131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:40]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þær tilfinningar sem bærðust í huga mér þegar úrskurður um samráð olíufélaganna var kynntur voru af tvennum toga. Annars vegar sár vonbrigði yfir því að stór fyrirtæki á markaði sem skipta íslenskt atvinnulíf og þjóðarbú afar miklu máli skuli bregðast trausti viðskiptavina og samfélagsins með því að fara gegn leikreglum viðskiptalífsins. Hins vegar ánægja með að samkeppnislögin og samkeppnisyfirvöld sem eiga að sjá til þess að ólögmætar samkeppnishömlur séu upprættar skuli virka.

Síðustu áratugina hafa það verið almenn viðhorf á Vesturlöndum að ein af meginforsendum efnahagslegra framfara og aukinnar hagsældar sé virk samkeppni sem stuðlar að lægra vöruverði, eykur vöruframboð og vöruþróun og þrýstir niður kostnaði við framleiðslu, dreifingu og sölu. Takmörkun eða hindrun á samkeppni leiðir aftur á móti til þess að verð á vöru og þjónustu verður hærra en ella og gæðin lakari. Samkeppnishindranir slæva einnig hvata til nýsköpunar á markaði. Ólögmætt samráð fyrirtækja er alvarleg samkeppnishindrun, dregur því úr hagsæld og hefur í för með sér margvíslegan skaða fyrir almenning, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild.

Af þeirri ástæðu hefur frá upphafi verið lagt bann við ólögmætu samráði í samkeppnislögum og voru þau ákvæði laganna stórefld með breytingum á árinu 2000.

Ég hef áður vitnað til orða æðsta yfirmanns samkeppnismála hjá Evrópusambandinu sem fyrir nokkrum árum lýsti ólögmætu samráði keppinauta við krabbamein hins frjálsa hagkerfis.

Hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, hefur verið sýnt fram á að ólögmætur ávinningur af verðsamráði sé að meðaltali 10% af söluverði en tjón samfélagsins af samráðinu geti numið allt að 20% af þeim viðskiptum sem samráðið hefur áhrif á. Með öðrum orðum þýðir verðsamráð að jafnaði 10% hærra verð en ella, en tjón samfélagsins er talið enn meira.

Eftir því sem ég hef haft tök á að kynna mér hina viðamiklu ákvörðun samkeppnisráðs um ólögmætt samráð olíufélaganna virðist mér hafa verið vel vandað til verka. Ljóst virðist af hinni stóru skýrslu að Samkeppnisstofnun hafi ráðist í mjög umfangsmikið verkefni þegar stofnunin hófst handa við rannsókn sína. Verður að virða það við stofnunina sem er fámenn. Sumir hafa hnýtt í hana og fundist rannsókn hennar hafa tekið óhóflega langan tíma. Eftir að umfang rannsóknarinnar er nú orðið kunnugt verð ég að segja að mig undrar ekki að hún hafi tekið þann tíma sem raun ber vitni. Ákvörðunin ber með sér að fram hefur farið mjög víðtæk gagnaöflun og gagnaúrvinnsla er varðar nánast allan rekstur þriggja stórra fyrirtækja á íslenskan mælikvarða yfir tæplega níu ára tímabil. Þá er einnig ljóst að þurft hefur að glíma við mjög flókin lögfræðileg og hagfræðileg úrlausnarefni. Heimildir mínar benda einnig til þess að svo yfirgripsmikið stjórnsýslumál sem þetta hefði tekið jafnlangan ef ekki lengri tíma hjá samkeppnisyfirvöldum í nágrannalöndum okkar.

Því hefur oft verið haldið fram að vegna ónógra fjárveitinga til Samkeppnisstofnunar hafi henni ekki verið unnt að sinna störfum sínum sem skyldi. Í ráðherratíð minni hafa framlög til stofnunarinnar aukist um 50 millj. kr. Sú viðamikla rannsókn og skýrslugerð sem hér er til umræðu sýnir svo að ekki verður um villst að stofnunin er fær um að ráðast í hin flóknustu mál með miklum árangri.

Engu að síður er nauðsynlegt að gera betur og efla samkeppnisyfirvöld enn frekar. Þau þurfa að hafa burði til að hafa frumkvæði að athugunum á einstökum mörkuðum samhliða því sem öðrum málum er sinnt. Því hefur verið tekin ákvörðun um það af hálfu stjórnvalda að leggja fram frumvörp á næstunni þar sem tillögur er að finna um eflingu samkeppnisyfirvalda og skarpari löggjöf á því sviði.

Eins og ég sagði í upphafi, hæstv. forseti, er ég ánægð með að samkeppnislögin virka í þessu máli. Ólöglegt samráð fyrirtækja er ekki liðið og verður ekki liðið hér á landi. Um það er sátt í samfélaginu.