131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[11:37]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Lögin um mat á umhverfisáhrifum eru lítið annað en tæki til að setja umhverfismál og skipulagsmál í ákveðið ferli. Þau eru hins vegar ekki mælikvarði á hvernig það er gert. Við höfum séð hvernig þessum lögum hefur verið framfylgt hingað til. Yfirleitt hafa allar framkvæmdir verið leyfðar af Skipulagsstofnun og hafi þær ekki fengið leyfi hefur umhverfisráðherra snúið úrskurðum við. Lögin eru kannski ekki mælikvarði á hvernig framkvæmdir verða metnar heldur segja þau til um lagalegt ferli fyrir umhverfismálin.

Hins vegar má segja að frumvarpið er betra nú en það var í vor þegar við fjölluðum um frumvarp sama efnis. Það má fara yfir lagatæknileg atriði hvað það varðar. Það er betra að tala um frummatsskýrslur en drög að matsskýrslu. Drög eru skjöl sem eru í vinnslu og þetta orðalag skýrara fyrir þá sem koma að málinu, að tala um frummatsskýrslu.

Við verðum einnig að vara okkur því í framkvæmdinni, ef þessi lög verða samþykkt, að samkvæmt þessu frumvarpi verður sveitarstjórnum falið aukið hlutverk. Það verður að tryggja að sveitarfélögin hafi bolmagn til að sinna þeim málum þokkalega. Einnig verður að tryggja fjármálin. Í 25. gr. frumvarpsins kemur fram að styrkja eigi gjaldtökuheimild sveitarfélaganna. Ég tel mjög mikilsvert að hugað verði sérstaklega að þessum þætti vegna þess að sveitarfélögin eru liðlega 100 og mun að líkindum fækka. Það verður mjög erfitt fyrir mörg þeirra að fara í gegnum þetta ferli. Það var mjög þungt fyrir Skipulagsstofnunina að fara í gegnum áfrýjunarferlið og síðan jafnvel fyrir dómstóla, hvað þá fyrir sveitarfélög sem verða kannski 1–2 þúsund manns.

Varðandi málskotsréttinn segir í 12. gr. frumvarpsins:

„Umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem varnarþing eiga á Íslandi njóta sama réttar, enda séu félagsmenn samtakanna 50 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.“ — Það er að skjóta málinu til ráðherra.

Síðan er nákvæm skilgreining á umhverfissamtökum og hvaða skilyrði þau þurfa að uppfylla, m.a. að þau þurfa að vera opin fyrir almenna aðild, gefa út ársskýrslur og endurskoða þarf bókhald þeirra. Í sjálfu sér er ekkert fjallað um það hver eigi að fara yfir þessa þætti. Ég tel að ef menn ætla að hafa þennan hátt á þá þurfi það að koma fram. Ef menn gera svo ríkar kröfur til umhverfisverndarsamtaka hefði ég talið að það ætti að skilgreina hagsmunasamtök líka. Hagsmunasamtök eru ekki skilgreind. Einnig mætti ætla að þegar menn eru með hagsmunasamtök sem, eins og hér segir, í þurfa að vera fleiri en 50 félagsmenn séu menn jafnvel að útiloka ýmis hagsmunasamtök. Ég tel t.d. að í Samorku séu færri en 50 félagsmenn. Ég tel að það þurfi að fara betur yfir þessa þætti og gæta samræmis.

Ýmislegt annað þarf að fara yfir. Það er ekki langt síðan þessi lög tóku gildi og ýmsir framkvæmdaraðilar hafa verið að læra á þau. Ég tel einna mesta ágallann við þessar breytingar þann að verktakar og aðrir voru búnir að læra á lögin sem eru í gildi. Þau eru farin að ganga þokkalega smurt fyrir sig. Ég tel að þegar við breytum ferlinu eins og gert er ráð fyrir þurfi að fara í mikið kynningarátak á ný og ganga úr skugga um að þeir sem lögin varða fái góða kennslu og upplýsingar um hvernig skuli vinna samkvæmt nýju lögunum.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég ítreka að ég tel að þær breytingar sem orðið hafa frá því að við sáum frumvarpið á síðasta þingi séu til bóta.