131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Textun.

20. mál
[16:05]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að bregðast svo skjótt við og gera okkur grein fyrir afstöðu sinni, líkt og hann gerði í umræðum um þetta mál síðasta vetur. Ég gleðst mjög yfir því og endurtek að í raun efast ég ekki um að flestir þingmenn stjórnarflokkanna séu sama sinnis. Mér þykir a.m.k. ólíklegt að menn séu á móti frumvarpinu og þess vegna er kannski enn þá ríkari ástæða til að brýna menn til að taka þátt í umræðunni, gera grein fyrir afstöðu sinni og vinna þessu máli brautargengi.

Ég tek jafnframt undir það að mestu máli skiptir að þetta verði að lögum. Útfærslan og hvernig þetta tiltekna þingmál breytist í meðförum nefndar kemur bara í ljós. Þingnefndinni ber að laga málið til og breyta því ef menn telja að svo þurfi að gera, að það þurfi að lengja aðlögunartíma eða slá eitthvað af kröfunum, slá t.d. af endursýningarkröfu innan 48 stunda, sem ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að gæti reynst mörgum stöðvum örðug.

Allt eru þetta útfærsluatriði sem sjálfsagt er að breyta til hins betra svo að málið verði sem best úr garði gert þannig að sjónvarpsstöðvarnar geti raunverulega sinnt þessari þá orðnu lagaskyldu sinni.

Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í umræðunni og gera okkur grein fyrir afstöðu sinni og vona að við sjáum síðar í umræðunni fleiri þingmenn stjórnarflokkanna spretta upp í salnum.