131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:50]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti svar hæstv. umhverfisráðherra gefa til kynna að möguleiki væri á að yfirvöld í utanríkisráðuneytinu skoðuðu þessa tilskipun með það í huga hvort nægilega mikið af ákvæðum tilskipunarinnar hafi verið innleidd og þau kannski komist hjá því að innleiða hana að fullu og öllu.

Ég vara við því að íslensk stjórnvöld fari þannig í þessi mál. Sannleikurinn er sá að íslensk stjórnvöld hafa verið skussar í umhverfismálum. Friðlýsingar hafa ekki haldið. Framkvæmdaraðilum er heimilt að gera matsáætlanir og matsskýrslur um framkvæmdir sem ganga á friðlönd okkar. Umhverfisráðherrar hafa sagt það fullum fetum að breyta megi friðlýsingum og það hafa þeir gert. Þeir hafa breytt friðlýsingum samkvæmt náttúruverndarlögum til að koma fyrir stórframkvæmdum á friðlýstum svæðum. Það er full ástæða, virðulegi forseti, til að tortryggja stjórnvöld hvað þetta varðar.

Ég held að það sé veruleg þörf á að hafa auga með íslenskum stjórnvöldum sem eru í þessu tilfelli, eins og hæstv. umhverfisráðherra segir, að verki í utanríkisráðuneytinu. Við þurfum að athuga hvað þau eru að gera í þessum efnum, hvort þau reyna að koma sér hjá því að innleiða þau ákvæði sem þessi tilskipun kveður á um. Tilskipuninni er ætlað að tryggja rétt almennings í umhverfismálum, aðkomu einstaklinga og umhverfissamtaka að réttlátri málsmeðferð. Ég bið fólk, sérstaklega umhverfisnefndina, að vera vakandi fyrir því að tilskipunin rati í íslensk lög og sömuleiðis að Árósasamningurinn, sem þessi tilskipun byggir á, verði lögfestur á Íslandi.