefni, hvort sem það er til sölu eða leigu. Það eru fyrst og fremst skyldur á herðar þessara aðila sem löggjöfin kæmi til með að leggja.

Það sem vekur kannski athygli fólks, fólk kann að setja spurningarmerki við eða efasemdir kunna að vakna um er 1. töluliður 2. gr., þ.e. allar sjónvarpsstöðvar sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum. Fólk kann að segja: Æ, er þetta ekki bara mál sem Ríkisútvarpið á að sjá um? Meðan við höfum Ríkisútvarp á þetta þá ekki bara að vera mál þess? Svarið við þeirri spurningu er að sjálfsögðu nei. Þessa skyldu verður að leggja á herðar allra sem annast útsendingar sjónvarpsefnis vegna þess að það er svo mikilvægt að þar sé ekki farið í manngreinarálit, þ.e. að það verði þá til einhver ein stöð sem heyrnarskertir geta hlustað á eða horft á en aðrar ekki. Það er afar mikilvægt að þetta ákvæði 2. gr. nái til allra þeirra aðila sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum.

Hingað til hefur raunin auðvitað verið sú að Ríkisútvarpið hefur staðið eitt sjónvarpsstöðva sæmilega á bak við þessa textun meðan hún er að slíta barnsskónum. Hún er hins vegar enn á barnsskónum þannig að Ríkisútvarpið þarf eins og kemur fram í greinargerð þessa frumvarps að gera svo miklu betur. Ein af ástæðum þess að Ríkisútvarpið hefur ekki getað gert betur er sú að ekki hefur verið ætlað nægilegt fjármagn til verkefnisins. Það fjármagn sem ríkisstjórnin hefur getað sett í þetta mál eða hefur valið að setja í málið hefur verið tilviljanakennt og alls ekki með þeim hætti sem hefði þurft að vera. Ekki hefur verið mörkuð um þetta sérstök stefna.

Ríkisútvarpið hefur ákveðna sérstöðu í þessum efnum. Ákveðinn eðlismunur er vissulega á Ríkisútvarpinu og öðrum stöðvum þar sem lagalegar skyldur hvíla á Ríkisútvarpinu umfram stöðvar í einkaeign. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að Ríkisútvarpinu sé gert það kleift að halda sérstöðu sinni og að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að leiða umræðuna og draga vagninn í þessum efnum. Við verðum — og auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að kippa slíku í liðinn — að sjá til þess að Ríkisútvarpið geti staðið þessa vakt með sóma.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að sé ekki hægt að texta útsendingu samtímis verði stöðvum gert að endursýna viðkomandi efni innan 48 klukkustunda og þá með íslenskum texta. Þetta er lagaskylda sem gæti verið erfitt fyrir stöðvar að uppfylla ef þær hafa ekki þeim mun meiri bandvídd eða þeim mun fleiri rásir sem þær geta notað fyrir efni sitt. Að þessu leyti held ég að þarna komi Ríkisútvarpið og sérstaða þess líka við sögu því að í byrjun held ég að Ríkisútvarpið verði kannski eina stöðin sem geti mögulega uppfyllt þessa kvöð. Þá er líka að líta til þess að frumvarpið gerir ráð fyrir fimm ára aðlögunartíma sem ég tel afar skynsamlegt. Ég held að við ættum að geta með þeim fimm ára aðlögunartíma gefið aðilum á markaði, þ.e. þeim sem reka einkastöðvar, ákveðið svigrúm til að standa undir skyldunum sem þetta frumvarp leggur þeim á herðar.

Þá er eitt sem ég held að skipti verulegu máli að fólk fari að átta sig á að þurfi að skoða með tilliti til textunar fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta en það eru DVD-diskarnir og framleiðsla þeirra. Vera kann að þeir sem eru að framleiða þessa diska eða dreifa þeim geri sér ekki alveg grein fyrir því að þegar viðkomandi efni er með íslensku tali þarf samt að texta það líka á íslensku. Þar þarf að verða þessi vitundarvakning sem mál af þessu tagi getur leitt til, þ.e. að það nægir okkur ekki að hafa DVD-disk í höndunum sem er á íslensku, hann þarf líka að vera textaður á íslensku. Það er algjört skilyrði og ég hef svo sem heyrt bæði hér á landi og í útlöndum að mikill misbrestur sé á því að framleiðendur og dreifendur efnis á DVD-diskum átti sig á þessu.

Það er kannski eins með það og annað í þessum málum að það þarf að kynna það fyrir þeim sem hlutaðeigendum. Það þarf að standa vel að kynningu á efni þessa frumvarps meðal almennings, meðal fyrirtækja, framleiðenda kvikmynda- og sjónvarpsefnis, auglýsinga- og fræðsluefnis til að boðskapur og skilaboð frumvarpsins komist vel til skila og fólk nái að opna augu sín fyrir því hvað þetta er þýðingarmikið.

Ég sagði áðan að Ríkisútvarpið ætti að vera kyndilberi í þessum efnum og auðvitað hefur það reynt að vera það þó að því hafi ekki tekist sem skyldi. Ríkisútvarpið ber auðvitað við ýmsu, bæði því að tækjabúnaður þess sé ekki nægilega öflugur og sömuleiðis að það fái ekki næga fjármuni. Samt sem áður er ekki hægt að afsaka það að Ríkisútvarpið skuli ekki hafa sett þetta mál framar í forgangsröðina þannig að ég held að Ríkisútvarpið sem þó státar af því að hafa á síðasta ári þrefaldað mínútufjöldann í textuðu efni frá árinu þar áður verði að minnast þess að það hafði sjálft áform um að fimmfalda þetta magn á árinu 2003. Það náði ekki að gera betur en að þrefalda. Við sjáum á þessu að þó að viljinn sé góður þarf miklu meira til.

Ríkisvaldið og hæstv. menntamálaráðherra þurfa að taka í taumana og sjá til þess að jarðvegurinn sé þannig úr garði gerður að þetta verði hægt og Ríkisútvarpinu verði gert kleift að standa betur að þessum málum en hingað til hefur verið hægt.

Ég vil í lok máls míns, virðulegi forseti, lýsa óánægju minni með það að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera við þessa umræðu. Sannarlega hefði verið fengur að því að geta skipst á skoðunum við hæstv. ráðherra um þetta mikilvæga mál sem eins og ég sagði í upphafi er mannréttindamál og sjálfsagt að fái hér framgöngu.