131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:37]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þá ágætu umræðu sem orðið hefur hér um þetta mikilvæga mál. Ég veit að umhverfisnefnd mun leggja sig fram um að fara mjög vandlega yfir frumvarpið. Það var til umfjöllunar í nefndinni í fyrra. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því í fyrra eru í raun og veru í kjölfar þeirra umræðna sem þar urðu og þeirra ábendinga sem fram komu við meðferð málsins og ýmissa ábendinga sem komu frá umsagnaraðilum.

Það var nefnt að hér væri um mjög flókið mál að ræða og ég tek undir það. Þetta eru líka mál sem eru svo mikilvæg að nauðsynlegt er að það sé nokkur sátt um hvernig lögin um mat á umhverfisáhrifum eigi að vera. Því finnst mér ástæða til að þarna sé sérstaklega vandað til verka. Það kom réttilega fram við umræðuna að ástæðan fyrir því að málið var ekki klárað síðastliðið vor var fyrst og fremst sú að menn vildu fá lengri tíma til þess að fara yfir efni frumvarpsins.

Margt hefur verið nefnt hér og margir þingmenn hafa dvalið við úrskurðarnefndina og gagnrýnt að tveir menn komi frá umhverfisráðherra í nefndina og hafa jafnvel talið að enginn ætti að vera skipaður í nefndina af umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir því að starfsmaður nefndarinnar verði jafnframt formaður og verið er að styrkja úrskurðarnefndina. Ég tel algjörlega einboðið að ekki sé unnt að skipa formanninn öðruvísi en að ráðherra geri það. Þar að auki bendi ég á að mjög margar úrskurðarnefndir eru starfandi í stjórnsýslunni þar sem ekki eru sett niður ákvæði með jafnströngum hætti og gert er í þessu lagafrumvarpi en Hæstiréttur tilnefnir þrjá aðila í nefndina. Ef þetta er borið saman við ýmsar aðrar nefndir af svipuðu tagi þá er verið að gera mjög strangar kröfur hér. Ég legg líka áherslu á að úrskurðarnefndin hefur starfað algjörlega sjálfstætt og mér finnst ekki nokkur ástæða til að verið sé að draga í efa að svo verði áfram.

Málskotsrétturinn hefur líka verið gerður að umtalsefni af hálfu þingmanna og það hefur verið gagnrýnt að hann sé þrengdur. Ég vil af því tilefni taka sérstaklega fram að breytingarnar sem verið er að leggja til í frumvarpinu eru til samræmis við það sem gildir á Norðurlöndum og ég vísa þá í almennar athugasemdir við frumvarpið, en réttur til málskots hefur hvergi á Norðurlöndum verið eins víðtækur og hér á landi. Þá er líka tekið af skarið um það, eins og í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, að ákvarðanir Skipulagsstofnunar verði aðeins kærðar til ógildingar eða breytinga og það þýðir að ekki yrði heimilt að kæra ákvarðanir stofnunarinnar til staðfestingar einvörðungu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst að það eigi að tryggja fullkomlega rétt almennings til þess að geta átt aðild að málskoti í gegnum umhverfisverndarsamtök og óttast ekki að þessi ákvæði komi í veg fyrir að menn geti komið að málum með þeim hætti.

Það var nefnt að kannski væri verið að hafa áhrif á hvernig félagasamtök störfuðu. Ég tel að með þessum ákvæðum sé alls ekki verið að reyna að hafa áhrif á það. Það er fyrst og fremst verið að gera þetta með sama hætti og tíðkast í nágrannalöndunum sem við berum okkur jafnan saman við.

Nýja tilskipunin, þ.e. 2003/35/EB, er gerð að umtalsefni. Ég vil nefna sérstaklega að hún er enn þá ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Verið er að skoða málið í undirnefnd EFTA og umhverfisráðuneytið vinnur líka að þessum málum í samráði við utanríkisráðuneytið. Það er alveg ljóst varðandi dagsetninguna sem nefnd er í frumvarpinu, 25. júní 2005, að okkur er ekki skylt að klára málið fyrir þann tíma. Ég vil a.m.k. að það sé ljóst. Málið er í skoðun. Ég vil líka taka fram að það er sérstaklega nefnt á bls. 13 í greinargerðinni að í tilskipuninni eru ákvæði um að „almenningur sem málið varðar“ skuli hafa aðgang að áfrýjunarleið fyrir dómstólum eða hlutlausum aðila samkvæmt lögum, og ýmislegt fleira er tíundað í greinargerðinni. Við teljum að þetta sé í raun og veru þegar fyrir hendi. En það eru hins vegar margir aðrir lagabálkar sem þarf að skoða í þessu sambandi og það er auðvitað eitthvað sem getur tekið tíma. Það er m.a. ástæðan fyrir því að málið er í skoðun í undirnefnd EFTA.

Hér var leyfisveitingaferlið líka nefnt og hvað gerist þegar ráðherra er leyfisveitandi og ýmislegt fleira þar að lútandi. Ég vil sérstaklega taka fram að allar framkvæmdir þurfa framkvæmdarleyfi sveitarstjórna og vísa ég þar í 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins.

Athygli mín hefur verið vakin á því að í 3. gr. f-liðar þurfi að gera lagfæringar á stafliðum. Ég bið nefndina að lagfæra þau atriði sem greinilega þarf að laga.

Ég tel að ég hafi farið nokkurn veginn yfir það sem hér hefur komið fram þótt vitanlega væri hægt að verja miklu lengri tíma í að ræða frumvarpið.

Um það sem þingmenn voru að ræða síðast, um einstakar framkvæmdir, vil ég segja að mér er ekki kunnugt um hvort fullyrðingar hv. þm. Jóns Bjarnasonar um virkjanamál í Skagafirði eiga við rök að styðjast, varðandi það að þar hafi ekki verið staðið að verki eins og vera ber. Ýmislegt fleira var nefnt og það getur vel verið að það sýni okkur kannski hve vakandi almenningur og þeir sem hafa áhuga á þessum málum þurfa að vera t.d. gagnvart auglýsingum á framkvæmdum. Það getur vel verið að eitthvað sé hægt að bæta það ferli þannig að menn taki betur eftir.

Varðandi friðlönd og verndun þeirra vísa ég fyrst og fremst á náttúruverndarlögin. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi sérstaklega náttúrufarskortin og ég tek undir það með henni að þar er um gríðarlega mikilvæga vinnu að ræða. Það starf kemur að miklu gagni afar víða þegar öll þessi mál eru skoðuð.