131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Textun.

20. mál
[15:50]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hérna er flutt öðru sinni þetta mikilvæga frumvarp til laga um textun. Þegar hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir var síðasta vetur á Alþingi í fyrsta sinn flutti hún það ásamt öðru mjög merkilegu máli um móðurmál heyrnarlausra. Síðan hefur ekkert gerst í þessum málum og þau svæfð í nefnd eins og svo mörg önnur þjóðþrifamál sem ætti að vera auðvelt að ná þverpólitískri samstöðu um á Alþingi. Þingmenn stjórnarflokkanna ættu ekki að flýja afgreiðslu og umræður um jafnbrýn þjóðfélagsmál og þetta með þögninni.

Aðgengi að upplýsingum jafngildir aðgengi að samfélaginu, svo einfalt er það mál. Á þeirri sjónvarpsöld sem við lifum og miðað við hve mikilvægu hlutverki fjölmiðlarnir gegna í samfélagi okkar, ljósvakamiðlarnir og sérstaklega sjónvarpsstöðvarnar, hafa þeir gríðarleg afþreyingarleg, menningarleg og lýðræðisleg áhrif á samfélagið. Sá sem hefur ekki aðgengi að sjónvarpsfréttum og umfjöllun um málefni samfélagsins hefur einfaldlega ekki aðgengi að samfélaginu. Það er svo einfalt og þess vegna segir réttilega í greinargerð með þessu prýðilega frumvarpi um textun að hér sé um að ræða mannréttindamál.

Orðið mannréttindi er oft notað af miklu gáleysi og það gengisfellt með alls konar skrumi og dellu sem sögð er vera mannréttindi. Þetta mál fellur hins vegar klárlega undir það hugtak. Í nútímasamfélagi sem er uppbyggt eins og okkar og í einu ríkasta samfélagi heimsins er slíkt mál mannréttindamál.

Einungis tvennt getur afsakað það að lög um textun séu ekki til staðar, annars vegar fátækt samfélagsins og hins vegar frumstæði og fáfræði einhvers konar. Í töflu í greinargerðinni sjáum við lista yfir samanburðarþjóðir og þar kemur fram að textun á mánuði hjá ríkisstöðvum þessara landa er ákaflega mismikil. Eina dæmið sem er hægt að bera saman við stöðu Íslands er Albanía, þjóðfélag sem fellur akkúrat í þann flokk að vera bæði fátækt og frumstætt eftir þá hörmulegu áratugi sem á undan eru gengnir í sögu þess lands. Þar er textun á mánuði fyrir erlent mál engin. Á Íslandi er þetta einn klukkutími. Svo koma þau lönd sem skara algerlega fram úr, Bretland og Danmörk, Bretland sérstaklega þar sem þessi mál eru í ótrúlega góðu horfi. Í frumvarpinu kemur fram hve mjög Bretunum hefur fleygt fram og með hvaða hætti breska ríkissjónvarpið, BBC, hefur gengið fram með því að þróa tæknina og texta útsendingar úr breska þinginu, texta meira og minna allt sitt innlenda efni. Þetta er mjög merkileg þróun og mætti verða ríkissjónvarpinu íslenska til fordæmis.

Það er óhætt að fullyrða hér að framganga Ríkisútvarpsins í þessu máli er til skammar. Hún er stofnuninni til skammar og hún er yfirmönnum Ríkisútvarpsins til skammar, að sjálfsögðu líka þeim hæstv. ráðherra menntamála sem nú situr og þeim sem á undan hafa gengið. Kannski er þetta sérstaklega hneisa fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur linnulítið og óslitið nánast farið með menntamálaráðuneytið áratugum saman. Það er þeim undarlega flokki til vansa og skammar hvernig þessum málum er háttað.

Í fyrsta lagi er komið í veg fyrir að táknmál heyrnarlausra sé viðurkennt sem móðurmál þeirra og í öðru lagi er komið í veg fyrir að jafnbrýnt mál og þetta frumvarp til laga um textun nái fram að ganga með því að svæfa málið í nefnd. Menn ættu að brjóta odd af oflæti sínu og pólitískum skotgrafahernaði og fylkja sér um mál sem ætti að vera jafnþverpólitískt og -sjálfsagt og þetta sem við ræðum hér, textun sjónvarpsefnis. Furðu sætir að málið sé ekki komið á frekari rekspöl. Ég minnist þess í umræðum í fyrra að eftir að sá sem hér stendur og fleiri höfðu skorað á þingmenn stjórnarflokkanna að taka þátt í umræðunum og kynna okkur viðhorf flokka sinna mættu í púltið þeir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson. Ég man ekki betur en að hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hafi talað líklega um að þetta væri hið ágætasta mál sem ekkert ætti að koma í veg fyrir að næði fram að ganga þó að ég muni ekki nákvæmlega orð hans eða hafi ræðu hans hér.

Það er ástæða til að skora á hv. þingmanninn að mæta hingað aftur eigi hann þess kost eða senda einhvern af fulltrúum sínum í ræðustól. Einhver 22 þingmanna Sjálfstæðisflokksins hlýtur að sjá sér fært að vera við umræðu um eitt brýnasta mál þingsins. Ég segi eitt brýnasta mál þingsins af því að hér er um að ræða mál sem lýtur að mannréttindum heyrnarlausra og heyrnarskertra á Íslandi. Það er rakið prýðilega hve stór hópur þetta er. Við erum ekki einungis að tala um fólk sem fæðist heyrnarlaust eða verður það á lífsleiðinni, heldur þann stóra hóp Íslendinga sem verður fyrir einhvers konar heyrnarskerðingu á ævinni. Eldri borgarar landsins þekkja það líka, við lifum æ lengur og þegnar Íslands sem eiga sem betur fer æ lengri ævi en á síðari áratugum er mjög mörgum þannig farið að heyrnin skerðist og fólk á erfitt með að fylgjast með íslensku sjónvarpsefni sé það ekki textað. Heyrnarskert fólk á erfitt með að fylgjast með fréttum og því sem fer fram í samfélaginu, á erfitt með að njóta íslensks afþreyingarefnis hvers konar, einfaldlega af því að það er ekki textað.

Það er eiginlega stórundarlegt, virðulegi forseti, af hverju þessi mál eru í þeim skammarlega farvegi sem þau eru í á Íslandi árið 2004. Við erum ein af ríkustu þjóðum veraldar og höfum um áratuga skeið búið meira og minna við góðæri og gott efnahagsástand, að sjálfsögðu með allri sinni litríku sögu. Þjóðin hlýtur að líta á það sem forgangsmál að búa svo um hnútana að allir hafi jafnt aðgengi að samfélaginu. Hafi menn ekki aðgengi að samfélaginu í gegnum upplýsingar og sjónvarp eru menn einfaldlega útilokaðir frá því og mismunað mjög gróflega. Það að hér séu ekki lög sem skylda þá aðila sem hafa leyfi til sjónvarpsútsendinga samkvæmt útvarpslögum og framleiðendur íslensks auglýsinga-, fræðslu-, kynningar- og sjónvarpsefnis að texta efni sitt þarfnast skýringa. Ég trúi ekki öðru en að stjórnarmeirihlutinn og þingmenn stjórnarflokkanna taki höndum saman við stjórnarandstöðuflokkana og veiti þessu brýna máli brautargengi í vetur.

Það var mjög þarft þegar hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti þessi mál í fyrra, þetta mál og málið um að táknmál yrði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Taldi þá margur að þegar þessi brýnu mál yrðu komin með svo vönduðum og afgerandi hætti inn á Alþingi Íslendinga sæju menn lag að vinna þau áfram í nefndinni og koma þeim aftur til 2. og svo 3. umr. og málið yrði að lögum. Ég trúði sjálfur að svo yrði og er ástæða til að nota þetta tækifæri hér til að skora á forustumenn og þingmenn stjórnarflokkanna að endurskoða hug sinn og veita því brautargengi. Málið er mjög mikilvægt og eitt af réttlætismálum okkar tíma að það nái fram að ganga. Ekki höfum við þá afsökun að íslenskt samfélag hafi ekki efni á að texta sjónvarpsefni með þeim hætti sem hér er lagt til og í öðru lagi er alveg ágætur og sanngjarn aðlögunartími þar sem fimm ár eru gefin frá gildistöku laganna þar til allt innlent efni skuli vera textað. Þetta er tekið í mjög sanngjörnum þrepum eins og hér segir.

Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum þykir textun innlends sjónvarpsefnis sjálfsagt mál. Sjálfsagt brygði mörgum í brún að upplifa á hve frumstæðum nótum þessi mál eru stödd á Íslandi og að Alþingi Íslendinga skuli árið 2004 þurfa að ræða jafnsjálfsagt mál og þetta. En það væri mjög sorglegt ef þessi ríkisstjórn ætlaði að humma það fram af sér að þetta mál komi til kasta Alþingis, verði afgreitt út úr nefnd og Alþingi gefist kostur á að greiða atkvæði um málið og það færist fram á næsta kjörtímabil að samþykkja lög um textun sjónvarpsefnis. Það væri mjög dapurlegt af því að þá værum við áfram að útiloka þúsundir ef ekki tugþúsundir Íslendinga frá því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu með því að fylgjast með þjóðfélagsumræðu í gegnum fréttir og annað efni og njóta þeirrar afþreyingar sem íslenskt sjónvarpsefni býður upp á.

Það verður fróðlegt að heyra í þingmönnum stjórnarflokkanna en það er dapurlegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki geta verið við þessa umræðu. Hún mun kannski hafa tækifæri til að gera með einhverjum öðrum hætti grein fyrir afstöðu sinni í málinu og ýta á eftir því að málið verði afgreitt úr nefnd og komi fyrir Alþingi aftur þannig að Alþingi Íslendinga gefist kostur á að afgreiða það. Ég efast ekki um að ef slíkt mál kæmi til kasta þingsins og atkvæðagreiðslu þá væri yfirgnæfandi eða algjör meiri hluti með málinu. Ég ætla engum alþingismanni íslenskum það að vera á móti jafnsjálfsögðu máli og þessu.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að rekja það frekar hve aftarlega við erum á merinni í þessum efnum. Þó má nefna nokkrar tölur. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að 80% af öllu innlendu efni á BBC, ITV og Rás 4 í Bretlandi er textað. Það hlýtur að teljast stórbrotinn árangur. Íslensku sjónvarpsstöðvunum er samkvæmt frumvarpinu ætlaður þriggja ára aðlögunartími frá gildistöku þessara laga til að ná sama marki. Í öðrum löndum er ástandið misgott en þó alls staðar miklu betra en hér. Þróunin í Bretlandi er hins vegar sérstaklega athyglisverð.

Það er Ríkisútvarpinu til skammar hvernig málum er fyrir komið og að forustumenn þeirrar stofnunar skuli ekki hafa beitt sér fyrir því að stofnunin gangi fram fyrir skjöldu, leiði þessa þróun og sýni það án þess að vera skipað eða skikkað til þess af Alþingi Íslendinga að sinna þessum stóra þjóðfélagshóp. Þetta er ríkisútvarp okkar allra sem ber skylda til að tryggja að allir hafi aðgang að sjónvarpsefninu sem miðlað er í gegnum það. Það er ástæða til að skora á þá sem fara fyrir stofnuninni að bæta þar verulega úr þótt stjórnarflokkarnir standi í veginum fyrir því að þetta mál nái fram að ganga.

Engan sé ég enn þá frá Sjálfstæðisflokknum í salnum. Hér er mættur einn þingmaður Framsóknarflokksins en við sjáum til hverju fram vindur í umræðunni. Ég ætla ekki að hafa lengra mál að þessu sinni en vil aftur segja að það að hvernig þessum málum er fyrir komið á Íslandi er samfélaginu til skammar. Þetta er einn af smánarblettunum á þjóðfélaginu. Ég skora því enn og aftur á þingmenn stjórnarflokkanna að brjóta odd af oflæti sínu og taka þátt í því með stjórnarandstöðunni að þetta mál megi ná fram að ganga í vetur.