131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Textun.

20. mál
[16:12]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mælti fyrir, um textun á innlendu sjónvarpsefni, er mjög mikilvægt innlegg í þau mál sem lúta að bættu upplýsingaaðgengi fyrir stóran hóp landsmanna. Talað var um 10% í því samhengi. Það er há tala og segja má að það sé skammarlegt að jafnstór hópur fái upplýsingaaðgengi sínu ekki fullnægt.

Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa aðgang að upplýsingum. Ríkissjónvarpið er eina sjónvarpið sem eitthvað hefur sent út textað af innlendu sjónvarpsefni. Í þessari viku eru aðeins þrír þættir sendir út textaðir en það eru Spaugstofan, Í brennidepli og Stundin okkar. Allir eru þessir þættir um hálftímalangir. Það liggur ljóst fyrir að margir innlendir þættir eru gerðir fyrir fram og ættu því að vera nokkuð auðveldir til textavinnslu svo að hægt sé að senda þá út með texta.

Fyrir árið 2004 er áætlað að 2,5 millj. kr. fari í textun á innlendu efni. Tölur fyrir 2005 liggja ekki fyrir.

Frú forseti. Ég verð að segja að ég er nokkuð viss um að meiri hluti þeirra 10% þjóðarinnar sem um er að ræða borgar fullt afnotagjald ríkissjónvarpsins, a.m.k. gerir mitt heimili það.

Nýverið á þessu ári tóku Norðurljós upp stafræna tækni í útsendingum hjá sér. Mér hefur verið tjáð að með stafrænni tækni aukist möguleikarnir á að efni sé sent út textað.

Mér var tjáð í samtali við starfsmann Norðurljósa með þekkingu á stafrænni tækni að þeir mundu vilja notfæra sér þennan möguleika. En sem stendur er upphafskostnaðurinn mikill. Á eigin ábyrgð get ég sagt að með samþykkt frumvarpsins og tilkomu svokallaðs Textunarsjóðs trúi ég að fjárframlag úr þeim sjóði mundi styrkja þá yfir erfiðasta hjalla upphafskostnaðarins sem þarf til að textun geti orðið að veruleika.

Skjár einn, yngsta sjónvarpsstöðin hérlendis og sem er í meirihlutaeigu íslenska ríkisins, hefur ekki textað innlent efni að neinu ráði frá upphafi til dagsins í dag. Í samtali við starfsmann Skjás eins kom fram að þeir væru áhugasamir fyrir því, sér í lagi ef til stuðnings kæmi frá stjórnvöldum til að mæta upphafskostnaði, og erum við þar aftur komin að ágæti Textunarsjóðs.

Ég leyfi mér að bæta því að þeir sem ekki heyra hljóðið í sjónvarpi en hafa farið til útlanda og séð þar textað efni hafa sagt mér að þeir upplifi allt annan heim með því að fá upplýsingarnar jafnóðum og er það mikill kostur.

Þess má einnig geta að í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum voru kosningavökur helstu sjónvarpsstöðva sendar út textaðar og það í beinni útsendingu.

BBC í Bretlandi hefur á síðasta ári sent út textað efni í stafrænni útsendingu. Einnig má nefna að Sky Channel hefur nú hafið útsendingar á sérstakri táknmálsrás, en margir heyrnarlausir vinna við þá stöð, við tæknivinnslu, þáttagerð og að öðru sem lýtur að rekstri sjónvarpsstöðvarinnar.

Ég hef engu við það að bæta sem flutningsmaður sagði í ræðu sinni nema að ég vil ítreka það enn og aftur að mikilvægt er að frumvarp þetta verði að lögum, svo framarlega sem stjórnvöld geta hugsað sér að bæta upplýsingaaðgengi 10% landsmanna.

Ég vona heils hugar að þetta frumvarp fái jákvæða umfjöllun í menntamálanefnd.

Herra forseti. Ég sakna verulega nærveru menntamálaráðherra hér í dag.